John Dewey

Á morgun er málþing um áhrif John Dewey á íslenskt skólastarf á Menntavísindasviði Hí. Dagurinn er valinn vegna þess að á morgun er 150 ár síðan Dewey fæddist. Hugmyndir Dewey hafa haft mikil áhrif á flest skólafólk og verið leiðarljós margra við þróun á skólastarfi. Sumir afgreiða Dewey með einföldum hætti, klisjan learning by doing heyrist þá gjarnan. Klisja segi ég vegna þess að þessum orðum er ekki fylgt eftir og ekki pælt í við hvað liggur að baki því sem stundum er nefnt athafnabundið nám á íslensku. 

Ég ákvað í tilefni dagsins að rifja upp lítinn kafla úr fyrirlestri sem ég hélt um Dewey fyrir nokkrum árum í tilefni 10 ára afmælis leikskólabrautar HA. Ég valdi kafla um áhrif umhverfis og einstaklings, um fánýtar athafnir og reynslu.

En víkjum aftur að hugmyndum Dewey og áherslu hans á samspil umhverfis og einstaklinga, auðvitað er það svo að þó svo að menntun eigi að eiga sér stað í samspili umhverfis og einstaklings er ekki öll reynsla nauðsynlega þroskandi eða menntandi að hans mati. Hann varaði við fánýtum athöfnum sem virðast hafa það sem markmið að hafa ofan af fyrir og skemmta börnum á kostnað raunverulegrar þátttöku og áhuga þeirra. Þetta sjónarmið má finna bæði í einu af höfuðritum hans Reynsla og menntun ((Experience and Education, 1938) og í Skóli og samfélag (School and society, 1943) en þar gagnrýndi hann m.a. Kindergareten-hreyfinguna.[1] Gagnrýni hans beindist að því að verið væri að leggja fyrir börn verkefni og ætlast til að þau tækju þátt í athöfnum sem ekki fullnægðu því meginmarkmiði að efla hugsun og þroska barna.

 

Dewey lagði áherslu á að agi yxi út frá vinnunni vegna vinnunnar, hann segir t.d. að ef kennari hafi það sem markmið að börn læri og hafi á takteinum tiltekna þekkingu, svo sem að kunna skil á innihaldi ákveðinnar skólabókar, þá beinist aginn að sjálfsögðu að því markmiði. En ef markmiðið beinist aftur af því að þroska mannsandann, félagslega samhjálp, samvinnu og þess að lifa og starfa í samfélagi þá verði aginn að tengjast þeim markmiðum. Hann telur að þar sem slík markmið ríkja sé tilfinning fólks fyrir röð og reglu nokkuð ólík því sem gerist í fyrra dæminu. Að í skólum þar sem unnið er í anda verkstæðisvinnu sé og verði ákveðin óreiða í gangi. Þar sé ekki hljótt, þar sitji börn ekki kyrr. Í slíkum skóla venjist barnið því að læra í gegn um þátttöku í athöfnum daglegs lífs. Nám verði inngróin venja.

 

[1]Hreyfing kennd við hugmyndafræði Fröbels um leikskóla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Hefði auðvitað átt að skoða mín eigin plögg betur en Dewey var að sjálfsögðu fæddur þann 20. október. Mundi bara að til stóð í haust að halda afmæli á afmælisdegi hans. Svona er þetta stundum.

Kristín Dýrfjörð, 22.10.2009 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband