1.7.2009 | 01:31
Útinám í leikskólum
Það er margt spennandi að gerast i leikskólum landsins. Nýlega var opnuð útideild við leikskólann Rauðhól í Norðlingaholti. Slíkar deildir og skólar eru nokkuð algengir á Norðurlöndum. Hér hafa margir skólar verið að feta sig þá braut. Það sem er skemmtilegt er að áherslur eru mismunandi og fjölbreytileiki nokkur. Enda þau svæði sem næst eru leikskólunum mismunandi. Grannar okkar hafa sína skóga en við okkar móa og fjörur. Á Stóra leikskóladeginum hjá Reykjavíkurborg kynntu hinir ýmsu skólar verkefni sín. Meðal þeirra skoðaði ég fjögur sem sneru að útinámi. Það var samstarf leikskólanna Sunnuborgar og Laugaborgar um Laugardalinn. Sjálf var ég leikskólastjóri við Laugardalinn í áratug og veit hverslags vin hann er. Hann er gríðarleg uppspretta, rannsókna, athuganna og tilrauna fyrir börn og fullorðna. Þar er bæði að finna merkilega flóru og fánu. Verkefni Laugaborgar og Sunnuborgar voru skemmtileg, menntandi og metnaðarfull, til þess fallin að kveikja áhuga barna á útiveru og undrum náttúrunnar. Hinir skólarnir sem þarna fjölluðu um útikennslu (og ég skoðaði, ég náði ekki að klára alla sýninguna á tveimur tímum) voru leikskólinn Bakki sem gerði grein fyrir fjöruverkefni og leikskólinn Blásalir sem sagði frá móaverkefni.
En rót þess að ég skrifa þetta blogg er hinsvegar að ég var að skoða vefinn útnám og vildi í leiðinni vekja á honum athygli.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 01:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.