3.7.2009 | 01:58
Ljósmyndun í leikskólastarfi
Í borginni Reggio Emilia á Ítalíu er reknir leikskólar á heimsvísu. Ein megin undirstaða starfsins þar er það sem nefnt hefur verið að á íslensku, uppeldisfræðileg skráning. Hún byggir á því að læra með og af barninu. Að fylgja eftir einu barni eða litlum hóp barna með ýmsum aðferðum. Þegar fólk skoðar skráningar starfsfólks leikskólanna í Reggio Emilia, undrast það. Það undrast m.a. yfir hugmyndum, tjáningu og gæðum sem finna má í skráningunum. Því er stundum haldið fram að uppeldisfræðilegar skráningar í Reggio Emilia séu sjálfstætt listform. Að þar hafi þróast skráningaform sem aðrir eigi erfitt með að fylgja eftir. En hvað er það sem skilur skráningar frá Reggio Emilia, frá öðrum skráningum? Ef til vill er það að fagurfræðin er fyrst og fremst byggð á mikilli virðingu fyrir barninu. Sem dæmi ætla ég að segja aðeins frá ljósmyndun sem skráningarform í leikskólunum í Reggio Emilia.
Frá upphafi hefur mikil hugsun verið lögð í ljósmyndunina að myndir og texti vinni saman. En líka frá hvaða sjónarhorni myndir eru teknar. Hvað er reynt að fanga? Er verið að festa augnablik á filmu eða ná upplifun og tjáningu? Bent er á að myndin sýnir ekki það sem fyrir framan myndavélina heldur fyrst og fremst þann sem er bak við vélina og það sem hann hugsar, hans afstöðu. Að þegar við vísum myndavélinni að annarri manneskju þá eigum við að setja hjarta okkar og hugsun í þá athöfn.
Mjög fljótlega var ákveðið í Reggio Emila að velja myndir til að vinna með frá tæknilegum gæðum, en líka og aðallega vegna þeirra tilfinninga sem myndin kallar fram. Það var ákveðið að sýna myndir sem sýna samhengi, sem sýna hvernig staður leikskólinn er. Hvað á sér stað þar, þau námstækifæri sem þar bjóðast. Mirella Ruozzi pedagógista í Reggio Emilia segist hafa lært frá veröld kvikmyndarinnar. Hún vitnar til Wim Wenders sem sagði að sagan byrjaði með einu klikki og öðru klikki og enn öðru, með því verður sagan til. En skráningar í Reggio Emilia eru einmitt oft settar fram sem sögur. Sögur um nám, sögur um rannsóknir barna á umhverfi sínu í víðasta skilningi.
En fagurfræðin nær lengra, hún nær til allrar framsetningar, til vals á letri, til útlitsteikninga til allra tæknilegrar eftirvinnu. Mikil natni er lögð uppsetningu og klippingar. Í Reggio Emilia vinna hönnuðir og arkitektar að framsetningu efnis með leikskólafólkinu. Mikið er spáð í hvaða skilaboð er verið að senda. Þegar bækur frá Reggio Emilia eru skoðaðar sést sú mikla og skipulega gagnaöflun sem hefur átt sér stað. Það sést hvernig eitt skref leiðir að öðru. Hvernig skipulegar skráningar verða undirstaða starfsþróunar. En það sem skín e.t.v. mest út er sú virðing sem börn njóta, sú mikla trú sem er á hugmyndum þeirra og möguleikum. Að börn eru vitsmunaverur, tilfinningaverur, félagsverur, að þau hafa hundrað möguleika til að tjá sig, hundrað mál og tæknin veitir þessum málum vængi.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 4.7.2009 kl. 11:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.