14.8.2008 | 10:13
Ólíkindatólin í borgarstjórn
Ég ætla að skreppa í berjamó, er að verða nokkuð viss um að í dag þegar ég kem heim verður kominn enn einn borgarstjórnarmeirihlutinn. Þar sem slík ólíkindatól eiga í hlut er erfitt að segja til um hvernig hann muni líta út. Hér eru nokkrar hugmyndir:
a. Hanna Birna borgarstjóri, Óskar forseti borgarráðs, formaður skipulagsráðs og ... framsókn fær fleiri nefndir en Ólafur fékk (enda fá þeir ekki borgarstjórastólinn). Óskar hefur mikla reynslu af borgarmálum hefur setið í nefndum og verið varaborgarfulltrúi síðan 1994.
b Til að leika á sjálfsæðisflokkinn, segir Ólafur af sér, Margrét Sverris tekur við hans stöðu og Tjarnarkvartettinn tekur við. Ólafur gerir starfslokasamning.
c. Tjarnarkvartettinn gerir málefnasamning við sjálfstæðismenn um að verja þá, vegna þess að þau finna til ábyrgðar gagnvart borgarbúum og vilja tryggja að borgin verði starfhæf næstu mánuði. Ólafur fær að dangla út í horni.
d. VG fer í samstarf við sjálfstæðisflokkinn, Svandís velur nefndaformensku fyrir sitt fólk og verður forseti borgarstjórnar. bæði a og d er gert undir því yfirskini að bjarga borginni á erfiðum tímum og að þora að taka ábyrgð.
f. Ekkert ofangreint heldur bara eitthvað allt annað sem ég hef ekki hugmyndaflug í.
Verst er að allt þetta ferli hefur gríðarleg áhrif á allt borgarkerfið, "litlir" þættir eins og sérkennsla líður fyrir. Starfsmannaráðningar í hinar ýmsu borgarstofnanir, ákvarðanir um skipulagsmál, allt líður þetta fyrir þann óstöðugleika sem ríkt hefur og útlit er fyrir að ríki áfram.
Það er nokkuð ljóst að flest það fólk sem nú er við völd í sjálfstæðisflokknum í borginni hefur tekið þátt í pólitísku fjöldasjálfsmorði. Það hefur ekki sýnt pólitískt hugrekki til að standa undir þeirri ábyrgð sem það var valið til. Kynslóðaskipti sjálfstæðismanna í borginni hafa mistekist hrapalega.
Hvað sem gerist næstu mánuði verður það aldrei nema að krafs í bakkann.
![]() |
Borgarfulltrúar segja fátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.8.2008 | 16:33
Tiltekt leiðir í ljós ...
Í dag kláraði ég skápana í eldhúsinu - tók allt út úr búrskápsómyndinni og skoðað nákvæmlega. Dagsetningar á sumum pakkavörum ná aftur til 2003. Það kom svosem ekki á óvart, pakkasúpur eiga til að daga upp, einstaka grænu baunadósir líka. Sérstaklega vegna þess að yfirleitt eldum við ekki pakkasúpur og ég er löngu hætt að bera fram grænar baunir. En það sem kom mest a óvart var gríðarlegt magn af matarlími. MATARLÍM sem ég nota kannski 3x á ári í tengslum við hefðbundna frómasgerð um jól, áramót og kannski einu sinni í viðbót. En ég á birgðir samkvæmt vörutalningu til 5 ára. Ég er samt nokk viss um að um næstu jól, gríp ég með nýjan pakka. Alveg viss um að ég á ekki nóg heima.
13.8.2008 | 10:01
Heimaskítsmát sjálfstæðisflokksins veruleiki
Í janúar bloggaði ég um væntanlegt heimaskítsmát sjálfstæðismanna. Það er reyndar flest löngu komið fram sem ég þá ræddi. Sjálfstæðismenn eru eins og barðir rakkar á flótta undan eigin ákvörðunum. Vilja helst ekki sjást nálægt oddvita sínum, sjálfum borgarstjóranum Ólafi sem sólar upp og niður völlinn án nokkurar fyrirstöðu að því er virðist. Lausnin er að leita í skjól til míns gamla skólabróður og samherja Óskars Bergssonar. Honum er ætlað að bjarga íhaldinu frá sjálfum sér hér í borg.
Þó staða framsóknar sé nú slæm held ég að hún verði verri við næstu kosningar ef það verður ofan á. Ég á ekki von á að sjálfstæðismönnum eigi eftir að ganga vel næst, ég held að þeir hafi gengið of mikið fram af kjósendnum sínum á þessu kjörtímabili til þess eins að nýr kandidat í borgarstjórastólinn dugi næst til árangurs. Kjósendur eru ekki fífl þó að stundum haldi stjórnmálamenn það. Fórnarkostnaður okkar borgarbúa vegna valdaásælni sjálfstæðiflokks og Ólafs hefur verið heldur há. Við eigum betra skilið. Hins vegar held ég að fórnarkostnaður framsóknar yrði líka hár. Sjálfstæðimenn fá á sigg högg en þungi refsingarinnar lendir á frammsókn, hættan er að hann þurrkist út í borginni.
Hér má svo lesa færsluna frá því í janúar
Þetta er snilldar leikflétta hjá Ólafi F. Magnússyni og miklu dýpri en menn almennt virðast ræða. Ég held að þetta sé djúphugsuð og mjög óvenjuleg leikflétta. Sönn hefnd, tilreidd köld. Sumir eiga verr skilið en aðrir og kannski vinur minn Villi mest. Leikfléttan getur litið svona út.
- Ólafur er guðfaðir nýs R-lista samstarfs, nær þar að komast inn í hlýjum sem honum var neitað um þegar R -listinn var enn við völd. Þá fékk hann að dúsa úti hjá bæði meirihluta og minnihluta. Stund endurgjalds er komin.
- Villi hittir Ólaf og skynjar að hann er ekki alveg glaður í hinum nýja R-lista. hann sér leik á borði og bíður Ólafi upp í dans.
- Ólafur heldur Villa volgum, en lætur samtímis fréttast að það sé verið að bjóða í sig.
- Villi tapar kúlinu og bíður allt, með eða án, málefna D-listans. Villi hefur ekki hugmynd um að Ólafur er að sóla, ekki fyrr en of seint.
- Ólafur er orðinn borgarstjóri, kemur sínum hjartans málum að nú verða sjálfstæðismenn að vinna að þeim. Vera þjónar Ólafs, þjónar sem ávallt eru með það sverð hangandi yfir að með litlum fyrirvara sé hægt að hrifsa af þeim völdin.
- Ólafur veit sem er að hans dagar í pólitík eru hvort eð er taldir eftir næstu kosningar, en arfleið hans (flugvöllur og Laugavegur) mun lifa.
- Villi er búinn liðið hans Villa er búið, borgarbúar munu refsa þeim í næstu kosningum. Innreið þeirra í landsmálin verður þyrnum stráð ef þau á annað borð treysta sér þá leið. Eftir þetta verða þau aldrei meira en meðreiðasveinar í pólitík
- Sannkallað heimaskítsmát hjá Villa og D- listann
Ég efast um að Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að fagna þessum gjörningi þegar fram í sækir. Allt sem þeir hafa hingað til talið sér til tekna og státað sig af (hvort sem það hefur nú verið rétt) er nú fallið. Hefndarþorstinn varð flokkshollustunni yfirsterkari.
![]() |
Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.8.2008 | 18:20
Nú byrjar Sturlubarnið í leikskóla
Sturlubarnið er orðinn Hafnfirðingur eins og amma hans er fædd (ég fæddist sem sagt á Sólvangi fyrir margt löngu). Hann fer meira að segja langt með að flokkast innfæddur, bæði afi minn og langafi Hafnfirðingar. Afi (Lilló) hefur af þessu svolitlar áhyggjur, heldur að barnið verði harður FH-ingur. Kannski er ástæða að óttast, mamma Sturlubarnsins keppir nefnilega fyrir það lið í frjálsum.
Sturlubarnið er að byrja í leikskóla og fór þangað heimsókn daginn sem hann opnaði. Ég fór líka, enda löngu búin að lofa að vera faglegur ráðgjafi með starfinu þar næsta vetur. Sturlubarnið er nokkuð öruggur með sig. Um leið og við komum í leikskólann (hann var auðvitað með pabba sínum og mömmu), sá hann áhugaverða hluti á gólfinu sem hann þurfti að skoða nánar og skreið af stað. Þetta voru hringir í mismunandi litum sem eru límdir á gólfið. Svo sá hann hin börnin. Við það færðist hann allur í fang og vildi ólmur komast til þeirra. Gerði sitt besta til að hafa við þau samskipti. Brosti og elti þau, bablaði og rétti þeim. Sum vildu hafa samskipti við hann önnur vildu kúra í öruggu fangi mömmu eða pabba. Hér áður var því stundum haldið fram að ekki væri hægt að tala um félagslegan þroska hjá ungum börnum, í dag vita menn betur og að lítil börn fara mjög snemma að sýna félagslegan þroska. Sannarlega sá ég það á föstudaginn.
Í sumar erum við afi búin að vera svo lánsöm að vera í hlutverki dagömmu og afa. Sturlubarnið er búið að flækjast víða með okkur, sjá margt og gera. Hann er búin að hitta fullt af fólki og amma mjög upptekin við að láta hann reyna á sig og takast á við umhverfið. Það að Sturlubarnið er vanur rannsóknum sást vel þennan fyrsta dag. Hann skreið um allt húsið, skoðaði og prófaði nýja hluti. Hér á eftir fylgja með myndir sem ég og afi tókum af rannsóknum hans á umhverfinu. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég þekkti mjög mikið af því fólki sem þarna var samankomið og var því ögn uppteknari af samskipta við það en að fylgja Sturlubarninu. Enda hann á ábyrgð foreldra sinna í leikskólanum.
Ég sagði við vinkonum mína að ég vildi nú gjarnan fá að vera með honum í aðlöguninni, bara til að sjá hvernig hann upplifir umhverfið. En þar sem ég kenndi löngum bæði um foreldrasamskipti og aðlögun, þá veit ég að aðlögunin er mikilvægur tími fyrir foreldra, börn og starfsfólk til að kynnast hvert öðru og byggja upp góð og jákvæð samskipti. Þetta er sá tími sem starfsfólkið er að kynnast börnum og foreldrum, foreldrar að treysta utanaðkomandi aðilum fyrir börnunum sínum og börnin ekki bara að læra að vera án foreldra og kynnast nýju fólki heldur eru þau líka að læra að vera í hóp með öðrum börnum og það er ekkert lítið. Ég verð því að treysta á uppeldisfræðilegar skráningar starfsfólksins. Það verður að vera minn gluggi inn í fyrstu daga Sturlubarnsins í leikskólanum. **)
Annað sem ég er að velta fyrir mér er hvort að þegar barnið er orðið virðulegt leikskólabarn hvort að þá eigi ekki að fara að ávarpa það með nafni.
Meðfylgjandi er líka albúm um fyrstu heimsóknina í leikskólann. Læt líka fylgja með myndir af leikskólaþjálfun ömmunar í Miðstrætinu daginn áður en Sturlubarnið barnið fór í heimsóknina.
Sturlubarnið rannsakar sullukerið
Það sést ekki á myndunum en Sturlubarnið var að færa sama hlutinn á milli hólfa, aftur og aftur. Það var ekki vatn í kerinu en það skipti engu. Hann tók upp lítinn hlut og færði höndina yfir í hitt hólfið þar sem hann sleppti. Hann endurtók ferlið sennilega 10 sinnum. Hann er einmitt á þeim aldri þar sem endurtekningar eru afar mikilvægar, að hafa tækifæri til að endurtaka skilar sér í auknum skilningi og þroska. Ég horfði á, tók myndir og sagði ekki orð.
Mögulegur vinur
Segull er heillandi, Sturlubarnið er nýbúinn að uppgötva kraft segulsins
Seglarnir eru í svart-hvíta herberginu. Allir hlutir sem eru þarna inni eru annað hvort svartir eða hvítir eða munstrað í þeim litum. Annars eru ekki nema nokkrir daga síðan Sturlubarnið gerði sér grein fyrir undri segulsins. Í leikfangaboxinu hans er gamall baukur sem gerður er úr niðursuðudós, þar er líka að finna hjarta sem synir okkar hafa einhvertíma fært okkur (með áletrun um að við séum heimsins bestu foreldrar). Þetta hjarta er ætlað á ísskápa eða þessum líkt en hefur af einhverjum ástæðum endað í kassanum hjá Sturlubarninu. Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir að hann stóð mjög einbeittur á svip og reyndi (að ég hélt) að troða hjartanu ofan í baukinn. Mikið að vesenast. Svo mikið að hann gleymdi að hann er enn ekki farinn að standa sjálfur, hélt jafnvæginu og var að reyna eitthvað. "Hvað er hann að gera?" spurði ég Lilló. "Hann er með segull svaraði hann." Ég fór þá að veita þessu baksi hans meiri athygli. Þá sá ég að hann var að reyna að snúa hjartanu rétt, það er að segullinn snéri að málminum. Svo tók hann þetta í sundur og endurtók aftur og aftur. Hann var mjög upptekinn við að láta segulinn festast ofan á dósinni (þar sem gatið fyrir peningana er). Hann var að uppgötva orsök og afleiðingu og að gera sér grein fyrir kröftum segulsins. Eðlisfræðinám hefst nefnilega mjög snemma.
Annað sem áhugavert er að skoða á myndunum af seglunum hér að neðan er að hann tekur aldrei svörtu seglana. Hvort það er vegna þess að hann gerir sér ekki grein fyrir þeim eða að það sem sker sig úr dragi athygli hans til sín veit ég ekki. Kannski að starfsfólkið pæli í því hvernig mismunandi börn nálgast seglana.
Snúningsdiskurinn heillaði, líka félagsskapurinn
Sturlubarnið sér hristuna - sækir hana og lætur nýju vinkonuna hafa hana, ánægjan yfir afrekinu leynir sér ekki.
Umhverfið rannsakað
Takið eftir speglum og ýmsum tjöldum sem eru notuð til að brjóta upp rýmið en líka til þess að skpa möguleika til samskipta og leikja.
Amma undirbýr Sturlubarnið fyrir leikskólagöngu heheh
Menntun og skóli | Breytt 12.8.2008 kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.8.2008 | 12:19
Var ekki á Clapton í boði bankans - heldur vina
Vinkona mín bauð mér með sér á Clapton tónleikana í gærkvöldi. Við völdum að mæta snemma og fengum stæði framarlega við sviðið. Hittum fullt af skemmtilegu fólki sem við röbbuðum við á meðan biðinni stóð. Á slaginu átta hóf svo Ellen upp raust sína. Klukkan níu byrjaði svo meistari Clapton. Við eins og fleiri hefðum alveg valið að heyra fleiri af eldri lögum hans. En auðvitað vilja tónlistamenn fá tækifæri til að kynna ný verk eftir sig. Ég átti heldur ekki von á öðru. Vinkona mín sagðist hafa fundið gigtina líða úr sér þegar leið á tónleikana og hún að hreyfa sig í takt við tónlistina. Við hörfðum vit á að mæta á sandölum en vorum heldur vel klæddar, fötum fækkað því aðeins þegar leið á kvöldið. Held að ég sé svona númeri minni í dag en í gær, eftir vatnstapið. Við vinkonurnar höfðum gert ráð fyrir að það tæki okkur smá tíma að komst heim. Ég var undirbúin með banana í bílnum. Við sátum og röbbuðum út í bíl í einhverjar 45 mínútur þangað til röðin kom að okkur og ég var komin heim rétt rúmlega 12 ánægð og sæl eftir vel heppnað kvöld.
Á leiðinni út af tónleikunum smygluðum við okkur á eftir stúkugestum, þeir fóru flestir í rútur vel merktar Landsbankanum. Ég held að Landsbankinn hafi ekki boðið sínum bestu viðskiptavinum þeim sem halda upp bankastarfsemi fyrir þá á tónleikanna. Þá á ég við fólkið sem borgar endalausa dráttarvexti og yfirdráttarlán. Sem hefði sannarlega glaðst yfir góðu boði. Neibb held að flestir gestanna hafi verið fólk sem átti alveg fyrir miðunum. En Landsbankinn sér vel um sína gesti, það sáum við. Það var borið í þá veigar í föstu og rennandi formi. Ætla að leggja til við Lilló að hann skipti um banka, færi sig t.d. í minn. Nú veit ég svo sem ekki hvort hann ástundar svona boð eða gjafir, ég hef allté ekki orðið vör við það. En ef hann gerir það vona ég að hann hafi einhver jafnræðissjónarmið uppi þegar hann ákveður hvaða viðskiptavinir njóta góðs af. Best væri auðvitað ef þeir lækkuðu bara hin ýmsu gjöld.
Annars er farið að stilla upp fyrir Gay pride, heyri tónlist óma neðan úr miðbæ. Ætli sé ekki best að skreppa út og gá til veðurs, kannski að skreppa á Laugarveginn til þess.**)
7.8.2008 | 11:14
Vetrarstarf leikskóla undirbúið
Þessa dagana eru leikskólar landsins í óða önn að undirbúa vetrarstarfið. Ráða inn það fólk sem vantar og leggja línur um áherslur í vetur. Í því tilefni fékk ég í gær að heimsækja einn skóla og verja dagsparti með þeim við undirbúning. Ég var með innlögn um leikskólastarf með yngstu börnunum í anda Reggio Emilia í nýjum ungbarnaskóla sem opnar í Hafnarfirði í næstu viku. Skólinn er fullmannaður og er flest starfsfólkið leikskólakennarar. Leikskólastjórinn segir mér að hún hafi staðið frammi fyrir því að hafna hæfu menntuðu fólki. Auðvitað er staðan ekki allstaðar jafn gleðileg, alla vega ekki enn. En ég vænti þess að ástandið í haust verði þó ólíkt því sem verið hefur undafarin haust. Ég hef af því reynslu að vera leikskólastjóri á tímum uppgangs og þegar þrengra er í þjóðarbúinu. Það er tvennt ólíkt, því miður. Ég vildi óska að staðan væri ávallt sú að störf við umönnun og menntun væru sjálfkrafa fyrstu störfin sem fólk veldi sig til.
Ein ástæða þess að skólinn sem ég minntist á hér að ofan er svona vel settur með mönnun er að hann býr að því að vera nýr og að hafa þegar markað þá stefnu sem ætlunin er að starf samkvæmt. Ekki bara það að það sé búið að marka stefnuna heldur hafa leiðtogar skólans varið mörgum árum í að lesa sér til og reyna ýmislegt samkvæmt stefnunni. Meðal annars starfað í leikskóla þar sem hún var lögð til grundvallar. Það er löngum vitað að það heillar marga leikskólakennara að vinna á stað sem hefur frá upphafi markað sér sérstöðu. Ég óska öllum leikskólum landsins velfarnaðar.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
6.8.2008 | 01:36
Í rassgatinu á sjálfum sér, segist hann vera slæmur
Þessi færsla er sérstaklega skrifuð fyrir Systu vinkonu mína. Hún fjallar nefnilega um afa okkar. Þeir voru samferðamenn um tíma á Siglufirði og virðist sem afi minn Kristján hafi fótbrotnað og fengið gyllinæð ofan í brotið. Læknir hans var Steingrímur afi Systu. Honum hefur þótt þetta kómísk og sett saman eftirfarandi vísubrot.
fremur batadræmur.
Í rassgatinu á sjálfum sér
segist hann vera slæmur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)