Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
6.7.2009 | 14:33
Ævintýr í Eyjafirði
Það eru ófáir vinir mínir sem í gegn um tíðina hafa farið í matarferðir til útlanda. Í slíkum ferðum eru bændur gjarnan heimsóttir og gestir fá upplýsingar um tilurð afurða. Hluti af ferðunum er svo að snæða mat eldaðan af fyrirtaks kokkum úr viðkomandi hráefnum á fallegum stað. En viti menn það þarf ekki lengur að fara til útlanda til að upplifa slíkt ævintýri, það er nóg að skreppa norður í land. Í Eyjafirði er margskonar ræktun og vinnsla á matvöru. Þar er líka fyrirtaks veitingahús sem hefur kappkostað að vinna með matvæli ættuð úr sveitunum í kring. Þar er byggt á hugmyndafræði slowfood hreyfingarinnar. Nú hefur þetta veitingahús tekið upp á þeirri nýung að bjóða gestum í ferð um matarlendur Eyjafjarðar og loka svo deginum með kvöldverði á Friðrik V. Þeir sem vilja kynna sér næstu ferðir nánar er bent á heimasíðu Friðriks V.
Vinir mínir sem ætluðu að fagna stórum áfanga í lífi sínu, ákváðu í stað þess að skreppa helgarferð til útlanda, einmitt að fara í slíka ferð. Þau komu svífandi til baka. Einstök upplifun, sögðu þau.
Ég hef verið þeirrar gæfu njótandi að fylgjast með Friðrik V frá opnun, séð staðinn vaxa og vaxa. Séð hvað sú skarpa sýn sem hefur einkennt hugmyndafræðina frá upphafi hefur skilað miklu. Sýn sem þau deilda saman Arnrún, Friðrik og börnin. Friðrik V er nefnilega fjölskylduveitingahús eins og þau gerast best. En annað sem hefur líka einkennt þau, er hugrekki til að takast á við áskoranir og finna nýjar leiðir í rekstri. Meðal þeirra má nefna jafn ólíka hluti og að bjóða grunnskólabörnum á Akureyri upp á valgrein sem snýr að mat úr hérðaði og það nýjasta matarferðir um Eyjafjörð.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2009 | 15:10
Fánaborg leikskóla
Nýlega var ég stödd í leikskóla sem starfar í anda Reggio Emilia. Frá upphafi var ákveðið að taka hugmyndafræði endurnýtingar alla leið. Alla leið þá er átt við að stærstur hluti þess efniviðar sem notaður er, er endurnýttur, hlutir eru keyptir jöfnum höndum nýir og notaðir. Það sem fellur til í leikskólanum er endurnýtt. Næstum allur matur er unninn frá grunni, hvítur sykur ekki notaður og svo framvegis. Frá leikskólanum fer tæpur einn haldapoki af óendurnýtanlegu sorpi á dag (utan bréfbleyja). Einn gestanna spurði leikskólastjórann hvort leikskólinn stefndi á Grænfánann. Nei - ekki sérstaklega, var svarið, enda taldi leikskólastjórinn leikskólann ekki þurfa opinberan stimpil til að framfylgja grænni stefnu þar sem stuðlað er að sjálfbærni og í anda staðardagskrár 21. Það er ekki heldur í anda Reggio Emilia að fá eða þurfa stimpil.
Stundum þegar ég er á fundum í Reggio Emilia kemur þessi spurning upp, á að stimpla eða gefa út vottorð um að skólar starfi svo og svo mikið í anda hugmynda Reggio Emilia? Ef svo er hvað þarf til að geta sagst vera "Reggio Emilia" skóli? Vottorðaútgáfu er ávallt hafnað, það er einfaldlega ekki til uppskrift. Reggio Emilia hugmyndafræði í leikskólauppeldi er hugmyndafræði sem er sífellt í mótun. Fyrir utan þá staðreynd að enginn skóli getur verið Reggio Emilia skóli, nema skólarnir í Reggio Emilia. Hugmyndafræðin þar er sífellt í mótun hún tekur mið af nýrri þekkingu, nýjum rannsóknum, nýrri samræðu. En fyrst og fremst byggir hún á viðhorfum (sem birtist m.a. í orðræðu) sem starfsfólk og samfélag verður að tileinka sér. Það sem skólarnir í Reggio Emilia gera hinsvegar er að deila hugmyndum sínum og þekkingu með umheiminum. Þannig getum við lært af þeim skrefum sem þar hafa verið tekin. Skólar sem starfa í anda eða hafa átt hugmyndafræðilegt mót við hugmyndir fólksins í Reggio Emilia hafa margir bundist samtökum. Deila þar hugmyndum og reynslu. En hver um sig er þar á eigin forsendum, það er enginn sem segir; þú ert ekki nógu mikið Reggio.
Ég á von á því að skólar sem segjast eiga hugmyndafræðilegt mót við Reggio Emilia hafi skuldbundið sig til að tileinka sér ákveðin viðhorf og hugmyndafræði. Þannig er í mínum huga ekki nóg að setja litað vatn í flöskur eða vinna í anda hugmyndafræðinnar í klukkutíma á dag. Það er út af fyrir sig ágætt en er ekki í anda heildtækrar hugmyndafræði. Í því felst engin skuldbinding.
Í ljósi alls þessa þá á ég ekki von á að einn fáninn í fánaborg leikskólanna verði Reggio Emilia fáni.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 13:32
Þversnið samfélagsins
Vilhjálmur Einarsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag um framhaldsskólann sem ég hvet fólk til að til að lesa. Þar fjallar hann um reglur um inntökur fyrr og nú. Ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að skólar hafi sín "upptökusvæði" en hafi síðan svigrúm til að veita ákveðnu hlutfalli nemenda utan svæðis inngöngu. Ég er líka fylgjandi því að öllum skólum beri skylda til að taka inn tiltekið hlutfall nema úr öllum einkunnarhópum og um þá sækja. Þó svo að umræðan hafi e.t.v. mest snúið um þá sem vilja í MR og Versló eru fjölda annarra skóla sem unglingarnir vilja sækja, t.d. vegna áhuga á listnámi, kokkamennsku, hönnun, bifvélum, ja eða þeirra viðhorfa sem þeir vita að ríkja þar. Með kerfi sem byggir á blöndun ýmissa þátta er líklegra að skólarnir að verða þversnið samfélagsins. Mér finnst það eftirsóknarvert.
3.7.2009 | 14:09
Minning um tengdapabba
3.7.2009 | 01:58
Ljósmyndun í leikskólastarfi
Í borginni Reggio Emilia á Ítalíu er reknir leikskólar á heimsvísu. Ein megin undirstaða starfsins þar er það sem nefnt hefur verið að á íslensku, uppeldisfræðileg skráning. Hún byggir á því að læra með og af barninu. Að fylgja eftir einu barni eða litlum hóp barna með ýmsum aðferðum. Þegar fólk skoðar skráningar starfsfólks leikskólanna í Reggio Emilia, undrast það. Það undrast m.a. yfir hugmyndum, tjáningu og gæðum sem finna má í skráningunum. Því er stundum haldið fram að uppeldisfræðilegar skráningar í Reggio Emilia séu sjálfstætt listform. Að þar hafi þróast skráningaform sem aðrir eigi erfitt með að fylgja eftir. En hvað er það sem skilur skráningar frá Reggio Emilia, frá öðrum skráningum? Ef til vill er það að fagurfræðin er fyrst og fremst byggð á mikilli virðingu fyrir barninu. Sem dæmi ætla ég að segja aðeins frá ljósmyndun sem skráningarform í leikskólunum í Reggio Emilia.
Frá upphafi hefur mikil hugsun verið lögð í ljósmyndunina að myndir og texti vinni saman. En líka frá hvaða sjónarhorni myndir eru teknar. Hvað er reynt að fanga? Er verið að festa augnablik á filmu eða ná upplifun og tjáningu? Bent er á að myndin sýnir ekki það sem fyrir framan myndavélina heldur fyrst og fremst þann sem er bak við vélina og það sem hann hugsar, hans afstöðu. Að þegar við vísum myndavélinni að annarri manneskju þá eigum við að setja hjarta okkar og hugsun í þá athöfn.
Mjög fljótlega var ákveðið í Reggio Emila að velja myndir til að vinna með frá tæknilegum gæðum, en líka og aðallega vegna þeirra tilfinninga sem myndin kallar fram. Það var ákveðið að sýna myndir sem sýna samhengi, sem sýna hvernig staður leikskólinn er. Hvað á sér stað þar, þau námstækifæri sem þar bjóðast. Mirella Ruozzi pedagógista í Reggio Emilia segist hafa lært frá veröld kvikmyndarinnar. Hún vitnar til Wim Wenders sem sagði að sagan byrjaði með einu klikki og öðru klikki og enn öðru, með því verður sagan til. En skráningar í Reggio Emilia eru einmitt oft settar fram sem sögur. Sögur um nám, sögur um rannsóknir barna á umhverfi sínu í víðasta skilningi.
En fagurfræðin nær lengra, hún nær til allrar framsetningar, til vals á letri, til útlitsteikninga til allra tæknilegrar eftirvinnu. Mikil natni er lögð uppsetningu og klippingar. Í Reggio Emilia vinna hönnuðir og arkitektar að framsetningu efnis með leikskólafólkinu. Mikið er spáð í hvaða skilaboð er verið að senda. Þegar bækur frá Reggio Emilia eru skoðaðar sést sú mikla og skipulega gagnaöflun sem hefur átt sér stað. Það sést hvernig eitt skref leiðir að öðru. Hvernig skipulegar skráningar verða undirstaða starfsþróunar. En það sem skín e.t.v. mest út er sú virðing sem börn njóta, sú mikla trú sem er á hugmyndum þeirra og möguleikum. Að börn eru vitsmunaverur, tilfinningaverur, félagsverur, að þau hafa hundrað möguleika til að tjá sig, hundrað mál og tæknin veitir þessum málum vængi.
Menntun og skóli | Breytt 4.7.2009 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2009 | 23:38
Að æfa sig
Þessa dagana er Sturla (1.9 ára) að æfa sig í nokkrum mikilvægum atriðum á þroskabrautinni. Hann er afar upptekinn við að fara upp og niður stiga. Hvert sem við komum reynir hann við stigana. Við vorum á leikskólalóð með mörgum stigum. Hann fór aftur og aftur, upp og niður, upp og niður, (leit ekki við löngum og girnilegum rennibrautum). Svo kom að því að reyna við stóra kastalann, að klifra upp kaðla til að komast efst upp í hann. Hann gerði þrjár tilraunir, var við að missa takið þegar hann var kominn nokkuð hátt upp í þriðja sinn. Fetaði sig þá varlega niður og reyndi ekki aftur. Sem sýndi mér að það er sennilega rétt sem sagt er, börn fara ekki hærra en þau treysta sér. Fæst fara sér að voða.
Annars held ég að þetta með stigana sé að hann er að æfa til að komast hér á milli hæða. Hann hefur nefnilega mikinn áhuga á því sem er á neðri hæðinni, á herberginu þar sem afi geymir hljóðfærin. Þangað niður er brattur stigi og hlið.
Annað atriði sem Sturla æfir að miklu kappi er að finna reglu í málfræðina. Hann er að reyna að átta sig á hvenær á að segja ömmu og hvenær amma, hvenær mömmu - mamma, afa-afi, pabbi - pabba. Hann mátar og leiðréttir sig svo. Ekki að setningarnar séu orðnar flóknar, þær eru rétt að vera þriggja orða, yfirleitt tveggja orða. Orðskilningurinn er hinsvegar nokkuð mikill. Enda mikið talað við hann og lesið. Nýja útgáfan um Pétur og úlfinn er í miklu uppáhaldi og svo auðvitað öll sönglög. Þá syngjum við fyrstu orðin en leyfum honum að botna textana.
Í Reggio keypti ég handa honum lítið kaffistell úr leir. Það er oggulítið, gulur, rauður, grænn og blár bolli, undirskálar og teskeiðar í sama lit. Sturla er að æfa sig í alla vega kerfum, kaffistellið er í bastkörfu og hann tekur það upp í ákveðinni röð, fyrst undirskálar og svo eru bollar settir á sína undirskál og skeið við. Allt parað saman. Síðan sækir amma vatn og setur í könnuna (sem fylgir náttúrulega með) og Sturla hellir í bollana og fær sér svo kaffi. Svona eins og kaffikerlingin gerir í kvæðinu eftir Þórarinn Eldjárn, kvæði sem er í miklu uppáhaldi.
Lífið er merkilegt þegar maður er að verða tveggja.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.7.2009 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.7.2009 | 01:31
Útinám í leikskólum
Það er margt spennandi að gerast i leikskólum landsins. Nýlega var opnuð útideild við leikskólann Rauðhól í Norðlingaholti. Slíkar deildir og skólar eru nokkuð algengir á Norðurlöndum. Hér hafa margir skólar verið að feta sig þá braut. Það sem er skemmtilegt er að áherslur eru mismunandi og fjölbreytileiki nokkur. Enda þau svæði sem næst eru leikskólunum mismunandi. Grannar okkar hafa sína skóga en við okkar móa og fjörur. Á Stóra leikskóladeginum hjá Reykjavíkurborg kynntu hinir ýmsu skólar verkefni sín. Meðal þeirra skoðaði ég fjögur sem sneru að útinámi. Það var samstarf leikskólanna Sunnuborgar og Laugaborgar um Laugardalinn. Sjálf var ég leikskólastjóri við Laugardalinn í áratug og veit hverslags vin hann er. Hann er gríðarleg uppspretta, rannsókna, athuganna og tilrauna fyrir börn og fullorðna. Þar er bæði að finna merkilega flóru og fánu. Verkefni Laugaborgar og Sunnuborgar voru skemmtileg, menntandi og metnaðarfull, til þess fallin að kveikja áhuga barna á útiveru og undrum náttúrunnar. Hinir skólarnir sem þarna fjölluðu um útikennslu (og ég skoðaði, ég náði ekki að klára alla sýninguna á tveimur tímum) voru leikskólinn Bakki sem gerði grein fyrir fjöruverkefni og leikskólinn Blásalir sem sagði frá móaverkefni.
En rót þess að ég skrifa þetta blogg er hinsvegar að ég var að skoða vefinn útnám og vildi í leiðinni vekja á honum athygli.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)