7.5.2014 | 13:24
Þekking um það sem skiptir máli
Auðvitað kunna strákarnir í Pollapönki allt mögulegt um hetjur og fyrirmyndir, tveir þeirra eru nú leikskólakennarar.
Nám leikskólakennara er skapandi og það er skemmtilegt og þar lærir fólk um ofurhetjur, fyrirmyndir, um réttlæti og margt margt fleira.
Við Háskólann á Akureyri leggjum við áherslu á að námið sé skapandi, rannsakandi og skemmtilegt. Starf leikskólakennara er skapandi starf, þar sem hver dagur ber með sér ný ævintýr og nýja möguleika til sköpunar. Starfið er fjölbreytt og þar getur fólk með ótrúlegustu áhugamál og fjölbreytta þekkingu notið sín og sérþekkingar sinnar.
Leikskólakennarar þurfa að hugsa bæði djúpt og hátt, þröngt og vítt. Stundum að vera eldsnöggir og stundum ofurhægir. Vera snillingar í að sjá að lítill vísir er oft merki um eitthvað stærra og meira.
Verkefni eins og vísindasmiðja á Vetrarhátíð í Reykjavík er dæmi um verkefni sem þar sem mörgum mismunandi greinum er stefnt saman. Náttúrfræði, sjónlist, leik, stærðfræði, eðlisfræði, og Fyrir marga dæmi um dæmigert leikskólastarf.
bendi svo á vefinn: Frammtíðarstarfið
Hverju líkjast Eurovision keppendurnir? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2014 | 13:16
Vanmat er vont mat
Segi eins og segja má, það á aldrei að vanmeta leikskólakennara :). Óska kollegum úr stétt leikskólakennara til hamingju með strákana.
Minni svo á að á vefnum www.framtidarstarfid.is er fjallað um þetta stórskemmtilega og skapandi starf sem leikskólakennarastarfið er.
Svo má benda á þetta nám fyrir þá sem eru að máta sig við starfið og námið:
Síðast úr umslaginu í fjórða sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2014 | 19:45
Lífsplanið
Ég ræddi við unga konu nýlega sem sagði mér að hún hefði skipt um lífsplan. Ég fór að hugsa hvert var mitt lífsplan og er ég sátt við hvernig það hefur þróast? Ég valdi leikskólann en ég er líka nokkuð viss um að það eru margir sem ekki átta sig á hvað starfið í leikskólanum er frábært og hvað það í raun býður upp á margbreytileg lífsplön.
Þeir hafa liðið hratt áratugirnir síðan ég ákvað að verða leikskólakennari. Frá því að ég man eftir mér eru nokkrir þættir í umhverfinu sem mér hafa þótt skemmtilegri en aðrir, mér hefur t.d. alltaf þótt saga og sagnfræði sérlega skemmtileg, í barnaskóla gat ég ekki beðið eftir að þessi fög yrðu hluti af námi mínu, öfundaði eldri systkini mín ógurlega, ég gat dundað mér langar stundir við teiknun, málun, dúkristur og fleira skemmtilegt sem snéri að myndlist, heimspeki hún heillaði sem og uppeldisfræði. Þegar ég valdi mér framhaldsskóla valdi ég skóla þar sem gat sinnt öllu þessu og enn fleiru. Náttúrufræði og vistfræði þóttu mér áhugaverð og enn þann dag í dag bý ég að þeirri kennslu sem ég fékk. Í vistfræði skoðuðum við vatnasvæði Elliðaáa og lærðum um ofvöxt þörunga, eitthvað sem ég hugsa um í hvert skipti sem ég set þvottaefnin í þvottavélina mína.
Að velja mér lífsplan
Eftir stúdentspróf stóðu mér margar dyr opnar, ég íhugaði að sækja um í listnámi, ég hugsaði líka um sagnfræði og um tíma velti ég bókasafnsfræði fyrir mér, en á endanum valdi ég það sem hafði reyndar staðið hjarta mínu nærri að læra að verða leikskólakennari. Ég hafði starfað í leikskólum á sumrin og áttaði mig á að í gegn um það nám gat ég samræmt svo margt af mínum áhugamálum. Námið var líka fjölþætt, mikil áhersla á listgreinar, á sögu og heimspeki menntunar.
Reynslan af lífsplaninu
Eftir útskrift fór ég að vinna í leikskóla fyrir 1-3 ára, á tveggja ára deild. Þar vann ég með skemmtilegum hóp og börnin voru auðvitað frábær. Tveimur árum seinna varð ég leikskólastjóri á leikskóla fyrir 3-6 ára börn. Það reyndi verulega á mig og ég óx og dafnaði faglega og persónulega. Gerði mistök og lærði vonandi af þeim, tók þátt í að móta flottan leikskóla þar sem unnið var af metnaði. Þar sem við, samverkafólk mitt og ég, náðum að þróa saman faglegar áherslur sem við vorum og erum enn stolt af. Okkar einkenni var skapandi starf, áhersla á að skapa og skynja, áhersla á tónlistir og sjónlistir, á læsi, samskipti og stærðfræði. Áherslur okkar lágu í að framkvæma gegn um leik. Að börnin upplifðu að lífið í leikskólanum snérist í kring um leik.
Við sem unnum saman við lifðum og hrærðumst í starfinu okkar og við skyldum aldrei að einhverjum öðrum þætti það ekki eins merkilegt og okkur. Seinna bætti ég við mig meira námi en auðvitað á sviði leikskólans. Ellefu árum eftir að ég varð leikskólakennari varð ég svo háskólakennari, fékk það skemmtilega verkefni að kenna verðandi leikskólakennurum.
Valdi ég rétt?
Þegar ég horfi til baka og skoða val mitt er ég handviss um að ég valdi rétt. Ég valdi starf þar sem ég gat fengið útrás fyrir hin ýmsu áhugamál mín. Þar sem hver dagur er ólíkur deginum á undan. það að brautin sem ég valdi mér eftir stúdentspróf var einmitt rétta brautin. Gott lífsplan.
Stundum set ég athugasemdir við það sem er að gerast í umhverfi leikskólans. Það er vegna þess að mér er umhugað um hann og finnst vænt um hann. Ég vil að hann haldi áfram að vera þessi stórkostlegi staður sem ég upplifði og sem hann er að mestu leyti enn þann dag í dag. Staður þar sem hver dagur er dagur nýrra áskorana og ævintýra.
þeir sem vilja fræðast meira um störf leikskólakennara og nám þeirra er bent á vefinn http://framtidarstarfid.is/
Kristín Dýrfjörð, leikskólakennari og dósent við Háskólann á Akureyri.
Menntun og skóli | Breytt 5.5.2014 kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2014 | 01:34
Viltu vera sjóræningi eða prinsessa?
Hver vill ekki ræða við heimspekinga á hverjum degi? Hver vill ekki lesa heimsbókmenntir með áhugasömum áheyrendum daglega? Hver vill ekki semja tónlist eða spinna sögur? Hver vill ekki berjast fyrir réttlæti? Svo eru kannski einhverjir sem vilja líka ráðleggja foreldrum, vera leiðtogar í starfi, byggja upp skemmtilegt útinám, grúska í stærðfræði, hver sér ekki að leikskólinn er skemmtilegast vinnustaður í heimi, fyrir stóra og litla?
Nýlega fór af stað átak til að sýna ungu og gömlu fólki fram á hvað leikskólinn er áhugaverður vettvangur til að starfa á. Settur hefur verið upp vefur þar sem hægt er að fá upplýsingar um allt milli himins og jarðar um störf og nám sem tengjast leikskóla. Bæði fyrir þá sem vilja læra að verða leikskólakennarar og líka þeir sem eru það þegar en vilja bæta við sig. Háskólarnir kynna sitt framboð sem og framhaldsskólar.
Á vefnum má finna myndbönd með viðtölum við unga og aðeins eldri um hvað gerir leikskólann spennandi kost. Ég hvet sem flesta til að kynna sér vefinn og dreifa honum sem víðast. Svo auðvitað sem flesta að sækja um nám í leikskólakennarafræðum næsta haust.
Einn þeirra sem þar tjáir sig er hann Egill. Hér má sjá myndband með viðtali við hann.
8.2.2013 | 11:38
Orðsporið 2013
Á Degi leikskólans þann 6. febrúar ákváðu félög leikskólakennara að veita viðurkenningu fyrir störf í þágu leikskólans og leikskólabarna. Ég, Margrét Pála og Súðavíkurhreppur fengum þann heiður að hljóta orðsporið í fyrsta sinn. Við Magga Pála fyrir að halda á lofti umræðu um leikskólann í fjölmiðlum og Súðarvíkurhreppur fyrir það hugrekki að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla fyrir öll börn. Til þess þurfti pólitískt hugrekki og er Súðarvíkurhreppur vel að viðurkenningunni komið.
Ég er félögunum innilega þakklát fyrir þetta framtak og fyrir viðurkenninguna. Við Magga Pála deilum ástríðu fyrir leikskólanum og starfi hans þó svo að við séum ekki sammála um leiðir að markmiðum. Við erum að ég held báðar leikskólakennarar fram í fingurgóma.
Ég ákvað að bjóða Sturlu barnabarni mínu að vera viðstaddur með mér, ekki síst vegna þess að um hans þroskaskref hef margt og mikið ritað. Hann hefur verið mér innblástur og að fylgjast með þroska hans og námi með augum ömmunnar og leikskólakennara hefur skipt mig miklu máli.
Við Sturla
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2012 | 17:24
Leikskólakennarar þurfa að muna að setja súrefnisgrímuna á sig
Fækkun leikskólakennara hjá borginni um 2% er gríðarlega alvarlegt mál fyrir leikskólana þar. Því miður get ég ekki sagt að mér komi þessar tölur á óvart og er ein þeirra sem hef bent að þessi þróun væri í farvatninu. Ef borgin ætlar að snúa þróuninni við verður hún að vinna í vinnuaðstæðum starfsfólks. Fólk sem vinnur við vondar aðstæður ár eftir ár og þegar á ofan bætist lítil sem engin nýliðun leikskólakennara á sér stað, það verður vonlítið í starfi, álagið sligar það og starfsfólk verður auðveldari bráð allra umgangspesta. Álagskennd veikindi fara líka að hrjá það. Bæði börn og starfsfólk eiga betra skilið.
Tölurnar ganga ekki upp - aðgerða er þörf
Mér hefur ítrekað verið hugsað til þeirra talna sem fjármálastjóri menntasviðs borgarinnar tók saman og ég fjallaði um nýlega. Þar kemur t.d. í ljós að leikskólastjórar þurfa að að hafa til starfsfólk fyrir rétt tæpa 2000 tíma fyrir hvert barn á móti tæplega 1000 tímum í grunnskólanum. Tími barnanna hefur aukist á síðustu 8 -10 árum. Þyngslin hafa orðið meiri. Húsæðið betur nýtt (ofnýtt), fermetrarnir orðið færri og á síðustu tveimur árum hefur verið hert á starfsmannamálum og t.d. dregið úr afleysingum. Það er líka ágætt að hafa í huga að í leikskólum kemur ekki inn afleysing fyrir kaffitíma starfsfólks, þannig er meðalbarnið 8,2 tíma á deildinni sinni en starfsfólk er 7,25 tíma.
Undirbúningstímar þurfa að verða heilagir
Í grunnskólum er undirbúningstími kennara heilagur, þó það vanti fólk í skólavistina þá hlaupa kennarar ekki til (mér vitanlega) og leysa upp á von og óvon um að fá undirbúningstímann sinn þegar betur stendur á. Ég hef hinsvegar heyrt foreldra í leikskólum kvarta undan fundartíma starfsfólks - yfir því að fólk fari í undirbúning. Hvort það sé ekki tímasóun og tímaum betur varið með börnunum. Ég held að það sé nokkuð algengt að það sem víkur fyrst af öllu í flestum leikskólum þegar stefnir í mannahallæri eru réttindi starfsfólks.
Súrefnisgríman er fyrst sett á fjölskyldur og börn - svo starfsfólkið
Ég er þeirrar skoðunar að þegar þarfir starfsfólks eru ávallt látnar víkja fyrir þörfum annarra sé það eins og að setja grímuna fyrst á barnið og svo á sjálfan sig í fluginu. Ef flugið fer niður er sá sem fyrst hugsar um barnið og svo um sig líklegri til að verða barninu að meira ógangi en gangi í reynd. Ef starfsfólk leikskóla fer ekki að hugsa um eigin hagsmuni er hætt við að það fari eins um það og þá í reynd leikskólann og börnin sem þar eru. Leikskólakennarar verða að fara að setja súrefnisgrímuna á sig, það gerir það enginn fyrir þá.
Baráttan stendur vissulega um laun en hún stendur ekki síður um vinnuaðstæður. Sveitarfélögin verða að fara að átt sig á því.
PS. Það er best að viðurkenna að ég missti mig aðeins á lyklaborðið eftir að hafa lesið um fækkun leikskólakennara hjá borginni. Mér hefur verið bent á að uppsagnir hjá borginni hafi ekkert verið óeðlilegar, bara fólk að skipta um vinnustaði, ég get keypt það, en það er óeðlilegt að mikill fjöldi virðast hafa fært sig frá borginni. Það eru hljóð en samtímis æpandi skilaboð.
Lægra hlutfall leikskólakennara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2012 | 19:15
Leikskólinn og félagslega réttlætið
Ég segi stundum að ég hér áður fyrr hafi leikskólakennarar í borginni skipst í tvo hópa, annarsvegar þá sem unnu í leikskólum með hálfdagsbörn gifta fólksins og svo við sem unnum á dagheimilum með börn einstæðra foreldra og námsmanna. Heimur okkar og veruleiki var um margt ólíkur. Við sem vorum á dagheimilunum upplifðum meira fátækt og erfiðleika á heimilum barnanna en leikskólafólkið. Starfið okkar snérist oft um það sem kalla má félagslegt réttlæti. Að það var leikskólans að tryggja börnum ákveðinn jöfnuð. Sjálf starfaði ég á dagheimili sem mörg börn áttu undir högg að sækja. Leikskólinn var þeirra vin, staðurinn sem þau voru jöfn og þar sem þau fengu ýmsar þarfir uppfylltar sem stundum var erfitt að uppfylla heima. Sum þessara barna bjuggu við skert félagslegt tengslanet og þá greip dagheimilið iðulega inn. Á þessum árum átti ég t.d. í nánu samstarfi við heimilislækna, félagsráðgjafa, sálfræðina og fleiri. Stundum var þvegið af börnunum í leikskólanum og stundum voru þau þrifin. Leikskólastjórar fóru heim til sumra barna og sóttu þau í leikskólann og fóru með foreldrum að versla fatnað á önnur. Leikskólinn var tæki til að jafna aðstæður barna í borginni og ég held að hann hafi að mörgu leyti gert það vel. Þetta var fyrir tíma hinna mörgu nýbúa.
Fyrsta skólastigið menntaorðræðan
Þegar dagheimilin urðu að leikskólum, skilgreindust sem fyrsta skólastigið var eins og þetta hlutverk og kannski öllu heldur hugmyndafræði hafi verið skilin eftir. Við fengum námskrár og menntunarorðræðan varð okkar orðræða. Starfshættir okkar á gömlu leikskólunum féll í gleymskunnar dá. En nú má spyrja hurfu þessi börn við formbreytinguna, urðu aðstæður þeirra allt í einu gullnar? Auðvitað ekki, en sýnileikinn minnkaði, þau féllu inn í hópinn, sum týndust þar. Hugmyndin um leikskólann sem verkfæri til að tryggja félagslegt réttlæti vék fyrir hugmyndinni um menntastofnun.
Með áherslu á það sem nefnt er velferð barna í nýjum námskám er verið að viðurkenna þetta hlutverk á ný og lyfta því á loft.
Staðið vörð um velferð barna
Nú hef ég haft uppi ýmislegt um aðstæður leikskólakennara hjá borginni til að sinna starfi sínu og það sem mér hefur fundist ákveðin aðför að leikskólanum. Það er ekki sanngjarnt að fjalla bara um það sem miður fer en geta þess ekki sem vel er gert. Um hvað hefur borgin staðið vörð? Að vissu leyti má segja að þau hafi staðið vörð um hið félagslega réttlæti. Gjöldin sem foreldrar borga hjá borginni eru með því lægsta borgað er. Um það munar. Það eru líka í gangi merkileg verkefni sem snúa að samþættingu skólastiga, þjónustustofnana og aðila utan borgarkerfisins eins og Landlæknis í Fellahverfi. Þar sem einmitt er hugað að því sem ég vil nefna félagslegt réttlæti. Sjálfri finnst mér að hverfi (og þau eru til) þar sem aðstæður eru nokkuð langt frá því sem kalla mætti normið fái veglegri fjárveitingar. Sem dæmi þarf barn sem á báða foreldra af erlendum uppruna og er kannski líka frá mjög ólíku málssvæði meira en klukkutíma á viku í málörvun, aðalmálumhverfi barnsins er í leikskólanum og á því mun framtíðarskólagang þess hérlendis hvíla. Að leggja mikið í á fyrstu árunum er þess vegna spurning um skynsemi og félagslegt réttlæti. Við vitum að ástandið er mismunandi á milli leikskóla og við þurfum að vinna með það.
Borgin hefur líka staðið vörð um þá sem taka samning t.d. Eflingar, það fólk heldur sínu neysluhléi og er væntanlega betur borgað en sambærilegum störfum í öðrum bæjarfélögum. Um það var sátt á sínum tíma. Reyndar var neysluhléið ekki tekið af leikskólakennurum hjá borginni á sama tíma og hjá öðrum sveitarfélögum. Þar sem það var gert strax í upphafi kreppunnar.
Það er að birta til og gleðilegt merki þess er að borgin hefur bætt við sjötta skipulagsdeginum til að gefa leikskólum svigrúm til að skipuleggja sig og væntanlega vinna að betra starfi. Vonandi fylgja verkefnastjórastöður og fleira með í vetur.
Annað sem er til fyrirmyndar hjá borginni er þróunarsjóðurinn sem öll skólastigin geta sótt í. Þegar hann varð til á sínum tíma var hann lyftistöng fyrir leikksólastarf og þar hafa mörg frábær verkefni litið dagsins ljós. Verkefni sem hafa haldið orðstý borgarleikskólanna á lofti.
Sumum finnst ég stundum ósanngjörn við borgina, það má vel vera. En hinsvegar þá vann ég þar lengi var leikskólastjóri á tínda ár og ég er kjósandi þar. Svo er ég líka í Samfylkingunni og verð að viðurkenna ég er viðkvæmari fyrir gjörðum sem hún kemur að en aðrir.