Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Verjum börnin og útskýrum fyrir þeim aðstæður - við skuldum þeim það

Í öllu krepputalinu undafarið hefur mér verið hugsað til líðan barna. Ég man þegar ég var sjö átta ára og við krakkarnir í hverfinu komum saman og ræddum um rússagrýluna og verðbólgudrauginn. Í okkar huga voru þetta raunverulegar verur. Verur sem við hræddumst og höfðum áhyggjur af. við töldum þær ógna okkur og fjölskyldu okkar. Eins og ástandið er í dag eru mörg lítil börn og unglingar sem fara hrædd að sofa, hrædd við að vakna. Hrædd við það ástand sem er að skapast. Ef okkur fullorðna fólkinu er órótt getur fólk rétt ímyndað sér áhrif þess á börn. Foreldrar verða að ræða við börnin sín, skýra hvað það er sem við fullorðan fólkið erum svo upptekin af. Reynt að skýra eins og hægt er en í leiðinni róa börnin okkar. Það er ekki hægt að leyna börn ástandinu, það er allstaðar. Sennilega er það þegar farið að birtast i leik barna í leikskólum og grunnskólum landsins. Að halda að börn skynji ekki það sem er í gangi er að stinga hausnum í sandinn.

Á mörgum heimilum eru foreldrar líka að horfa á eftir afkomu sinni, sparnaði sínum, húsnæðis- og bílalán er bundin í erlendan gjaldeyri. Þessir foreldrar eru áhyggjurfullir, illa sofnir, taugatrekktir og auðvitað hefur það áhrif á samskipti þeirra við börnin, skóla og starfsfólk.

 


Saga rafmagnsins

Í húsinu mínu er sögu rafmagnsins á Íslandi að finna. Hér eru leiðslur (sumar eru nú reyndar draugaleiðslur) frá hinum ýmsu tímum. Þær eru lagðar í járnrör, plaströr, utan á. þær eru úr taui, hér eru leiðslur sem eru soðnar og snikkaðar. Hér eru, staðlaðar evrópskar innstungur, ítalskar og amerískar. Hér er termóstat frá tímum olíufýringar (við rifum í síðustu viku út skorstein sem tengdur var kolanotkun - en hér má líka finna gamla kolalúgu).

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort að ég ætti að taka myndir af herlegheitunum og birta fyrir áhugafólk um sögu rafmagnsins. Kannski að ég skelli mér í myndaferð í dagsbirtunni á morgun. Sjálf er ég vel tengd rafmagninu en afi minn Kristján Dýrfjörð (f.1891) fór ungur maður til Noregs og lærði rafvirkjun. Einhvertíma eftir heimkomuna fer hann til Siglufjarðar og starfar þar sem rafvirki við síldarverksmiðjunnar. Þar kynnist hann ömmu minni Þorfinnu. Pabbi minn Birgir er rafvirki og þegar ég var lítil var ég alvarlega að hugsa um að feta í fótspor hans. Enda hefur rafmangsfræðin alltaf heillað.  Ekki gerði ég það nú. Endaði í töluvert öðruvísi starfi.


Að vera "menntaður" leikskólakennari eða kannski menntaður lögfræðingur

Nú er komin út matskýrsla um leikskólann Hjalla. Matsaðilar virðast vera afar ánægðir með það sem þeir sáu og upplifðu og telja skólann hinn ágætasta. Þar sé fólk að gera það sem það segist vera að gera. Starfsfólk og foreldrar séu almennt ánægðir og telji leikskólann vera mannbætandi. Þar séu allir jafnir og enginn yfir annan hafinn.

Úttektaraðilar eru matsfræðingar en ég hefði talið æskilegt að þeir hefðu líka fengið leikskólakennara með sér í úttektina, hefði aukið trúverðuleika hennar***. Almennt tel ég að matið sé fremur lýsandi en greinandi en það sama má segja um allflestar úttektir ráðuneytisins á leikskólum, það sem undirrituð gerði, meðtalið. Þetta tel ég reyndar vera galla hjá okkur en koma að nokkru leyti til af smæð samfélagsins.

***LEIÐRÉTTING Björk er leikskólakennari og starfaði samkvæmt leikskólakennaratalinu 1986 -1992 í leikskólanum Skógarborg í Reykjavík, biðst ég afsökunar á þessari rangfærslu.

Það stakk mig reyndar að í skýrslunni stendur á fleiri einum stað að á viðkomandi stofun starfi  menntaðir leikskólakennarar

Af þeim eru tíu menntaðir leikskólakennarar, einn þroskaþjálfi og þrír grunnskólakennarar, þrír starfsmenn eru ennfremur menntaðir sjúkraliðar og einn er með meistaragráðu í listsköpun.   

Það virðist ekki þurfa að tilgreina að þroskaþjálfinn og grunnskólakennararnir séu menntaðir. Bara leikskólakennararnir - velti fyrir mér viðhorfi skýrsluhöfunda til leikskólakennara sem í þessu birtast.

Í þessari skýrslu sem hinni fyrri um Ása hefur starfsfólk áhyggjur af því að hjallastefnan sé ekki sérstakleg kennd við kennaramenntunarstofnanir. En í skýrslunni segir: 

Leikskólakennarar  lýstu  í  rýnihópaviðtali yfir áhyggjum af því að þær  stofnanir  sem mennta  leikskólakennara á  Íslandi hefðu neikvætt viðhorf  til Hjallastefnunnar. Þeir nefndu í því  sambandi að þó svo að Hjallastefnan væri búin að festa sig í sessi á Íslandi þá væri engin  kynning  á henni í leikskólakennaranáminu og jafnframt væru almennt ekki sendir til þeirra nemar. 

 

Ég hef reyndar aldrei kennt það námskeið við HA þar sem farið er í hugmyndafræði leikskóla, en veit að alla vega á Akureyri er ekki minna fjallað um Hjalla en ýmsa aðra s.s. eins og frumkvöðlana Montesorri, Steiner og Fröbel. Reyndar kom það fram á fundi sem haldinn var með framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar í fyrravetur við HA. En þar kom jafnframt fram að fjöldi nema veldu að kynna sér hana sérstaklega og skrifa um hana ritgerðir. Ekki síður en aðrar stefnur og strauma. Jafnframt kom fram að nemar hafa farið reglulega í hjallastefnuskóla m.a. á Hjalla í Hafnarfirði.  Á það skal bent að nemum í leikskólakennaranámi hefur fækkað mikið undafarin ár og hefur það haft áhrif á möguleika ALLRA leikskóla til að fá nema. Í ár fór nemum aftur fjölgandi og er það gleðilegt. Sjálf man ég eftir fundi á Akureyri fyrir nokkrum árum þegar að leikskólar þar voru óánægðir með að fá ekki alla þá nema sem þeir vildu.

Mér finnst sérkennilegt að í skýrslunni ræða höfundar um viðhorf Háskóla til stofana þegar verið er að ræða meint viðhorf einstaka kennara. Ég held að fyrrverandi deildarforseti kennaradeildar HA hafi svarað því ágætlega í bréfi fyrir nokkrum misserum þegar hann sagði eitthvað á þá leið að deildin eða skólinn sem slíkur hefði engin sérstök viðhorf og að við háskólann ríkti akademískt frelsi sem fæli í sér skoðanafrelsi þeirra einstaklinga sem þar starfa.


Bandaríska þingið greiðir atkvæði á eftir

Bandaríska þingið kemur saman í kvöld eftir sólsetur til að greiða atkvæði um bankalánsfrumvarpið eða svo sagði á SKY áðan. Vegna frídags gyðinga er þingið búið að vera í fríi en það virðist vera í lagi að kalla það saman eftir að sól er sest. Nú er reiknað með að frumvarpið fari í gegn. Á morgun er útborgunardagur og ef frumvarpið fer ekki í gegn í kvöld er hætt við að mörg fyrirtæki eigi erfitt með að greiða laun. Eftir frjálsa fallið á Wall Street í gær (mánudag) er sennilegt að þingmenn sem voru logandi hræddir við að fara heim með það í farateskinu að hafa skuldsett heimilin, þori. Þeir eru væntanlega búnir að sjá að tvennu illu þá er þetta illskárri kostur. Og kannski að kjósendur þeirra átti sig líka á þessu.  Í Írlandi hafa yfirvöld ákveðið að tryggja 100% allar sparifjárinnistærður í 6 bönkum sem þau ábyrgjast. Gordon Brown telur að 50 þúsund pund á hvern einstakling sé sanngjarnt. Hvað skyldi íslenskum yfirvöldum þykja sanngjarnt? Auðvitað vona ég eins og flestir að ekki reyni á slíkar ábyrgðir.  

Annars var ég að horfa á viðtal við Sarah Pallin og sú kona vekur ekki hjá mér mikla von. Mér finnst líka merkilegt að það er rætt um að fjölskyldumál hennar megi ekki verða að kosningarmálum, en svo var hún með dóttur sína 14 ára með á myndum og hún kom fram á fundum með henni. Þannig hefði ég talið hana sjálfa búin að setja börnin sín á dagskrá. Alveg eins og ég las um daginn að nú séu repúblikanar að vonast eftir ævintýrabrúðkaupi sem beini jákvæðri athygli að Sarah Pallin. Reyndar velti ég fyrir mér frelsi þessara einstaklinga til að taka eigin ákvörðun, sýnist þetta svolítið líta út eins og skipulagt brúðkaup, eins og tíðkast á meðal öfgasinnaðra í ýmsum trúarbrögðum.   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband