Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
17.4.2012 | 12:26
Slíta naflastrenginn
Eftir mikla umhugsun ákvað ég að setja upp mína eigin heimasíðu, halda blogginu fyrir hina pólitísku hlið á sjálfri mér en síðunni fyrir það sem snýr beint að leikskólastarfi. Hér á blogginu ætla ég t.d. að hafa skoðun á sameiningarmálum leikskóla, pólitískum ákvörðunum um fækkun fermetra, um stjórnmál í sinni víðustu mynd, forsetakosningar ef sá gállinn er á mér og hvaðeina.
Á vefnum eiga að birtast greinastubbar um allt mörgulegt sem snýr að leikskólastarfi, hugmyndafræðilega sem hagnýtt. Með tíð og tíma vona ég að vefurinn vaxi og verði öflugur hugmyndabanki. Mest af því sem þar er að finna núna hef ég skrifað en vonast til þess í framtíðinni að aðrir ljái mér hugsun og skrif.
Vefurinn minn fékk heitð Laupur. Laupur er auðvitað tilvísun í hrafnshreiður en fyrir mig er tenginginn líka í að fyrir löngu þegar við Guðrún Alda (mín helsta samverkakona) vorum að velta fyrir okkur íslensku heiti á efnisveitur fyrir leikskóla kom hún með orðið Laupur. Við völdum það ekki, vegna þess að laupur er e.t.v. meira safn en veita og eðli efnisveitu er að vera miðstöð og að vera farvegur en ekki endapunktur. Hinsvegar hefur laupurinn fylgt okkur og þegar ég var að ákveða nafn á vefinn, ákvað ég að nýta þessa gömlu hugmynd.
Þeir sem hafa áhuga geta litið á vefinn hann má finna á www.laupur.is
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2012 | 23:14
Óskirnar búa í hjartanu
Nýlega heyrði ég samræðu tveggja barna, hann fjögurra og hálfsárs og hún tveimur árum eldri. Yngra barnið fór að ræða um óskirnar sínar. Þær byggju í hjartanu sagði það, og þegar hjartað hvílir sig á nóttunni og sefur þá hvíla óskirnar sig og sofa líka. Og þegar maður deyr þá er maður ekki lengur til og þá eru óskirnar heldur ekki til. Eldra barnið hlustaði með athygli á og sagði svo "já og svo lætur guð óskirnar rætast". Yngra barnið horfði stóreygt á það eldra og spurði svo "hvað er guð?"
Vel að merkja yngra barnið er vel verseraður í englum og himnaríki, en guð hefur einhvernvegin alveg farið fram hjá.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2012 | 15:27
Einhverfudagurinn er dagurinn hans Spencers Þórs
Það er dagur einhverfra í dag. Í okkar fjölskyldu er ungur maður með einhverfu, hann elskar útiveru og hreyfingu, en líka tölvur og Disneymyndir. Hann hefur frábært jafnvægi og er góður á línuskautum og skíðum, en líka að synda. Hann hleypur eins og vindurinn, og við móð og másandi á eftir honum. Hann getur nefnilega "gufað" upp ef samferðafólkið er ekki vakandi. Hann elskar að heimsækja Space Needel og situr þá löngum stundum á sama stað, horfir í gegn um sömu rimlana á báta sigla fyrir utan borgina. Pabbi hans á mótorhjól og að sitja aftan á og þeysast umhverfis Puget sound er eitt það skemmtilegasta sem hann veit. Þegar hann var yngri undi hann löngum stundum við að spila eigin tónlist á hljómborð.
Hann er löngu vaxinn okkur upp yfir höfuð og þegar við hittumst kreistir hann okkur fast. Hann er kominn með skeggbrodda og pabbi hans hjálpar honum að raka þá í sturtunni. Hann er kreðsinn á mat og vill alls ekki borða allt. Hann er sólginn í harðfisk.
Vikulega hittum við hann á skype og þá vill að að við Lilló sitjum bæði fyrir framan tölvuna, ef ég er ekki komin, þá heyrist með hans sérstöku rödd og áherslum, KriStin, KrisStin. Í skype segjum við honum að við elskum hann og hann sýnir okkur myndirnar sem hann er að teikna. Hann á orð en fyrir okkur virka þau oftast samhengislaus. En ekki alltaf og hann endar alltaf samtölin við okkur með þvi að segja að hann elski okkur.
Stundum þylur hann upp romsur og hann kann heilar bíómyndir utan að. Nýlega var hann að gera alla vitlausa með því að þylja upp eintómar talnarunur. Svo fann pabbi hans út að hann var búinn að umsnúa stafrófinu. Hann var að stafa heilar setningar. Hann er læs og skrifandi og hann er reiknishaus.
Pabbi hans sagði kennurunum frá að Spencer væri í raun að tjá sig með tölunum. Hann er í bekk með fleiri krökkum með einhverfu, dag einn var hann að bora í nefið. Kennarinn skrifaði upp á töflu með tölustöfum, Spencer hættu að bora í nefið. Og uppskar skæran hlátur.
Spencer Þór hefur auðgað líf okkar síðustu 16 ár og við elskum hann skilyrðislaust.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)