Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Leikskólakennarar með meistarapróf - menntamálanefnd búin að skila af sér

Frábært að lesa nefndarálit menntamálanefndar um menntun kennarastéttanna. Þar er tekið undir það sjónarmið að menntunarkröfur til kennarastéttirnar verði að vera þær sömu. Ýmsar raddir voru farnar að berast um að menntun leikskólakennara yrði tekin út, en sem betur fer stendur nefndin við bakið á ráðherra. Með þessari ákvörðun skipar Ísland sér á fremsta bekk varðandi menntun leikskólakennara og sýnir með því í verki viðhorf til barna.

Álítur nefndin því að möguleiki á flæði kennara milli aðliggjandi skólastiga, sbr. 24. gr. frumvarpsins, sé mikilvæg nýjung í skólastarfi. Það gefi meðal annars færi á því að í yngstu bekkjum grunnskóla geti komið inn sjónarmið leikskólakennara í kennsluháttum. Telur nefndin að grundvöllur fyrir þessu flæði kennara milli skólastiga sé sá að kröfur til kennaramenntunar verði þær sömu á mismunandi skólastigum. Leggur nefndin því ekki til breytingar á 3. gr. frumvarpsins.

 

Hér má lesa allt álitið


Sól og blíða norðan heiða

Sit hér sveitt við yfirferð verkefna, úti er sól og blíða, sannarlega komið vor hér á Akureyri (alla vega í bili). Ég var pínu sorry þegar ég fór að heiman í morgun´. Í haust setti ég niður vel á annað hundrað túlípana í garðinn okkar. Þeir voru við það að blómstra í gærkvöldi og ég farin. Ég sem var búin að hlakka svo til að sjá þá í fullum blóma.  Setti líka niður eina rauða skrautlúpínu í gær, fékk afleggjara hjá mömmu. Nú vil ég fá hjartarblóm og ... En veit ekki hvort það er rúm fyrir allar þessar plöntur í garðinum hjá okkur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að vilja hafa hann svolítið "villtan". 

Ég vil líka að eitt taki við af öðru í garðinum, að það sé eitthvað í blóma allt sumarið og fram á haust. Útlaginn hefur hingað til blómstrað síðast en eins og annað hefur blómgunartími hans færst fram um 2-3 vikur. Nú er hófsóleyin að verða búin - hún var hér áður fyrr að blómstra í kring um 17 júní.

Annars er fundur hér í kvöld á vegum Samfylkingarinnar, hann er á KEA og ég er að velta fyrir mér að skreppa. Heyra hvað formaður vor hefur fram að færa. Svona fyrst ég svindlaði á laugardaginn og ákvað að hlusta á heimspekinga frekar en pólitíkusa.


Að hlusta eða elta - samverkafólk eða strengjabrúður

Er munur á að hlusta á börn eða elta hugmyndir barna? Áður en ég kem að því vil ég fá að deila með lítilli frásögn með lesandanum, sumir geta meira að segja speglað sig í henni. Vorið 2008 hlustaði ég á kynningu á þróunarverkefni í leikskóla. Verkefnið var hluti af samstarfsverkefni margra leikskóla til nokkurra ára og því tengt rannsóknarverkefni. Frá upphafi var ljóst að hver skóli mótaði verkefnið eftir eigin þörfum og barnahópsins. Meðal annars til að tryggja fjölbreytileika og eignarhald viðkomandi á verkinu, á náminu og þeim námstækifærum sem þar sköpuðust. Í þessum tiltekna leikskóla sem ég ætla að nefna Ljósaland, gerðist það hinsvegar að börnin "tóku" völdin.

Við sem þekkjum til sögunnar um Uppreisnina á barnaheimilinu, kom ekkert annað í hug þegar við hlustuðum á leikskólakennara lýsa því sem gerðist. Leikskólarnir höfðu sameiginlega ákveðið að vinna að verkefni þar sem kanna átti eiginleika og möguleika vatns. Það sem gerðist á Ljósalandi er að í upphafi höfðu börnin áhuga á verkinu og unnu kappsamlega og af áhuga að því. Á einhverjum tímapunkti í ferlinu virðast leikskólakennararnir hafa misst sjónar á markmiðinu og látið stjórn verkefnisins alfarið í hendur barnanna.

Börnin voru á þeim tíma afar upptekin af tölvuleikjum og teiknimyndum í sjónvarpi. Til að nýta áhuga barnanna settu leikskólakennararnir fram hugmynd við börnin að búa til spil sem tengdist vatninu. Vinnan fór á fullt og úr varð merkilegt spil sem hægt væri að nýta til að greina áhrif dægurmenningar á leik og hugmyndir barna, en vatnið, það varð að algjöru aukaatriði. Eða eins og einn þeirra leikskólakennara sem hlustaði á kynninguna sagði, „börnin af gæsku sinni gagnvart leikskólakennurunum ákváðu að leyfa vatninu að fljóta með í smá hlutverki“. Þetta var sem fyrr segir áhugavert spil sem birti vel hugarheim barnanna, en hafði ekkert með upphafleg markmið að gera, það tengdist ekkert því þróunarverkefni sem þessir leikskólakennarar höfðu skuldbundið sig til þátttöku. Í sjálfu sér framúrskarandi verkefni en verkefni sem hefði átt að vera hliðarverkefni en ekki verkefnið.

En hvað átti sér stað? Það er ljóst að á Ljósalandi höfðu börnin ekki áhuga á vatninu og það sem meira er, það virðist sem kennararnir hafi ekki haft burði, vilja eða þekkingu til að fylgja verkinu eftir. Þeir virðast ekki hafa haft burði til að byggja upp eða opna fyrir áhuga barnanna á viðfangsefninu. Kennararnir voru mjög uppteknir af því að hlusta á börnin, en hlustun þeirra virðist aðallega hafa fólgist í því að fylgja börnum eftir og verða þjónar þeirra frekar en samverkafólk. Einhver gæti spurt; en er þetta ekki í anda þess að hlusta á börn og fylgja hugmyndum þeirra eftir? Voru þessir leikskólakennarar ekki einmitt að standa sig?

Ég velti fyrir mér hugmyndum Dewey um það sem hann velur að kalla menntandi reynslu. Hann taldi ekki alla reynslu nauðsynlega þroskandi eða menntandi. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[1]Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna. Ef horft er til dæmisins hér að framan er hægt að velta fyrir sér hvort að með því að elta hugmyndir barna sé í raun verið að byggja upp nauðsynlega reynslu og stuðla að því að börn þroski hugsun sína. Eða flokkast dæmið að hluta undir það sem Dewey kallaði fánýtar athafnir? Dewey var annt um aga, ekki ytri aga heldur þann aga sem fylgir því að vinna vel og sökkva sér djúpt í verk sín. En til að tryggja slíkan aga veðrur kennari líka að kunna þá list að bæði leiða og vera leiddur.

Í rannsókn sem ég gerði á meðal íslenskra leikskólakennara spurði ég hvernig þeir færu að því að fá börn til að gera eitthvað sem þau hefðu lítinn eða engan áhuga á. Einn leikskólakennari svaraði: 

... ef það er eitthvað sem við viljum að þau endilega geri ... þá bara gerir maður það spennandi. Það er ekki neitt sem við gerum hérna inni sem er ekki spennandi að gera. ... þetta verður bara allt spennandi og við gerum okkur svo spenntar fyrir því líka. Maður getur ekki tekið eitthvað upp sem maður er ekki spenntur fyrir og þegar að við erum orðnar spenntar fyrir því og smitum þennan spenning yfir til barnanna að þá er þetta ekkert mál.

Einhvernvegin náðu leikskólakennararnir á Ljósalandi ekki að gera verkefnið spennandi, hvorki fyrir sjálfa sig eða börnin. Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að þeir voru of uppteknir af því að hlusta á börnin. Of uppteknir að því að fylgja áhuga barnanna eftir. Kennararnir urðu í raun þjónar barnanna og hugmynda þeirra, en ekki samverkafólk. Og á því er mikill munur. Það styður ekki við lýðræði að börn upplifi sig í hlutverki brúðustjórnandans og starfsfólkið sem strengjabrúður. Það styður ekki við lýðræði, að leikskólastarfinu sé hagað á þann hátt að sópa öllum hindrunum úr vegi barna. Svo vitnað sé til Moss hér að framan verða leikskólakennara að búa yfir og getað beitt þekkingu á lýðræði til að ákveða starfshætti. Það þarf fagmennsku og þekkingu til að skoða hvaða starfsaðferðir samræmast lýðræðislegum aðferðum og það þarf stundum hugrekki til fylgja þeim. Á tímum skyndilausna í leikskólauppeldi, lausna sem byggja á skilvirkni og árangri, sem oft byggja á ytri stjórn og ytri aga getur þurft sterk bein til að standa með hugmyndum sínum og sannfæringu.

Rinaldi (2006) orðaði þetta svo að í leikskólanum stjórnaði starfsfólkið börnunum, en börnin líka starfsfólkinu, og þau þurfa þess, vegna þess að þannig læra börn um stjórn, þau þurfa að læra að taka vald af valdi, hún segir að vandmál leikskólanna sé ekki að börnin stjórni heldur að starfsfólkið hafi mun meira vald en börnin og hvernig það nýtir vald sitt. Það má spyrja hvort að leikskólakennararnir á Ljósalandi hafi ekki í raun brugðist þeirri ábyrgð sem þeim var falin? Að með því að beita valdi sínu á þann hátt sem þeir gerðu hafi þeir sýnt tiltekið ábyrgðarleysi. Sé enn litið til Dewey þá er hlutverk kennarans aðallega tvíþætt:  Annarsvegar á hann að leiða barnið í gegnum flóknar götur lífsins og skapa því tækifæri til að læra á sinn eigin náttúrulega hátt, það er með því að takast á við að leysa mismunandi viðfangsefni. En kennaranum ber líka að hjálpa barninu að takast á við það sem er að gerast í daglegu lífi þeirra og sem hjálpar þeim á að takast á við það sem framtíði ber í skauti sér, framtíð sem engin getur séð fyrir. Þetta gerir hann varla með því að setja ábyrgðina á framkvæmd starfsins í hendur barnanna. Ég tel að það sem gerðist á Ljósalandi sýni ekki faglegan styrk, heldur þvert á móti, Í því verkefni hafi birst ákveðin hræðsla við að fylgja eigin markmiðum.  

___________________

Textinn hér að ofan er hluti af fyrirlestri mínum: Hvert barn er sinn eigin kór, sem ég flutti á ráðstefnu í Borgarleikhúsinu þann 18. apríl 2008.

 

[1]Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla


Aðall góðs leikskólastarfs

Það nú einu sinni svo að aðall "góðs" leikskólastarfs felst í möguleikum hvers og eins að þróa starf sitt og aðferðir. Að hafa möguleika til að vera þátttakandi í þróun hugmynda og aðferða.

Aðall "góðs" leikskólastarfs er að þar er sífellt þróun í gangi, þar fylgist fólk með nýungum og rannsóknum. Ekki endilega til að éta þær upp heldur til að pæla í. Máta við sig og sína hugmyndafræði, vera í gagnvirku sambandi við leikskólafræðin. Til þess þarf að vera tími og vilji til þess að ástunda gagnrýna ígrundun.

Það er hætt við að í leikskólum þar sem ekki gefst svigrúm til ígrundunar og gagnrýni verði lítil þróun. Í slíkum leikskólum hver svo sem hin formlega stefna er verður hún að lokum eins og steinfóstur.


Samstarf leikskóla um skráningar

Ég rakst á skemmtilega grein eftir Goldhaber sem lýsir samstarfi leikskólakennara í Vermont fylki í Bandaríkjunum. Þeir hittust reglulega í tvö ár til að fara yfir og túlka saman uppeldsfræðilegar skráningar sínar. Kveikjan af verkefninu var sameiginleg ferð til Reggio Emilia þar sem þeir upplifðu hver afrakstur slíkra vinnubragða getur verið. Markmið samstarfsins var ýta undir gagnrýna hugsun og tilgátur barnanna um nærumhverfi sitt. Mjög fljótlega var ákveðið að setja saman farandsýningu um verkefnið sem ætlað var að ferðast um fylkið og vekja þannig athygli á námi, hugmyndum og vinnu barna. Eitt fyrsta verk leikskólakennarana var að koma sér saman um og setja fram eftirfarandi fullyrðingu um fyrirætlun sína.   

We have the wish and the desire to know how children understand, perceive, live, and interact with their communities and the natural world. Because we see children as protagonists of their own and others’ experience, we are also interested in learning about the role children play as contributing members of their communities and stewards of the natural world. We value their experiences by listening closely to the meaning they give to their world:to the people, places, smells, movements, and sounds they experience in planned and chance encounters. We hope to make visibletheir process of constructing meaning.

Kom fram að fullyrðingin um fyrirætlun gegndi geysimikilvægu hlutverki sem viðmiðunarpunktur og rammi um samræður og samstarfið. Hópurinn hittist á 6 - 8 vikna fresti þann tíma sem verkefnið stóð yfir. Í hópnum voru 35 kennarar en á fundina mættu á milli 6-25 í hvert sinn. Ekki allir komu með skráningar með sér en allir tóku þátt í umræðum um þær skráningar sem kynntar voru hverju sinni. (Er það reyndar mjög í anda aðferða Reggio Emilia, þar er litið á hverja skráningu sem mögulegt námstækifæri og umfjöllunarefni). Fyrir leikskólakennarana voru fundirnir kærkomið tækifæri til að hugsa upphátt í hóp með öðrum. Til að deila reynslu, til að ígrunda á gagnrýninn hátt saman um hugmyndir, tilgátur, tilfinningar. Á fundunum gafst tækifæri til að heimsækja og heimsækja ítrekað sömu skráninguna, skoða hana í ljósi nýrra reynslu og hugmynda. Ásamt fundunum kom hópurinn sér líka upp spjallvef um verkefnið. 

Verkefninu lauk svo með opnun sýningar.

Ég velti fyrir mér hvort að lýsingin á verkefninu geti að hluta verið lýsing að mögulegri hugmynd fyrir SARE til að vinna með í samvinnu við þá leikskóla sem áhuga kunna að hafa. Þá er ég ekki að meina viðfangsefnið heldur fyrirkomulagið. Slíkt krefst auðvitað skuldbindinga af hálfu þeirra leikskóla sem vilja taka þátt. Verkefni verða líka að gefa nægilega sveigjanleika fyrir hvern leikskóla til að þróa sig eigin átt, út frá eigin nærumhverfi og menningu.

 


Er Sigurður Kári að boða kristilegu siðgæðisgreinina aftur inn?

Ég er ein þeirra sem hef fagnað boðaðri breytingu á markmiðsgrein laga um leik- og grunnskóla. Ég hef fagnað sérstaklega þeirri breytingu að fella út; að hlutverk leikskólans sé að efla kristilegt siðgæði. Ég hef sjálf talið þetta ákvæði vera á skjön við stjórnarskránna og ýmsa alþjóðlega sáttmála sem við sem þjóð erum aðilar að. Því brá mér í brún þegar ég las blogg Sigurðar Kára Kristjánssonar þingmanns áðan, þar er hann að fjalla um störf sín fyrir menntamálanefnd. (Feitletrun mín).                                                                                                                                                             

Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta.  Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.

Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.

 
Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það með eigin augum að þessu framfaramáli Þorgerðar Katrínar hafi verið ýtt út af borðinu. Ég er enn í sjokki.

Markmiðsetning Sturlubarnsins

Sturlubarnið kom með foreldrum sínum í heimsókn til að horfa á síðustu umferðina í enska boltanum. Þar sem Sturlubarnið og amma hafa engan sérstakan áhuga á boltanum fórum við fram í stofu. Sturlubarnið notar hvert tækifæri til þess að æfa sig í magaskriði og skriðið að breytast frá slönguskriði yfir í krossað skrið. En Sturlubarnið er líka farið að reyna sig við fjórar fætur, nú lyftir hann sér upp á fjórar og vaggar fram og til baka. Hann er enn ekki búinn að gera sér grein fyrir næsta stigi, að komast úr stað. Það kemur bráðum.

Sturlubarnið og amma skemmtu sér ágætlega í stofunni í góða stund. En í hvert sinn sem Sturlubarnið heyrði í pabba og afa yfir boltanum þá lyfti hann höfðinu og leit í kringum sig. Nokkrum sinnum gerði hann tilraunir til að leggja af stað þessa 10 metra, yfir þrjá þröskulda og tvær beygjur sem aðskyldu hann frá hinum karlpeningnum. En þær tilraunir endaðu undir stól.

Svo gerðist eitthvað í boltanum og raddir afa og pabba hækkuðu. Nú gat Sturlubarnið ekki lengur á ró sinni tekið og einbeittur á svip lagði hann af stað. Yfir allar hindranir eins eldibrandur, leiðin lá um innri stofu, í fremri stofu, yfir holið, í gegnum eldhúsið og beint inn í sjónvarpsherbergið, fram hjá pabba og mömmu og beint í fangið á afa. Gleðisvipurinn og ánægjan yfir mission accomplished var óborganleg.      

Núna eru þeir farnir út að leita að Snata, kisu. Afi keypti nefnilega smá lax handa sér og kisu.

Sjálfshvörf og ísull - af heimspekitorgi í gær

Í gær fór ég á heimspekitorg í Háskóla Íslands. Þar fluttu tveir heimspekingar þeir Kristján Kristjánsson prófessor við KHÍ og HA og  Ólafur Páll Jónsson, lektor við KHÍ erindi um ritgerðir sínar í nýjasta hefti Huga. Bæði held ég að heimspekitorgið hafi verið hugsað sem kynning á Huga og sem kynning á nýju námi í heimspeki menntunar við hið nýja Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Torgið var byggt upp þannig að fyrstur tók Kristján til máls, síðan fékk Ólafur orðið og gagnrýndi erindi Kristjáns. Kristjáni var svo veitt tækifæri til andsvars og síðan var opnað fyrir spurningar úr sal. Sama fyrirkomulag var um erindi Ólafs Páls. Vel var mætt og stofan fullsetin.

Sjálfshvörf og ísull

Áhugi Kristjáns þessa daga snýr m.a, að því að tengja saman og skoða sama fyrirbærið/viðfangsefnið af sjónarhorni mismunandi fræðigreina. Hann er að leitast við að brjóta niður háa múra fræðigreinanna. Afurðina kennir hann við ísull. Í ljósi skrifa Kristjáns fyrir allmörgum árum í Moggann gegn póstmódernískum hugmyndum var áhugavert að sjá að hann virðist vera að meyrna gangvart sumum hugmyndum. Hann fjallaði töluvert um það sem hann kallar ísullsaðferðina, og nauðsyn hennar fyrir menntunarfræðin. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hann hafa getað valið sér betra heiti. En kannski er það einmitt svo að heitið gefur hugmynd um djúpstæð viðhorf hans til aðferðarinnar. Og þrátt fyrir að hann velji að beita henni sé það gert með trega.

Eins og ég skildi ísullsaðferðina þá byggir hún að hluta á því sem sumir vilja ættfæra til póststrúktúralískra aðferða. Meðal þess er að greina tungumál og hugmyndir, að leita fanga í textum víða að og blanda saman, hugmyndafræðilega og aðferðafræðilega. Meðal póststrútúralista innan leikskólafræðanna er ekki óalgengt að  fólk geri grein fyrir siðrænum gildum sínum. Gildum sem byggja á virðingu fyrir mannhelgi og mannréttindum, trú á réttlæti og jöfnuð. Þeir höfundar sem ég styðst við afneita siðrænni afstæðishyggju en viðurkenna samtímis að til séu margir og mismunandi sannleikar og að ríkjandi sannleikur stjórnist af m.a. pólitík ríkjandi stétta.  

Viðfangsefni Kristjáns í gær var það sem hann nefnir sjálfshvörf. Sjálfshvörf verða að hans mati þegar einstaklingur verður fyrir róttækum áhrifum af hugmynd, annarri manneskju sem breytir honum og hugmyndakerfi hans til framtíðar. Innan kvikmyndanna hafa margar slíkar sögur verið festar á blað og er kennari gjarnan í hlutverki þess sem hefur slík áhrif á einstaklinga. Hluti af umræðunni um sjálfshvörf er umræða um sjálfið, hvort það sé til, ef svo er hvernig það þróist, hvort að sama manneskja geti átt mörg og jafnvel andstæð sjálf.

Kristján er nú að safna íslenskum sögum af slíkum sjálfshvörfum og leitar m.a. fanga í ýmsum ævisögum.  

Miklar og skemmtilegar umræður spunnust um sjálfshvörf. Páll Skúlason velti upp hugtakinu sinnaskipti. Jónas Pálsson um hvort að það sem fólk nefnir að frelsast eða taka trúskipti falli undir sjálfshvörf. Kristján upplýsti okkur um að mikið hefur verið rætt um trúskipti og trúarleg sjálfshvörf innan trúfræðinnar en minna innan sálfræðinnar. Sigurður Grétarsson velti því upp hvort að sjálfshvörf væru raunverulegt mælanlegt sálfræðilegt fyrirbrigði, fannst það geta verið áhugavert rannsóknarefni. Þórdís Þórðardóttir velti upp tengslum sjálfshvarfa við hugmyndir um resiliance eða þrautseigju. En þar kemur fram að ein mikilvægasta vísbending um þrautseigju barna sé að þau hafi í lífi sínu einstakling sem trúir á það (signifiant other) oft er það kennari.

Kristján hvatti þá sem mundu efir ævisögum eða frásögnum þar sem slíkum sjálfshvörfum er lýst til að hafa samband við sig.

Eftir báða fyrirlestrana settumst við nokkrar saman í kaffi til að ræða þá. Við veltum fyrir okkur hvort það teldist til sjálfshvarfa þegar t.d. sterkur einstaklingur hrífur heilan hóp með sér í sömu átt. Eða hvort slíkt væri til vitnis um hjarðeðli okkar. Við spurðum Kristján (sem sat á næsta karlaborði og ræddi „fótbolta“) hvort slíkt félli undir sjálfshvörf. Hann vildi meina að til að breyting gæti flokkast sem sjálfshvörf yrðu áhrif hennar að vera varanleg og föst. Ef t.d. viðkomandi sterki aðili væri ekki lengur í lífi fólks og áhrif hugmynda hans og skoðana dofnuðu eða „hyrfu“ væri ekki um sjálfshvörf að ræða.

Um fyrirlestur Ólafs Páls þyrfti að skrifa aðra eins færslu sem ég geri kannski í dag. Fyrirlestur hans og umfjöllunarefni eru enda meira á mínu sviði en umfjöllunarefni Kristjáns.   


Sonartorrek

Sturla ÞórÍ dag 10. maí hefði Sturla okkar orðið 25 ára. Í dag förum við að leiðinu hans og leggjum á það blóm. Höldum upp á daginn með köku og kaffi. Sturla á það sannarlega skilið. Við viljum minnast hans með gleði og rifja upp minningar. Það gefur deginum óneitanlega gleðiblæ að nú hefur Sturlubarnið bæst við fjölskylduna. Hann minnir á frænda sinn um sumt. Er ákafur og kraftmikill. Veit hvað hann vill og er handsterkari en hægt er að reikna með hjá svona litlu barni. Gleðigjafi og gullmoli.

Í dag stendur Samfylkingin fyrir opnum fundium heilbrigðismál. Ég held að Lilló ætli þangað, kannski líka ég. Okkur er íslenska heilbrigðiskerfið ákaflega hugleikið. Við þökkum því og því frábæra starfsfólki sem það hefur á að skipa, að við fengum 5 mánuði með drengnum okkar. Fimm erfiða en líka stórkostlega mánuði. Mánuði sem færðu okkur vissu um hversu heppin við erum að hafa fæðst á þessum stað á jarðarkringlunni, heppin að tilheyra samfélagi þar sem jöfnuður og kærleikur er þrátt fyrir allt það sem bindur okkur saman á erfiðum stundum. Þegar við finnum að þjóðarhjartað slær í takt.

Ég vona sannarlega að flokkurinn minn geri sér grein fyrir hversvegna ég og fleiri kusum hann. Til að standa vörð um jöfnuð og samkennd samfélagsins, til þess treystum við honum. Það gerir hann ekki með því að hleypa einkarekstri á fullt. Það gerir hann ekki með því að loka augunum fyrir gjörðum samstarfsflokksins. Það gerir hann með að standa í lappirnar fyrir þau gildi sem við jafnarðamenn teljum öðrum gildum mikilvægari, að gæta okkar minnsta bróður og systur.

Velferð óháð efnahag
Opinn fundur um heilbrigðismál
laugardaginn 10. maí kl. 13–16 á Grand Hóteli
•     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar setur fundinn•     Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra: Velferð fyrir alla!•     Anna Sigrún Baldursdóttir, fjármálaráðgjafi á Landspítalanum: Er heilbrigður rekstur framundan? •     Pétur Tyrfingsson, sálfræðingur á Landspítalanum: Sparsemi er slæmt leiðarljós í heilbrigðismálum•     Árni Páll Árnason alþingismaður: Betra fyrir fleiri – markmið jafnaðarmanna með breytingum í heilbrigðiskerfinu•     Fundarstjóri Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir alþingismaður

Allir velkomnir  

 
 
 

Kímið

Í þróunarstarfsverkefnum leikskóla má finna kímblöð starfsins. Þar er vaxtasproti nýrra hugmynda. Flest verkefni fá ekki háar upphæðir, þær hæstu eru tæp milljón, en það sem skiptir líka mál að fá viðurkenninguna. Vita að öðrum finnist það skipta máli sem viðkomandi er að gera. Áður fyrr sat ég í stjórninni fyrir hönd Háskólans á Akureyri. Auðvitað verða öll verkefni að standa undir kröfum sem til þróunarverkefna eru gerðar, en ég leit líka á það sem mitt hlutverk í stjórn að hlusta á rödd landsbyggðarinnar, vera hennar málsvari. 

Hjartanlega til hamingju öll - ég hlakka til að heyra af verkefnum ykkar á málþingum framtíðarinnar.

 

VerkefniStyrkþegi

Upphæð

A. Hvernig læra leikskólabörn?  
Fjörulallar, það erum viðLeikskólinn Bakki

900.000

Heimspeki og tónlistLeikskólinn Vallarsel

900.000

High/Scope - virkt nám á fyrsta skólastigiLeikskólarnir Mánagarður, Sólgarður og Leikgarður

500.000

Samfélagið í einingakubbumLeikskólinn Brákarborg

530.000

B. Barnamenning - leikir og listir leikskólabarna 
Frá gráma til gleði: Skólalóðin okkarNáttúruleikskólinn Krakkakot

900.000

Breitt og fjölbreytt tónlistarstarf - framhaldsverkefniLeikskólinn Urðarhóll

420.000

C. Önnur verkefni  
Leikskólakennarar ígrunda og rýna í eigið starfLeikskólinn Tjarnarsel

300.000

Mál fyrir alla - málþjálfunarefni fyrir börn á leikskólaaldriSigurlaug V. Einarsdóttir

200.000

Samstarf Ægisborgar og KR - Hreyfing, leikur, heilsubótLeikskólinn Ægisborg

400.000

 

Alls

5.050.000




mbl.is Úthlutað úr Þróunarsjóði leikskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband