Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
9.2.2012 | 18:03
sjá það mögulega í því ómögulega
Menning er vaxtarbroddur þjóðar og þjóð sem hefur ekki efni á menningu hefur ekki efni á að vera til. Samfélagið speglast í listunum. Þar er bæði fegurð og ljótleiki er túlkaður. Þar er það "sagt" sem hinir ýmsu rýnendur í þjóðfélagið þora ekki að segja eða bara koma ekki auga á.
Listin leitast við að sjá öðruvísi tengingar, nýjar tengingar, tengja á milli ólíkra sviða mannlífsins og líka við hin ýmsu svið fræðanna. Hún hjápar okkur að hugsa, vera til, hún er bæði tilgangur og leið. Það er hennar að sjá til þess að við ræktum mennskuna í okkur. Hún gerir okkur mögulegt að sjá það mögulega í því ómögulega. Við þurfum sköpunarkraft til að þróa samfélagið, til að sjá ný tækifæri, til að átta okkur á hvernig vð getum best búið saman hér á jörð.
Ef við kremjum knúp sköpunarkraftsins er okkur sem þjóð hætta búin. Þess vegna þurfum við á listunum að halda og þess vegna eigum við að vera með hin ýmsu listamannalaun og veita þau stolt og glöð. Listin er þegar upp er staðið það sem skilur okkur frá sauðkindinni.
467 milljónir til listamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.2.2012 | 17:15
ÓFAGLÆRÐUR leikskólakennari óskast?
Hvaða rugl er þetta endalaust í fjölmiðlum um faglærða leikskólakennara. Eru til öðruvísi? Eru til ófaglærðir læknar, lögfræðingar, prestar eða leikskólakennarar? Blaðamönnum er auðvitað vorkunn að því leitinu til að í þeirra stétt er það frekar undantekning en regla að blaðamenn séu faglærðir. En þrátt fyrir að það sé þeirra vandmál þurfa þeir ekki endalaust að klína því á aðrar stéttir, sérstaklega okkur leikskólakennara.
Neysluhléið er allt annað mál, mér finnst borgin taka vitlausan pól í hæðina í því máli eins og ýmsum öðrum sem snúa að leikskólanum. Stundum finnst mér þeim meira að segja vera uppsigað við leikskólann, ég veit að það er auðvitað ímyndunarveiki, ja alla vega vona ég það.
Sömdu ekki um afnám neysluhlés | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2012 | 22:47
Ísbrjótar og ný miðja. Dagur leikskólans.
Dagur leikskólans er afmælisdagur. Þann dag fyrir rúmum 60 árum stofnuðu leikskólakennarar stéttarfélag. Á afmælisdögum fögnum við og gerum okkur dagamun, en við lítum líka yfir farinn veg og pælum í stöðu okkar og áformum til framtíðar. Í dag las ég á fésbók leikskólastjóra í Reykjavík bókun foreldra og fulltrúa leikskólastjóra og starfsmanna í stjórn skóla og frístundaráðs. Þar lýsa þeir yfir áhyggjum af afleiðingum opnunar reglugerðar menntamálaráðueytisins um fermetrafjölda fyrir barn í leikskólum borgarinnar. Reglugerðin sem átti að leiða til fleiri fermetra hefur nú haft öfug áhrif, fækkun fermetra. Áður var líka reglugerð um hámarksfjöld barna á starfsmann, hún hefur líka verið felld niður. Á tímum góðæris höfðu fáir áhyggjur en á tímum þrengina er hætt við að það sem átti að verða til góðs verði að hinu gagnstæða. Þegar ég las þetta fyrst hélt ég að borgin sjálf hefðu gert þetta, ég fékk seinna að vita að leikskólinn er í "einkarekstri". Það breytir samt ekki málinu í grundvallaratriðum, borgin verður að standa sína pligt og gæta hagsmuna barna. FYRST OG FREMST.
Hér er svo bókuninin fyrir þá sem vilja lesa hana.
Áheyrnarfulltrúar foreldra barna í leikskólum og leikskólastjóra óskuðu bókað á fundi nr. 104 - Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur þann 1.2 2012
"Það er áhyggjuefni að löggjafinn setji ekki lengur kvaðir á um stærð rýmis á hvert barn. Fyrir nýju leikskólalögin nr. 90/2008 var kveðið á um að heildarrými á barn væri að lágmarki 7 fermetrar og leikrými 3 fermetrar. Nú er verið að samþykkja leyfi fyrir 96 börn á aldrinum 18 mánaða - 6 ára í rými sem er að grunnfleti 537,1 fermetri eða 5,59 fermetrar í heildarrými á barn. Við höfum áhyggjur af framvindunni verði ekki settar viðmiðunarreglur um stærð rýmis á hvert barn, hér er verið að fara niður fyrir fyrri viðmið. Nýlegar rannsóknir um hljóðvist í leikskólum veita stuðning fyrir því að taka þurfi á þessu máli."
Menntun og skóli | Breytt 6.2.2012 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2012 | 00:34
Náttúrleg leiksvæði
Hvað er átt við með náttúrleg leiksvæði í borg? Hér á landi er stór hópur fólks sem hefur áhuga á að bæta útivistaraðstæður barna í grunnskólum, leikskólum og í almenningsrýmum. Margir leikskólagarðar sem ég kem í eru algörlega geldir og þeir kalla ekki; komdu að leika. Náttúrleg leiksvæði kalla hinsvegar á börn og fullorðna. Þau bjóða upp á allt bardúsið og drullumallið og átökin við líkamann og ævitýrin. Þau kalla á löngun til að leika úti við góða vini, til sökkva sér í leikinn. Á slíkum leiksvæðum "hanga" börn ekki á húninum og vilja komast inn. Svo býður uppbygging þeirra upp á samstarf kynslóðanna, samveru foreldra og barna og ömmu og afa sem vilja taka þátt.
Í vor verður ráðstefna um svoleiðis leiksvæði þar sem helstu sérfræðingar víða að úr Evrópu koma og fjalla um allt frá leik að öryggismálum til hönnunar. Sporgöngumaður er hann George Hollander, leikfangasmiður sem er óþreytandi að koma hugmyndinni á framfæri.
Ráðstefnan er auðvitað fyrir alla áhugasama, en líka fyrir þá sem hanna garða, gera úttektir, byggja þá, vinna hjá sveitarfélgöum við umhirðu þeirra, alla vega kennara sem nota þá. Hún er fyrir breiðan hóp.