15.9.2008 | 00:42
Menntaþing
Á föstudaginn fór ég á menntaþing, menntamálaráðherra í tilefni nýrra laga um öll skólastigin og um kennaramenntunina. Það var tilkomumikið að hitta sjá 800 kennara af öllum skólastigum safnast saman og ræða og pæla í sínum málum. Ræða ráðherra var upplýsandi og sagði töluvert um sýn hennar á framtíð skólamála. Lykilorðin eru sveigjanleiki og frelsi og svo eru öllu pakkað inn í lýðræðisbúning. Að hluta virka þessar lýðræðisáherslur eins og kápa til að hylja það sem undir er. Mér finnst nefnilega vera svolítill frjálshyggjusvipur á sumum af þeim nýmælum sem eru í lögum um leikskóla og jafnvel miðstýringarárátta. Með því á ég t.d. við hæfnisviðmið og þrepamarkmið í leikskólastarfinu. Hvorugt atriði sem falla mér í geð. Sumt annað er ég ánægð með og tel vera til bóta. Ég tek reyndar undir orð Þorbjargar Helgu en í málstofu um leikskólann taldi hún að með nýjum lögum væri frelsi leikskólans frá því sem áður var, vera skert. Sumt af því sem hún taldi aftur ógnandi við nýju lögin tel ég hinsvegar vera styrkeika þeirra. Þar á meðal það ákvæði að fermetrum á barn verði fjölgað. Hún taldi það ákvæði hugsanlega eiga eftir að íþyngja sveitarfélögum. Um það skal ég ekki segja. Ég veit hinsvegar að það er líklegt til að styrkja innra starf fjölmargra skóla og það á eftir að hafa mikil áhrif á líðan bæði barna og starfsfólks. Og þannig að að auðvelda sveitarfélögum rekstur leikskóla.
Aðalerindin
Aðalerindin voru nokkuð misjöfn, Catherine Lewis fjallaði um það sem hún kallar lesson study, og byggir í því að rýna í eigið starf og starfsaðferðir, en ekki síst í það hvernig börn læra. Mörgum leikskólakennurum sem ég hitti fannst að á eftir fyrilestri Lewis hefði mátt koma umfjöllun um uppeldisfræðilega skráningu því tenging þar á milli er mjög ljós. Bæði byggir á því að ígrunda eigið starf og það sem er á gerast á deildinni (skólastofunni) í ljósi kenninga og fyrri þekkingar. Einn þinggestur spurði mig hvað ég teldi að leikskólakennurum hafi fundist um fyrirlestur Lewis, sjálfur taldi hann að leikskólakennarar og yngri barna kennarar hefðu skilið hann en hann hafi farið ofan garðs og neðan hjá framhaldsskólakennurum. Vinnubrögð í þessa átt væru þeim ekki jafn eiginleg og okkur sem vinnum á yngri stigunum.
Ég var að hugsa um að sleppa því að hlusta á Jens Bjornavold en var eftir á fegin að hafa ekki gert það. Hann var afar áhugaverður en ég er ekki viss um að margir leikskólakennarar séu mér sammála um það. Held að hann hafi verið of sértækur fyrir allflesta. Ástæða þess að ég hlustaði á Bjornavold var að á undan honum kom fram kór Fögrubrekku undir stjórn Jennýjar Gunnarsdóttur og Asako Ichiachi og þau voru guðdómleg. Ég gat náttúrulega ekki sleppt því að hlusta á þau og ílentist svo. Takk Fagrabrekka.
Málstofa
Ég fór í málstofu um leikskólann um morguninn, það sem mér fannst helst að var að erindi fólks voru of löng og ekki gafst nægur tími til fyrirspurna. Margir leikskólakennara höfðu á orði fyrir ráðstefnuna að þá undraði að enginn leikskólakennari væri á dagskrá á málstofu um leikskólann. Bæði í málstofu um grunnskólann og framhaldsskólann var þeirra fulltrúi að sjálfsögðu í pallborði. Þegar að málstofunni kom hafði ráðuneytið áttað sig á þessu og bað Sigurlaugu Einarsdóttur leikskólastjóra að vera með, hún byrjaði á að greina frá að hún væri frekar óundirbúin enda bara beðin með tæpum sólahringsfyrirvara.
Ráðherra var mjög sýnileg á þinginu. Hún sló á létta strengi en tókst samtímis að vera alvarleg. Tókst það bara nokkuð vel. Einn þinggest hitti ég sem var afar ánægð með frammistöðu ráðherrans. Sagði hana bara vera í vitlausum flokki. En er einhver einhvertíma í réttum flokki?, spurði þá annar kennari í hópnum.
Umkvörtunarefni mitt við ráðuneyti menntamála
Annars er það mitt helsta umkvörtunarefni við ráðuneyti menntamála sem hefur faglegt eftirlit með starfi leikskóla og ber á því ábyrgð að þar hefur ekki starfað leikskólakennari síðan Svandís Skúladóttir fór á eftirlaun á síðustu öld. Mér finnst það alveg ótrúleg móðgun við leikskólakennara að þar hafa menn ekki talið þörf á að nýta sér þekkingu þeirra að staðaldri. Það er ekki nóg að kalla til fólk í starfshópa inn á milli. Ég veit að stéttarfélag leikskólakennara hefur í gegn um tíðin gert við þetta athugasemdir en fyrir tómum eyrum. Kannski var undirbúningur ráðuneytisins fyrir málstofuna um leikskólann lýsandi dæmi um viðhorf ráðuneytisins gagnvart leikskólanum eða einmitt afleiðing þess að þar starfar enginn leikskólakennari.
Menntun og skóli | Breytt 17.9.2008 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2008 | 00:13
Karlar prjóna lopapeysu á kaffihúsi
Í dag skrapp ég á fund á kaffihúsi. Þegar ég kom inn blöstu við mér tveir miðaldra karlar. Litu út fyrir að vera í landvistarleyfi af sjónum. Minntu á suma smábátaútgerðarmenn í vaxtarlagi. Þéttir á velli og vel skeggjaðir. Nema annar var með hringprjón og á honum lopapeysuskrokk , hinn var með ermi á fjórum prjónum. Fyrir framan þá lá prjónauppskriftablað og þeir virtust önnum kafnir við að telja út munstur enda að prjóna þetta hefðbunda lopapeysumunstur. Fundarfélagi minn laumaði út úr sér. Hvað, bara handprjónasambandið mætt á staðinn. Ég sá fyrir mér svona prjónakaffi eins og þau gerast best. Voru algeng þegar við bjuggum í Seattle fyrir nokkrum árum. Ég var með myndavél í veskinu og dauðlangaði til að smella af þeim mynd en ákvað svo að sleppa því. Fannst það fullfrekt af mér. Hvað um það, lifi handprjónið.
Annars minnti þetta mig á sögu sem afi sagði mér af kunningja sínum á sjónum sem prjónaði allt á fjölskylduna. Það var reyndar einhver tíma um miðja síðustu öld. Svo fór ég líka að hugsa hvers vegna vekur það svona mikla eftirtekt að tveir karlar sitji með prjónana sína á kaffihúsi, hvað hef ég ekki séð margar konur gera það. Á fundum og í tímum líka (reyndar pirrar það mig, það heyrist nefnilega iðulega klikk, klikk, klikk í prjónum og einbeiting mín út um gluggann). Þessi skemmtilega sýn fékk mig til að hugsa um konur sem eru að sinna dæmigerðum karlastörfum. Horfa karlar á og hugsa enn hvað þetta er krúttlegt? (Stóð mig nefnilega að því).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2008 | 13:20
Verkefni um veður og menningu
Nú er vetrarstarf SARE að fara að stað. Fyrsta verkefni okkar verður tengt því sem stendur hjarta okkur Íslendinga næst þ.e. sjálft veðrið. Um það getum við talað, skrifað, skáldað, skoðað, skemmt okkur og hvað eina. Veðurverkefni SARE er einmitt ætlað að gera allt þetta. Við ætlum að fjalla um veður og áhrif þess á líf okkar og störf í víðri merkingu. Í morgun sendi ég út póst til þeirra leikskóla sem eru í SARE (samtök áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia) um verkefnið og fyrsta fund okkar í næstu viku. En ef það eru fleiri leikskólar sem starfa í anda Reggio Emilia og hafa áhuga á að vera með en hafa ekki af einhverjum ástæðum fengið bréf frá mér. Er um að gera að senda mér línu. Verkefnastjóri að hálfu SARE verður Guðrún Alda Harðardóttir, helsti sérfræðingur landsins í hugmyndafræði og vinnubrögðum Reggio Emilia. Læt svo fylgja hér með kynningarbréfið á verkefninu frá því í sumar.
Verkefni á vegum SARE
Ég mæti gömlum manni,
í morgun í skúraveðri
og karlinn hann var klæddur,
í kápu úr brúnu leðri.
Ég sá að hann vildi eitthvað segja,
svo ég aðeins beið,
Já einmitt sagði hann, já einmitt,
og fór sína leið.
Leikskólar í SARE, tillaga að verkefni veturinn 2008- 2009
Að leikskólar taki fyrir veðrið. Til að undirbúa verkefnið verði námskeið með þeim a.m.k. þeim leikskólakennurum sem leiða verkefnið í hverjum skóla jafnvel fleiri starfsmönnum. Á námskeiðið verða fengnir sérfræðingar um; veður, menningarsögu tengda veðri og eðlisfræði. Þessir aðilar kafi með þeim sem eru á námskeiðinu ofan í hugtök og hugmyndafræði tengda veðri. Jafnframt verður boðið upp á námskeið um uppeldisfræðilega skráningar og tæknivinnslu þeirra í tengslum við verkefnið.
Hugmyndin er að byggja veðurverkefnið þannig upp að fá fram tilgátur barna um ýmislegt tengt veðri og síðan að vinna með þær. Hver skóli útfærir verkefnið á sinn hátt og tengir sínu umhverfi og menningu.
Á meðan á verkefninu stendur verða reglulega haldnir sameiginlegir fundir með leiðtogum (verkefnastjóra) skólanna. Á þeim fundum verður pælt sameignlega í a.m.k. einni skráningu í hvert sinn. Á skólaþróunardegi SARE þann 30. janúar verða öll verkefnin kynnt.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2008 | 01:54
Hver er ég, Kristín Dýrfjörð?
Ég hef í gegn um tíðina fengið ýmsar athugasemdir um skoðanir mínar, svo langt hefur það gengið að utanaðkomandi hafa talið sig þurfa að kvarta við samstarfsfólk mitt og yfirmenn. Ég lít ekki á það sem mitt hlutverk að vera skoðanalaus þó ég sé kennari. Þvert á móti. En mér finnst líka rétt að nemarnir viti hvar ég stend, það er ekkert leyndarmál. Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum árum að skrifa kynningu á sjálfri mér. Bréfið hér að neðan er einmitt sú kynning og er að finna inn á heimasvæði námskeiðs sem ég kenni. Í gegn um tíðina hef ég kennt hundruð verðandi leikskólakennurum, ég get sagt með stolti að sumir aðhyllast sömu hugmyndir og ég en líka með stolti að aðrir gera það alls ekki. Allt þetta fólk hefur að sjálfsögðu sjálft valið hvar það stendur og af því er ég afar stolt.
Hjá mér var nýlega í heimsókn leikskólakennari og ég var að segja henni frá fyrirlestri í leikskólafræðum sem var tengdur kenningum skammtafræðinnar. Ég minntist í leiðinni á hvernig ég nota hugtakið PRISMA í kynningunni á sjálfri mér. Hún vildi fá að lesa þessa kynningu, þegar hún var búin bað hún mig að skella henni inn á bloggið mitt. Fannst kynningin eiga erindi til fleiri. Held reyndar að hún sé bara svona skotin í hugmyndinni um uppeldisfræðilegt prisma. Kannski er ég bara svara klukkinu hennar Ingibjargar Margrétar á nýjan hátt.
Bréf mitt til nemanna
Sem hluti af námi ykkar hafið þið sennileg rekist á Uppeldislega játningu John Dewey, þar sem hver málsgrein byrjar á: Ég trúi. Ég er ekki að setja fram mína uppeldislegu játningu í saman skilningi en mér finnst mikilvægt að þið vitið hvar ég stend. Hverjar mínar áherslur séu og á hvað ég trúi í uppeldisfræðum. Dewey segir að hann trúi að menntun sé lífið sjálft en ekki undirbúningur undir það sem koma skal (MPC, Article 2 What the school is 2. málsgrein). Undir þau orð tek ég heilshugar.
Mitt markmið er ekki að segja ykkur eða fræða um hvað sé rétt og hvað sé rangt ekki að kenna ykkur um hin einu sannindi eða hina einu aðferð. Mitt hlutverk er að vekja forvitni fá ykkur til að hugsa stundum eftir sömu línum og ég ... stundum eftir einhverju öðrum það er undir ykkur komið.
Öllum er frjálst að hafa sína skoðun öllum er frjálst að koma þeim á framfæri (mér líka) en allir verða að geta fært rök fyrir því sem þeir setja fram. Önnur rök en, mér bara finnst þetta, eða svona er þetta. Svo það sé alveg á hreinu þá tek ég ekki allar skoðanir góðar og gildar. Ég get til dæmis ekki liðið það sem ég kalla mann- og/eða barnfyrirlitningu jafnvel þegar fyrir henni eru færð rök. Ég áskil mér rétt til að mótmæla og setja mínar skoðanir/rök fram. Ef ég er á annarri skoðun en þið, merkir það ekki endilega að það sé rétt skoðun eða að ég ætlist til að þið aðhyllist hana. En, ég mun reyna að færa fyrir skoðunum mínum rök. Hvort þið kaupið þau eða ekki eða hafið betri rök sem ég skal hlusta á er ykkar mál. Einn grundvöllur lýðræðis er samræða samræða ólíkra sjónarmið. Samræða þar sem rök vega þungt. Hvernig þessi rök eru er svo allt annað mál.
Mannskilningur og lífsýn
Ég held að þið vitið mörg af afspurn að ég aðhyllist ákveðna hugmyndafræði, ég hef aldrei haldið því leyndu. Hugmyndafræðin sem ég aðhyllist og hef unnið að einhverjum marki eftir frá því að ég útskrifaðist sem fóstra fyrir um 20 árum byggist á ákveðinni lífsýn og mannskilningi. Hún byggist á uppeldi mínu, reynslu sem ég hef orðið fyrir og menntun minni. Hún er að hluta það nesti sem ég fékk úr barnæskunni og að hluta það sem ég hef tínt upp af götu lífsins. Allt hefur þetta mótað hver ég er. Mér finnst mikilvægt að þið gerið ykkur snemma grein fyrir hver sé ykkar eigin mannskilningur og lífsýn.[1]Þættir sem móta uppeldislega sýn ykkar.
Fröde Söbstad skilgreinir uppeldislega sýn sem:
Skynjun á raunveruleika, gildismat og afstaða sem er undirstaða uppeldislegra starfa viðkomandi. Að baki vali viðkomandi á aðferðum og framkomu eru alltaf einhverjar hugmyndir, gildi og afstaða. Þessa uppeldislegu sýn er m.a. hægt að flokka í nokkra flokka að mati Söbstad. Þá mikilvægustu telur hann vera, heimspekilegt viðhorf, trúarlega afstöðu og félagsfræði-, stjórnmála- og sálfræðilegar-kenningar sem við aðhyllumst.
Ég hef í gegn um tíðina verið frekar upptekin af ýmsum sögulegum þáttum og skal alveg viðurkenna að saga hefur ávallt verið eitt af mínum uppáhaldsfögum. Fræðimenn sem ég hef lesið og hafa haft mikil áhrif á mig frá upphafi eru bæði Fröbel og Dewey. Annar er talinn standa fyrir hin kvenlægu gildi í leikskólafræðum, hinn er talinn höfundur hinna karllægu gilda. Sjálf taldi ég þetta að hluta en því meira sem ég les finnst mér það ekki endilega vera rétt. Það sem hrífur mig hjá þeim er annarsvegar sýn á barnið og hinsvegar sýn á samfélagið og lýðræðið. Ég hef líka verið hrifin af hugmyndafræði sem er kennd við borgina Reggio Emilia á Ítalíu. Ekki vegna þess að það er listuppeldi eins og þið vitið að margir álíta það vera ekki vegna þess að þar er umhverfið þriðji kennarinn, að hluta vegna áherslu á sköpun, en aðallega vegna hugmynda þeirra um lýðræði og mikilvægi samræðunnar. Vegna lykilhugtaka eins og pedagogy of listening eða uppeldisfræði hlustunnar, að í lýðræði felist það að hlusta. Carlina Rinaldi segir í Reggio byggist hugmyndafræði þeirra að stórum hluta á uppeldisfræði hlustunnar. Sem feli í sér að hlusta á raddir sem sjaldan fá að hljóma, hlusta á það sem við reynum svo mikið og oft af öllum mætti að þagga. Hlusta eftir þessum nítíu og níu málum sem við tökum frá barninu.
Hlustun
Mikilvægi þess að hlusta varð mér ljóst sem aldrei fyrr nú í haust þegar ég heimsótti leikskóla þar sem börn voru börn af mjög ólíkum uppruna. Ég var í leikherbergi með þremur, fjögurra og fimm ára stelpum og þær voru mikið að rabba við mig. Ein segir mér með stolti að þegar hún verði stór, verði hún kona. Önnur tekur undir og segir já ég verð líka kona. Nei, nei segir sú þriðja, ég verð ekki kona ég verð stór stelpa. Upp úr þessu spannst mikil umræða sem ég tók þátt í, m.a. um að maður gæti bæði verið stelpa og kona á sama tíma. Þessi unga stúlka keypti ekki þau rök. Vinkonur hennar reyndu mikið að sannfæra hana en hún var föst fyrir og örugg í þeirri vissu að hún yrði ekki kona, heldur stór stelpa. Þessar þrjár stelpur voru frá þremur mismunandi upprunalöndum. Ein er íslensk, ein frá Afríku og sú þriðja, þessi sem vildi alls ekki verða kona er tælensk. Ég velti heilmikið fyrir mér hvort hér væri um vandmál varðandi íslenskuna. En fannst það samt ekki vera, fannst allar hafa góð tök á íslenskunni. Það var ekki fyrr en ég kom heim og fór í alvöru að hugsa um það sem hún sagði að ég hálf lamaðist. Hvaða mynd höfum við af tælenskum konum? Hver er ykkar mynd af konum frá suðaustur Asíu? Þessi litla stúlka veit það.
En svona geta myndir verið mismunandi þegar ég sagði vinkonu minni frá Quatar, velmenntaðri konu, múslima sem klæðist kufli sem hylur allan líkamann og slæðu yfir öllu hári. Þá var hún mest upptekin af því að litla stúlkunni sem sagði með stolti: Þegar ég verð stór, verð ég kona. Eitthvað sem ég hafði ekki pælt í og er enn að pæla í frá sjónarmiði þessarar vinkonu.
Trú á reglur - eða ekki!
Annað sem ég held að gerist ekki í leikskóla þar sem hlustun er stunduð er regla eins og fullorðnir ráða. Mín skoðun er að slík regla byggi ekki á trú á getu barnsins, heldur á öryggisleysi og vandamálum hins fullorðna. Á þörf okkar fullorðna fólksins til að hafa stjórn aðstæðum. Og ef við höfum hana ekki, ræðum við bláköld um agaleysi barnanna. Eitt af því sem við gerum í þessu námskeiði er að afbyggja texta. Hluti af því felur í sér að setja upp eða finna andstæðuna. Fullorðnir ráða hver er andstaðan, er það börn ráði (börn eru jú andstaða/heiti fullorðna) eða er það að fullorðnir eru valdalausir? Ef fullorðnir eru valdalausir hverjir hafa þá valdið? Hvað er þá átt við með völdum? Er það völd til að ráða yfir öðru fólki völd til að segja fólki að sitja og standa samkvæmt geðþótta þess sem hefur valdið? Ráða hverju? Hvaða sýn eða mannskilningur ríkir þar sem þessi setning er höfð að leiðarljósi í starfinu? Með því að afneita fullorðnir ráða reglunni er ég þá að aðhyllast því að börn eigi að ráða því sem þau vilja?
Samræða
Ég aðhyllist líka starf í anda Reggio Emila vegna samræðu sem þar hefur átt sér stað við margt andans fólk, fólk eins og Dewey, Montessori, Freire og jafnvel Makarenko, við Vytgosky og líka Piaget. En líka vegna tengsla þess við næsta umhverfi og þá sem hafa mótað það. Það samræmist að mínu viti vel að aðyllast starf í anda Reggio Emila og að aðhyllast kynjafræði og auðvitað það sem nefnt er gagnrýnin uppeldisfræði. En ég skal líka taka það fram af gefnu tilefni að ég held ekki að leikskólakennari getið unnið í anda Reggio klukkutíma á dag. Alveg eins og ég held ekki að ég geti unnið samkvæmt hugmyndum Rudolf Steiner (Waldorf) klukkutíma á dag og orðið við það Waldorfsk. Ég get vel nýtt mér ýmislegt úr þeirri hugmyndafræði, en það er bábilja að halda að það að taka upp dag/vikuskipulag í anda Steiner eða að nota waldorfdúkkur í leikskólanum geri hann að Waldorfleikskóla. Það þarf meira til. Ég held heldur ekki að það að setja flöskur með lituðu vatni út í glugga og/eða vinna skapandi starf í klukkutíma 2x í viku geri skóla reggióskan.
Í mörg ár og allt of mörg ár hef ég ekki lagt á mig þau óþægindi að nenna að standa í hugmyndafræðilegri deilu um leikskólastarf við þá sem aðhyllast aðrar sýn og hugmyndir en ég geri. Svona allavega ekki ótilneydd. VEL að merkja það er nokkuð öruggt að ég deili um 80% -90% skoðunum með flestu fagfólki um það hvað felist í gæða leikskólastarfi, jafnvel því sem annars er á öndverðum meiði við mig. En það eru þessi 10% - 20% sem eru í grunninn öðruvísi og byggja kannski að einhverju leyti á lífsýn minni og mannskilningi. Sem gera það að verkum að ég get ekki fellt mig við ýmis vinnubrögð. Ég hef ekki keypt þau rök sem fyrir þeim eru færð og ég get ekki fellt mig við þann mannskilning sem þar birtist.
Hugmyndafræði
Nýlega var ég að hlusta á fyrirlestur um muninn á heimspeki annarsvegar og hugmyndafræði hinsvegar, þar var sett fram skilgreining á hugmyndafræði sem mér fannst tala til mín og kannski eitthvað sem líka gerir mér auðveldara með að skýra mína afstöðu. Skilgreining var eitthvað á þessa leið að með hugmyndafræði væri átt við[2]:
að hugmyndafræði einhvers hóps eða menningarsamfélags sé sá hugsunarháttur, kenningakerfi, goðsagnir eða tákn sem einkenna hópinn eða þá sem tilheyra honum. Hugsunarháttur sem þeir sem tilheyra hópnum færa rök fyrir og berjast jafnvel fyrir en samtímis sé annar hópur sem andmælir.
Ef til vill er komið að mér að vera í andmælendahópnum. Að taka á mig þá ábyrgð að andæla jafnt sem að fylgja eftir mínum skoðunum. Hingað til hef ég að mestu leyft mér að vera í meðmælendahóp minna skoðana. Það er nefnilega þægilegast. Eins og þið vitið er gagnrýnin uppeldisfræði að hluta eins og hún birtist í dag rakin til Paulo Freire. Frá honum eru komin ýmis lykilhugtök. Hugtök sem sum hver eru flókin, full af óreiðu og mótsögnum. Sem eiga það til að rugla mann algjörlega í rýminu.
Prisma
Gagnrýnin uppeldisfræði er í hugum sumra eins og prismaog þegar viðkomandi hefur náð á því tökum er ekki aftur snúið. En prisma er þrístrent gler sem brýtur ljósgeisla og þá sjást litirnir sem mynda litrófið. Þannig gefur prismað okkur ekki bara nýtt sjónarhorn heldur hjálpar það okkur að kljúfa það sem við segjum og gerum í ákveðnar frumeindir. Hugsið ykkur ef við ættum til einhverskonar uppeldisprisma, sem gerði okkur kleift að skoða vinnubrögð okkar og hugmyndir, sjá hvað liggur að baki ákvörðunum okkar og gerðum. Sumir segja að gangrýnin uppeldisfræði sé þetta prisma. Orðræðugreining og afbygging er líka hluti prismans. Þar koma inn nöfn annars fræðafólks sem þið eigið eftir að kynnast og kannski að hafa á ykkur nokkur áhrif, má þá nefna frönsku heimspekinganna, Foucault, Derrida, Deleuze og Guattari sem hafa haft mikil áhrif á hin ýmsu fræðasvið m.a. innan leikskólans.
Prisma
(Sjáið hvernig hvítt ljós fer fellur á prismað en greinist í litróf þegar það kemur út hinum megin)
Eitt af því sem er markmið þessa námskeiðs er að kynna ykkur aðferðir til að lesa úr og kynna ykkur á gagnrýnin hátt ýmsar stefnur og strauma leikskólafræðanna. Kynna ykkur verkfæri sem hægt er að nota til að komast að kjarna máls. Eitt verkefni gæti verið að skoða hvernig ég sjálf kem fyrir mig orði orðræðugreina mig. Ég er viss um að ef einhver leggur það á sig á sá hinn sami eftir að komast að því að ég eins og flestir aðrir hættir við að vera í mótsögn við sjálfa mig vera ekki alltaf rökrétt.
[1] Sjá kennslubréf hér að neðan um ýmsar tegundir mannskilnings
[2]Reyndar fer þessi skilgreining ansi nálægt skilgreiningu Deweys á samfélagi. Bendi ykkur á að lesa fyrirlestur minn um John Dewey á webct.
Menntun og skóli | Breytt 8.4.2012 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.9.2008 | 23:59
Fyrstu skrefin
Sturlubarnið hefur tekið svolítinn tíma í að æfa sig í að ganga. Hann er búinn að ganga með í nokkuð langan tíma en hefur ekki viljað sleppa sér. En á meðan amma skrapp á ráðstefnu um leikskólamál til Noregs tók pilturinn upp á því að fara yfir heilu gólfin án hjálpar á tveimur jafnfljótum. Dálítið staurfættur en fór samt. Afi tók af þessu alveg dásamlegt myndband, það sem stendur upp úr (ja fyrir utan skrefin) er að Sturlubarnið sleppti aldrei augnsambandi við afa á gönguferð sinni. Horfði allan tímann einbeittur á afa. Leit ekki niður, ekki til hliðar, bara á afa. Enn eru nú bara tvær tennur komnar upp, kannski heldur hann upp á eins árs afmælið seinna í mánuðinum með fleiri tönnum.
Leikskóladvölin gengur eins og í sögu. Þegar hann er orðinn aðeins æfðari ætla ég að fá að vera dagspart með honum og gera uppeldisfræðilegar skráningar. Hlakka mikið til.
Evrópuverkefni
Annars er það helst í fréttum að ég á von á dönskum gesti Henrik Bak í næstu viku sem ætlar að heimsækja nokkra skóla. Hann hefur í huga að bjóða þeim í samstarfsverkefni sem snýr að fjölmenningu og skapandi starfi. Þetta er verkefni sem nokkur lönd koma að og snýr að því að byggja upp vitund um það sem sameinar og það sem er sérstætt í Evrópu. Sjálf þekki ég fólk í nokkrum löndum sem tekur þátt. Þau halda úti heimasíðu frá Hollandi sem hægt er að lesa fleira um verkefnið. Ef einhverjir skólar hafa áhuga á að fá okkur í heimsókn eða vera með í verkefninu þá er um að gera að senda mér póst.
Menntun og skóli | Breytt 10.9.2008 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 13:49
Orðaforði 36 mánaða barna, 400 orð = félagslega lélegt atlæti 3000 orð = félagslega vel sett
Fyrirlestur John Bennett um nauðsyn gæðaleikskóla fyrir yngstu börnin á EECERA ráðstefnunni í Noregi var góður. Hann tengdi erindi sitt rannsóknum á ýmsum sviðum sem sýna allar fram á mikilvægi gæða í leikskólastarfi, bæði frá forsendum barnsins og samfélagsins. Hann skoðaði rannsóknir um heilann, hagfræðilegar rannsóknir nóbelsverðlaunahafa (Heckman) og rannsóknir um t.d. stöðu barna eftir félagslegum bakgrunni þeirra. Hann fjallaði um hvernig leikskólinn gæti jafnað aðstöðumun á milli þjóðfélagshópa. Það var t.d. sjokkerandi að sjá upplýsingar um orðaforða 3ja ára barna eftir því hvaða þjóðfélagshóp þau tilheyra. Munurinn á börnum sem komu úr velsettum hópum og þau sem komu úr verst settu hópunum er gríðarlegur. Við þriggja ára aldur eru velsettu börnin með um 3000 orð á sinni könnu á meðan að börnin úr lægsta hópnum er með um 400 orð. Vygotsky sagði tungumálið vera tæki hugsunar. Og við vitum að hugsun er undirstaða framfara. Ef börn úr verst settu þjóðfélagshópunum hafa 3ja ára innan við 1/4 af orðaforða best settu barnanna sjá flestir hverjar afleiðingarnar geta verið. Til að mæta þessum mun og til að styrkja öll börn skipta leikskólar máli en ekki bara hvaða leikskólar sem er. Bennett lagði áherslu á gæðaleikskóla, þar sem áherslan er á þroska barna og vellíðan en ekki akademísk vinnubrögð. Hann var duglegur í erindi sínu að hrósa Norðurlöndunum og taldi að önnur ríki ættu að taka sér þau til fyrirmyndar.
Annað sem Bennett lagði áherslu á er uppeldisfræðileg skráning (sem ég hef oft fjallað um hér á blogginu). Gildi hennar til að kynnast börnum og hvernig hægt væri að nota hana sem leið til að sýna fram á gæði starfsins. Í Noregi er reyndar búið að setja inn í Aðalnámskrá leikskóla að í leikskólum eigi að gera uppeldisfræðilegar skráningar. Í okkar aðalnámskrá frá 1999 er líka fjallað um mikilvægi uppeldisfræðilegra skráninga. Þó ekki sé það gert með jafn afdráttarlausum hætti hér og í Noregi en í aðalnámskrá stendur:
Leikskólakennari þarf að ætla sér tíma til uppeldislegra athugana og skráningar á atferli barns, bæði þegar það er eitt og í samspili við barnahóp. (Aðalnámskrá leikskóla, 1999, bls. 14)
Við höfum frá upphafi leikskólabrautar við Háskólann á Akureyri (1996) kennt uppeldisfræðilegar skráningar. Mjög margir fyrirlestrar á ráðstefnunni byggðu einmitt á gögnum sem safnað var með þeirri aðferð, m.a. þeir fyrirlestrar sem standa mest eftir hjá mér.
Á ráðstefnunni Rödd barnsins sem haldin var á vegum Reykjavíkurborgar og RannUng í vor fjallaði ég í erindi sem bar heitið; Hvert barn er sinn eigin kór m.a. um gildi uppeldisfræðilegrar skráningar. Til stendur að gefa fyrirlestra tengdum ráðstefnunni og efni hennar út í bók í haust. Efa ég ekki að hún verður mikill akkur fyrir leikskólasamfélagið og bíð ég spennt. Mitt erindi verður hinsvegar ekki þar á meðal m.a. vegna þess að það féll ekki að ritstjórnarlegum áherslum og ég kærði mig ekki um að breyta því í þá átt sem ritstjórn vildi. Ég hef því ákveðið að henda erindinu hér inn (og einhverjum fleirum) og fylgja þau sem skrár með þessari færslu. Vona ég að einhver geti haft af þessu gagn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 21:24
Aðlögun barna í leikskóla
Aðlögun Sturlubarnsins og foreldra hans að leikskólanum gengur vel. Hann kveður brosandi og fagnar þeim brosandi. Við fórum og sóttum hann á föstudag og fengum að vita að þær hefðu varla heyrt hann gráta. Eina vandamálið er að venja hann við hinn íslenska heimilismat, en ég held að það sé leikskólamaturinn nú til dags. (Hvar annarstaðar er soðin ýsa með kartöflum og smjöri, kjötbollur í brúnni sósu, slátur og kartöflustappa, lifur með lárviðarlaufi og kjötsúpa á mánaðarmatseðlinum?) Mér skilst þó að þetta með hafragrautinn sé að koma hjá drengnum.
Ný aðferð við aðlögun
Talaði annars við unga vinkonu mína sem er leikskólakennari í Svíþjóð í gær, hún sagði mér að nú sé þar víða verið að taka upp nýtt aðlögunarkerfi fyrir yngstu börnin (og hin). Það felst í því að allt að 10 foreldrar og börn mæta saman í leikskólann. Foreldrar eru svo með sínum börnum næstu þrjá daga allan tímann, ekkert verið að skreppa fram í kaffistofu eða slíkt (svona eins og víða er gert). Foreldrar sinna sínum börnum skipta á þeim og gefa að borða og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn setur út verkefni (gerir kannski skráningar). En á fjórða degi koma börnin að morgninum og kveðja og eru svo allan daginn. Punktur. Einstaka börn hafa foreldra sína fjóra daga en mér skyldist að þau séu fá. Í lok ágúst er svo allri aðlögun lokið. En í leikskólanum er aðlögunartíminn oft gríðarlega erfiður. Bæði fyrir börn og starfsfólk. Oft er mikið grátið og þá þarf sterk bein hjá starfsfólkinu. Vinkona mín segir mér að þetta kerfi sé almennt að ryðja sér til rúms í Svíþjóð og það sé mjög mikil ánægja með það. Allt vetrarstarf hefjist fyrr og álag á börn, foreldra og starfsfólk sé minna.
Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Líðan þeirra skili sér svo þegar þeir ræða við barnið um leikskólann og þegar þeir koma og kveðja barnið.
Lítil reynslusaga
Ég man eftir leikskólastjóra í einum leikskóla fyrir mörgum árum. Þar var barn sem grét og grét og kveðjustundin var endalaust dregin á langinn. Barnið var kjökrandi og foreldrar nánast líka. Starfsfólkið var farið að fá kvíðahnút í magann þegar það sá barnið birtast vitandi að þá tæki við langt sársaukafullt ferli. Leikskólastjórinn sá að svo gat ekki gengið lengur og kallaði foreldrana á sinn fund. Hún sagði mér að hún hefði bara spurt þau hreint út hvort þau vildu að barnið væri í leikskólanum. "Jú jú" sögðu foreldrarnir. "Treystið þið okkur" spurði hún, "Já, já" sögðu foreldrarnir. Jæja sagði mín kona þá, "hvernig væri að þið færðuð að haga ykkur í samræmi við það". "Það eruð þið og hegðun ykkar sem er vandamálið ekki barnið". Það eruð þið sem segið; "ææi, greyið nú verðum við að skilja þig eftir, við sækjum þig eins fljótt og við getum". Þú þarft nú ekkert að vera langan dag í dag." Með þessu eruð þið að senda barninu ykkar skýr skilaboð". Foreldrarnir hrukku víst í kút og urðu jafnvel soldið foj. En svo hugsuðu þau málið og strax á næstu dögum breyttist þeirra afstaða og barnið kom glatt og fór glatt.
Þetta er svona lítil reynslusaga í pottinn, ég hef reyndar alltaf dáðst að þessari nálgun viðkomandi, ég er ekki viss um að ég hefði treyst mér svona beint í hana sjálf. En eftir stendur að hún skynjaði hvar vandinn lá og hafði í sér að taka á honum.
Jæja best að fara að klára undirbúning fyrir Noregsferð, er á leið á samevrópska leikskólaráðstefnu þar sem ég á örugglega eftir að heyra margt merkilegt. Lilló verður hér og heldur utan um framkvæmdir.
Menntun og skóli | Breytt 3.9.2008 kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)