Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
2.1.2008 | 01:53
Áramót
Áramót eru alltaf sérkennilegur tími. Við þau eru bundnar væntingar um betra líf en samtímis gefa þau okkur færi á að líta til baka.Sumir strengja jafnvel heit um betri lífshætti. Áramótin okkar hér í Miðstrætinu eru blendin vegna þeirra atburða sem við tengjum þeim. Atburða sem hafa markað líf okkar.
Við Lilló giftum okkur á gamlársdag 1981, á eftir héldum við gott áramótapartý sem endist í þrjá daga hjá þeim gestum sem lengst stoppuðu. Þetta var veisla af gömlum sið þar sem drykkja og djamm var í hávegum haft. Gestirnir vissu reyndar ekki tilefnið fyrr en þeir mættu á staðinn. Athöfnin sjálf er reyndar eftirminnilegri en hið góða partý. Við skruppum fyrir hádegi til borgarfógeta sem þá var staðsettur á Hallveigarstöðum. Það var kona sem gaf okkur saman, hún í sinni embættisskikkju og ég í hvítum léreftsnáttkjól frá fyrri hluta aldarinnar (ættaður frá nunnum) með svart belti um mig miðja og í svörtum uppreimuðum rústskinsskóm, Lilló var líka í betri fötunum. Ég man að það kom mér á óvart hvað þetta var hátíðlegt og hvað ég upplifði mikla tign yfir athöfninni.
Sturla Þór sonur okkar fæddist 10. maí 1983 og hann lést að kvöldi nýársdags 2001, í ár hefði hann orðið 25 ára. Allan nýársdaginn bíð ég eftir að dánarstundin renni upp. Í dag var Sturlubarnið hjá okkur í heimsókn og við glöddumst saman yfir lífinu. Hann hjalaði og hló. Ég held að hinir í fjölskyldunni séu að óvart að stuðla að fóbíu hjá honum gagnvart fótbolta. Þau öskra svo hátt þegar liðið þeirra skorar að Sturlu bregður og fer að hágráta. Við förum því gjarnan fram í stofu og leikum okkur. Ég á bakinu og hann fær að liggja upp á sköflungnum og svo fær hann að fljúga. þetta finnst honum hin skemmtilegasta dægrastytting en sá böggul fylgir að hann á það til að æla. Í dag fékk ég gusuna yfir mig alla. En við eigum líka ágæts þvottavél.
Nú sit ég, blogga og horfi á blómin sem vinir okkar færðu okkur í tilefni dagsins, við erum svo heppin að eiga góða að.
Ég hef aldrei verið dugleg við að strengja heit, ætla ekki heldur að gera það í þetta sinn. En það er samt eitt sem ég vil vera duglegri við en ég hef verið og það er að halda í gamlan vinskap, að rækta vinarsambönd. Búa til fleiri stundir í daglega lífið til samveru og hittings.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)