5.7.2009 | 15:10
Fánaborg leikskóla
Nýlega var ég stödd í leikskóla sem starfar í anda Reggio Emilia. Frá upphafi var ákveðið að taka hugmyndafræði endurnýtingar alla leið. Alla leið þá er átt við að stærstur hluti þess efniviðar sem notaður er, er endurnýttur, hlutir eru keyptir jöfnum höndum nýir og notaðir. Það sem fellur til í leikskólanum er endurnýtt. Næstum allur matur er unninn frá grunni, hvítur sykur ekki notaður og svo framvegis. Frá leikskólanum fer tæpur einn haldapoki af óendurnýtanlegu sorpi á dag (utan bréfbleyja). Einn gestanna spurði leikskólastjórann hvort leikskólinn stefndi á Grænfánann. Nei - ekki sérstaklega, var svarið, enda taldi leikskólastjórinn leikskólann ekki þurfa opinberan stimpil til að framfylgja grænni stefnu þar sem stuðlað er að sjálfbærni og í anda staðardagskrár 21. Það er ekki heldur í anda Reggio Emilia að fá eða þurfa stimpil.
Stundum þegar ég er á fundum í Reggio Emilia kemur þessi spurning upp, á að stimpla eða gefa út vottorð um að skólar starfi svo og svo mikið í anda hugmynda Reggio Emilia? Ef svo er hvað þarf til að geta sagst vera "Reggio Emilia" skóli? Vottorðaútgáfu er ávallt hafnað, það er einfaldlega ekki til uppskrift. Reggio Emilia hugmyndafræði í leikskólauppeldi er hugmyndafræði sem er sífellt í mótun. Fyrir utan þá staðreynd að enginn skóli getur verið Reggio Emilia skóli, nema skólarnir í Reggio Emilia. Hugmyndafræðin þar er sífellt í mótun hún tekur mið af nýrri þekkingu, nýjum rannsóknum, nýrri samræðu. En fyrst og fremst byggir hún á viðhorfum (sem birtist m.a. í orðræðu) sem starfsfólk og samfélag verður að tileinka sér. Það sem skólarnir í Reggio Emilia gera hinsvegar er að deila hugmyndum sínum og þekkingu með umheiminum. Þannig getum við lært af þeim skrefum sem þar hafa verið tekin. Skólar sem starfa í anda eða hafa átt hugmyndafræðilegt mót við hugmyndir fólksins í Reggio Emilia hafa margir bundist samtökum. Deila þar hugmyndum og reynslu. En hver um sig er þar á eigin forsendum, það er enginn sem segir; þú ert ekki nógu mikið Reggio.
Ég á von á því að skólar sem segjast eiga hugmyndafræðilegt mót við Reggio Emilia hafi skuldbundið sig til að tileinka sér ákveðin viðhorf og hugmyndafræði. Þannig er í mínum huga ekki nóg að setja litað vatn í flöskur eða vinna í anda hugmyndafræðinnar í klukkutíma á dag. Það er út af fyrir sig ágætt en er ekki í anda heildtækrar hugmyndafræði. Í því felst engin skuldbinding.
Í ljósi alls þessa þá á ég ekki von á að einn fáninn í fánaborg leikskólanna verði Reggio Emilia fáni.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.