27.6.2009 | 14:52
Öryggi afstöðuleysis
Stundum verð ég hugsi yfir hvernig fólk notar vald sitt. Mér var nýlega sagt að ég væri áhrifa manneskja í íslenska leikskólaheiminum. Ef rétt er fylgir því líka mikil ábyrgð. En í hverju felst sú ábyrgð? Felst hún í afstöðuleysi gagnvart málefnum sem snúa að innra starfi leikskólanna? Felst hún í því að þegja vegna þess að það er þægilegast. Ég vonaði að hrunið haustið 2007 hafi kennt okkur að til að þróast verðum við að þora að segja skoðanir okkar, láta ekki þagga niður í okkur. Leyfa okkur að takast á og vera gagnrýnin. En sennilega þarf meira en kerfishrun til.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
« Síðasta færsla | Næsta færsla »
Höfundur
Leikskólakennari, fyrrum leikskólastjóri, lektor við Háskólann á Akureyri, áhugamanneskja um málefni tengd leikskólanum í sinni víðustu mynd. Blogg sem eru sérstaklega um faglega hlið leikskólastarfs er að finna á www.leikskolabanki.blog.is
Efni
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Eldri færslur
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
fyrirlestrar og ritgerðir
- Fyrirlestur um ytra mat Fluttur á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. október 2008
- Fyrirlestur - Hvert barn er sinn eigin kór Fyrirlestur fluttur á ráðstefnu Reykjavíkurborgar og RannUng þann 18. apríl 2008
- MA ritgerðin mín Hér má finna ritgerð mína um matsfræði
- (gömul) Rannsókn um viðhorf leikskólakennar til starfsins rannsókn sem gerð var fyrir um tæpum 15árum
- ritgerð um lýðræði og leikskólastefnur
- Leikskóli og trú - skýrsla
Frumkvöðlar
Umræða um leikskóla - mitt blogg
eldri blogg um leikskólamál,skýrslur og greinar
- Vald til breytinga
- Leikskólinn sumargjöf til barna
- leikskólinn fátækragildra kvenna
- Fjölbreytileiki og fjölmenning
- Hávaði í leikskólum
- Funaborg
- Kjarklaust fórnarlamb
- Fagrabrekka og Reggio
- dagur á Iðavelli
- listir og eðilsfræði í leikskólum
- skólaföt
- Skráning (dönsk)
- Leikskólinn pólitískur
- Hönnun leikskóla
- ógn þöggunar
- hræðslan og sjálfsmyndin
- kynjauppeldi?
- Arkitektúr og leikskólar
Sturlubarnið
- Valdagreining Sturlubarnsins
- Sturlubarnið KRingur
- Fyrsti dagurinn í leikskólanum
- Lj´somyndaáhug Sturlubarnsins og sitthvað fleira
- Sturlubarn í húsdýragarðinum
- Sturlubarnið sullar á Íngólfstorgi og skoðar bækur
- Sturla 1. árs
- Sturla, ferð á tjörn og Stöðlakot
- Heimsókn til ömmu og afa í Skeifu
- Að æfa sig á þroskabrautinni
Bloggvinir
- Friðrik Þór Guðmundsson
- Bergljót B Guðmundsdóttir
- Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
- Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
- Baldur Kristjánsson
- Svanur Sigurbjörnsson
- Fríða Eyland
- Hörður Svavarsson
- Ingibjörg Margrét
- Jóhanna Sigrún Jónsdóttir
- Linda Samsonar Gísladóttir
- Valgerður Halldórsdóttir
- Rósa Harðardóttir
- Bergljót Hreinsdóttir
- Margrét Einarsdóttir Long
- Benedikt Sigurðarson
- Svanfríður Guðrún Gísladóttir
- Ingibjörg Stefánsdóttir
- Birgitta Jónsdóttir
- Páll Helgi Hannesson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Arna Lára Jónsdóttir
- Björgvin Gunnarsson
- Hlekkur
- Þingmaður
- Ásgerður
- Þóra Guðmundsdóttir
- Steingrímur Ólafsson
- svarta
- Halla Rut
- Sigríður Jónsdóttir
- Gunnar Axel Axelsson
- Gísli Tryggvason
- SVB
- Arnar Ingvarsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- cakedecoideas
- Dóra
- Elín Erna Steinarsdóttir
- Guðjón Baldursson
- Hildur Helga Sigurðardóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Himmalingur
- Hinrik Þór Svavarsson
- Hulda Haraldsdóttir
- Máni Ragnar Svansson
- Morten Lange
- Stella Jórunn A Levy
- Þórhildur og Kristín
Athugasemdir
Þetta finnst mér nú frekar sjálfsbirgingsleg athugasemd konu sem aðallega hefur það fyrir stafni að gaspra óábyrgt um leikskólamál og pólitík og blanda þessum tveimur þáttum saman.
Ég vel að vera nafnlaus því ég hef ekki áhuga á árásum þínum, eiginmanns eða annarra skoðanasystkina í klúbbi þínum sem allt hefur á hornum sér.
Mig langar að spyrja þig nokurra spurninga sem ég vona að þú svarir hér á vefnum.
1) Er Reggio stefnan betri en aðrar leikskólastefnur á Íslandi. Hvaða uppeldislegu rök eru fyrir slíkum staðhæfingum?
2) Er rekinn hreinn Reggio skóli hér á landi? Af hverju ekki? Er stefnan framkvæmanleg yfir höfuð?
3) Af hverju blandar þú saman pólítískum skoðunum þínum og uppeldisstefnunni sem kennd er við Reggio Emilia? Er Reggio einungis fyrir vinstrimenn? Telur þú aðrar skólastefnur hægrisinnaðar? Til dæmis Hjallastefnuna sem þér er sérstaklega uppsigað við.
4) Hvaða rannsóknir hefur þú framkvæmt á leikskólastarfi? Ef þær eru einhverjar, eru þær eigindlegar eða megindlegar?
5) Áttu einhverjar birtingar í ritrýndum tímaritum? Hvaða greinar og í hvaða ritum?
6) Telur þú þig færa um að leggja hlutlægt mat á skólastarf þegar þú opinberar fordóma og þekkingarleysi þitt hér á þessu bloggi og á öðrum vettvangi, nú síðast í umræðunnni um agamál og Hjallastefnuna?
7) Fræðimennsku fylgir ábyrgð. Veldur þú þeirri ábyrgð?
8) Myndir þú leggja blessun þína yfir skólanámskrá leikskóla sem einungis segðist styðjast við kenningar John Dewey (með smá skammti af Vygotsky og Gardner)? Er ekki slík stefna einungis spurning um að leyfa börnum að vera börn? Eru ekki allir leikskólar með slíka stefnu? Þarf ekki eitthvað meira til? Hvar eru fræðin? Hvar er fagmennskan sem þér er svo tíðrætt um?
9) Er það satt að þú sért á móti megindlegum aðferðum? Að þú sért að eltast við póstmódernisma, paradæm og hugsmíðahyggju? Að ekki megi mæla skólastarf heldur einungis skrá það og þannig framkvæma innihaldslítið mat sem hefur lítið gildi út fyrir aðstæður og tíma?
10) Hver eru áhrif þín og hver hélt þessum ósköpum fram við þig?
Kveðja, Wladimir
Wladimir Anonimir (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 16:52
Í fyrsta lagi er ég ekki vön að svara nafnleysingjum (nema Doctore E), ég tek sjálf ekki þátt í umræðum í skjóli nafnleyndar. En ég ætla að gera undantekningu og svara hluta spurninga þinna. Annað tel ég ekki svaravert. Ef þér finnst það sjálfsbyrgingalegur hroki er mér nokk sama. Svo finnst mér alveg óþarfi að blanda eiginmanni mínum hér inn. Hann er fullfær um að svara fyrir sig.
1. Það eru hvergi til „hreinir“ Reggio skólar nema í Reggio Emilia. Á Íslandi og annarstaðar í heiminum eru til skólar sem starfa í anda eða sækja til hugmyndafræði sem hefur verið þróuð í Reggio Emilia. Fjölmargir Íslenskir leikskólar starfa í þeim anda að miklu eða litlu leyti. Ég hef ekki gerst dómari yfir hversu mikið skólar fylgja hugmyndafræðinni. Ef skóli segist vinna í þessum anda tel ég að hann ætli að tileinka sér ákveðna sýn og orðræðu til barna og vinnubrögð sem styðja þessa sýn. Að með því séu hann að skuldbinda sig. Ég reikna með að það taki flesta skóla nokkur ár að innleiða og festa vinnubrögð og hugmyndafræði í sessi. En til þess að skólar geti fylgt hugmyndafræðinni er mikilvægt að þeir sinni og þrói það sem nefnt hefur verið uppeldisfræðileg skráning. Uppeldisfræðileg skráning er aðferðafræði sem byggir á hinni vísindalegu aðferð. Það má finna fleiri og fleiri rannsóknir á alþjóðavettvangi sem nota hana til gagnaöflunar.
2. Sumir skólar hafa náð mjög langt í sinni vinnu aðrir eru komnir skemmra á veg. En það er rétt að ég tel vanta á að skólar taki þá samfélagslegu afstöðu sem mér finnst hafa einkennt starfið í Reggio Emilia. Þ.e. að það sé yfirlýst markmið skólans að breyta samfélaginu ekki bara að þroska einstaklinginn. Fyrir það hef ég dáðst að Hjallastefnunni þ.e.að það sé markmið að breyta samfélaginu, hinsvegar veit ég ekki frekar en varaðandi annað starf hjallastefnunnar hvernig og hvort þessu markmiði er framfylgt.
Ég held að sú sýn og þær aðferðir sem fólk í Reggio Emilia hefur þróað í meira en hálfa öld séu vel framkvæmanlegar hvar sem er í heiminum og fólk með mismunandi pólitískan bakgrunn geti tileinkað sér þær og nýtt. Þær byggja nefnilega að stærstum hluta á viðhorfi og sýn til barna, ákveðinni aðferðafræði sem og því að vera opin fyrir breytingum , nýjum rannsóknum og kenningum. Rannsóknum og kenningum sem vel að merkja er alltaf mátað við ákveðin grunngildi sem byggja á fyrst og fremst á lýðræði . Hinsvegar hefur fólkið í Reggio Emilia verið óhrætt að taka höndum saman við viðskiptalífið. En á sínum forsendum. Ég hef t.d. skoðað skóla þar sem byggður var í samstarfi við Max Mara. En það fyrirtæki er einmitt ættað frá Reggio Emilia, ég hef líka heimsótt nokkra skóla sem eru reknir af foreldrum í samráði við borgina. Það er borgin sem leiðir fagstarfið í báðum tilfellum.
Ástæða þess að Reggio Emilia er oft kennt til vinstri er hreint og klárt að bærinn tengist sósíalisma og samvinnu hugmyndum mjög sterkt. Ef þú einhvertíma kemur til Reggio Emilia þá sérðu að torg og opinberar byggingar eru kenndar við byltingar , mannréttindahetjur og dagsetningar sem hafa skipt sköpum. Þar er að finna leikskóla Salvadore Allende, 25. apríl og svo framvegis. Andstöðuhreyfingin var mjög sterk í Reggio Emilia og ég t.d. fór í móttöku síðast þegar ég var þar í garði kenndan við 7 bræður sem fasistar tóku af lífi undir lok seinni heimstyrjaldarinnar . Þegar Reggio Emilia kynnir starf sitt og hugmyndafræði er jafnan sett upp saga bæjarins og saga mannréttindabaráttu samsíða sögu leikskólanna.
3. Mér finnst reyndar reikningur frekar skemmtilegur og bara þess vegna gæti ég ekki hafnað megindlegum aðferðum. Reyndar er það nú svo að ég tel að rannsóknarspurningar kalli á rannsóknarsnið. Að þegar rannsóknarspurning er sett fram verði fólk að setjast yfir hvaða aðferðir svari henni best. Oft eru það eigindlegar aðferðir, oft megindlegar og enn önnur skipti blanda af þessu báðu. (Ætli það sé ekki þetta póstmódern sjónarhorn sem þér virðist vera uppsigað við, að telja að bæði gangi). Ef þú vilt vita um störf mín er hægt að nálgast þær upplýsingar á vef HA.
4. Ég hef ekki hafnað megindlegum aðferðum en hafna þinni eigin fordómafullu sýn á eigindlegar rannsóknir.
5. Ég hef undanfarið verið að skoða hinar ýmsu leikskólanámskrár frá ákveðnu greiningarlíkani, samkvæmt því er ýmislegt í Hjallastefnunni sem fellur undir nýfrjálshyggju (sem við getum flest verið sammála um að sé til hægri). Ég hef líka gagnrýnt ýmislegt annað í leikskólakerfinu, ég er t.d. lítið hrifin af agakerfum sem byggja á verðlaunum í leikskólum, og mér finnst fáránlegt að setja það í reglu að bara megi leika með skóflurnar í sandkassanum (þó sú gagnrýni veki e.t.v ekki jafn mikla athygli og að ég skyldi dirfast að hafa skoðanir á hjallanámskránni). Varaðandi hvort ég geti haft skoðanir á leikskólamálum vegna þekkingarskorts á málefnum leikskólans og pólitískra skoðana er það þitt mat. Reyndar er það svo að ég tek málstað leikskólans fram yfir flokkspóltík og hef alltaf gert. En ég tel leikskólakennarastarfið í eðli sínu pólitískt og á mér stóran hóp alþjóðlegra skoðanabræðra.
6. Mér finnst þú afgreiða bæði Vygotsky og Dewey heldur billega ef þú heldur að það að starf sem byggi á kenningum þeirra felist bara í því að leyfa börnum að vera börn. Reyndar finnst mér börn eigi alltaf að fá að vera börn. Það sé þeirra réttur og það eigi að vera grunnur starfs allra leikskóla. Hins vegar hef ég löngum gagnrýnt íslenska leikskóla sem afgreiða Dewey og starf í hans anda með því að segja við vinnum í anda Dewey, learning by doing. Finnst það heldur ódýrt og ekki byggja á faglegum viðhorfum eða yfirhöfuð þekkingu á hugmyndum Dewey.
7. Og hver sagði mér þá vitleysu að ég væri áhrifamanneskja, ja það gæti komið þér all verulega á óvart.
Kristín Dýrfjörð, 27.6.2009 kl. 19:59
Eiginmaðurinn hér.
Wladimir veður í villu ef hann/hún heldur að ég "ráðist á" nafngreint fólk sem skrifar gagnrýnið en heiðarlega og málefnalega. Ég "ræðst" einkum á nafnlausar gungur sem skjóta úr launsátri.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.6.2009 kl. 21:29
Ég er reyndar svo póstmódernískur að það hvarflar hvorki að mér að skilgreina póstmódernisma, hafa neitt á móti honum eða langa hið minnsta að hafa skoðanir á skoðunum þínum. Ég spyr yfirleitt eingöngu spurninginga til að hrista upp og vekja viðbrögð. Nafnlausar athugasemdir geta verið ágætar ef maður er háttvís og gengur ekki allt of langt (maður má vera örlítið óforskammaður en ekki ad hominem).
Ég er alls ekki sammála þér um að fræðimennska eigi að vera pólitísk en ég ber virðingu fyrir þeirri skoðun þinni. Ég held að það dragi úr vægi þeirrar gagnrýni sem þú setur fram, oft af mikilli skarpskyggni, ef þú leyfir pólitískum skoðunum að lita faglegt mat þitt. Ég held að Hjallastefnan sé ábyggilega eldri en nýfrjálshyggjan og eigi ekkert skylt við þá lítt skilgreindu stefnu án þess að ég hafi einhverja sérstaka skoðun á Hjallastefnunni. Ég tek hinsvegar eftir því að þú hefur mjög (og oft óþægilega) sterkar skoðanir á stefnunni og mögulega á höfundinum. Ég ætla hinsvegar ekki að reyna að lesa í það frekar.
Êg tel vinstrisinna vera strúktúralista en ekki póstmódernisma. Êg tel að þeir sem aðhyllast hugsmíðahyggju og kenna hana við póstmódernisma séu í raun að strúktúralísera póstmódernisma. Mér finnst e.k. nytjahyggja frekar póstmódernísk. S.s. ef e-ð virkar og virðist vera að gera gagn þá skulum við nota það en um leið skulum við spyrja spurninga og vera gagnrýnin á allt. Þannig eru fræði að mínu mati. Ég efast til dæmis um kenningar Gardner. Ég held að þær séu illa skilgreindar, oft beinlínis rangar og að það sé ekkert sem styður þær. Garnder sjálfur segir að ekki sé um að ræða greind heldur eiginleika. Ef hann hefði notað hugtakið eiginleikar þá hefði enginn hlustað. Þrátt fyrir veika stöðu tillögu eða hugleiðingar af hálfu Gardners um nýja þætti greindar þá er fyrirbærið notað í íslenskum skólum eins og það sé heilagur sannleikur og hengt utan í hugsmíðahyggjuna án þess að nein raunveruleg tenging sé til staðar. Það kallar á póstmódernískar spurningar.
Allavega; njóttu sumarsins.
Kveðja, Wladimir
Wladimir Anonimir (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 22:30
Það er ekki háttvísi að skrifa nafnlaust og bera við hættu á árásum ella. Það er hið sama og að segja: Ef ég kem fram undir nafni kemur þessi kona og maðurinn hennar og þau lemja mig af því að þau eru ofbeldisfólk. Það er ekki háttvísital! Það er að ganga langt við að gefa eitthvað illt í skyn.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.6.2009 kl. 22:53
Þér að segja Wladimir finnst mér nokkuð vænt um höfund hjallastefnunnar, ég hef löngum hvatt alla mína nema til að fara á fyrirlestra hjá henni sagt þeim að hún hafi gríðarlegan karisma. Ég er nefnilega þannig að ég fagna margbreytileika mannlífsins og held að við eigum öll rétt á okkar sérvisku. Við höfum líka verið samsíða í stéttinni vel á þriðja áratug. Þér að segja er ég ekki ein þeirra sem hef sett út á kynjaskiptinguna – þrátt fyrir að hafa ekki trú á henni. Það er ýmislegt annað sem ég hef haft sterkari skoðanir á. Atriði sem snúa að orðræðu um börn. Þú verður að athuga að það eru mörg ár síðan ég hafði aðgang að námskránni í prentuðu formi, námskrá sem nýlega varð opinber og allir gátu lesið og kynnt sér. Mér varð mikið um að lesa hana upphaflega og þar sem hún hefur lítið breyst (þróast)– hefur það lítið breyst. Ég man reyndar vel þegar ég kom á Hjalla í fyrsta sinn það var um það bil sem fyrstu börnin komu þangað. Á þeim tíma varði ég hana. Ég var mjög hrifin af ýmsu í frumhugmyndafræðinni – sumt þættir sem fljótlega voru settir út. Aðra þætti hefur mér þótt minna um og suma ansi lítið. En það sama má segja um fjölda annarra námskráa. Ég t.d. get ekki skrifað upp á alla þá þætti sem ég lagði sjálf áherslu á fyrir 20 árum, suma mundi ég glöð vilja sjá enn þann dag í dag aðra ekki. En varðandi nýfrjálshyggjuna þá eru skrif um hana í skólum bæði ný og gömul (hugtakið kann að hafa breyst). Jafnvel þó að Hjallastefna væri eldri (sem ég reyndar efast um) fellur hún ágætlega að ýmsum þeim viðmiðum sem þar eru sett fram.
Ég var lengi leikskólastjóri í skóla þar sem töluvert var um barnaverndarmál. Í skóla þar sem ég upplifði að börn voru hlutgerð og um þau talað og farið með á þann hátt. Sjálfsagt er ég eins og aðrir, reynslan litar mig. Þol mitt gangvart slíkri umræðu er sama sem ekkert. Ég hvet nemana sem ég kenni til að lesa námskrá hjallastefnunnar og allar aðrar námskrár með gagnrýnum huga. Frá femínísku-póststrúkúralísku sjónarmiði. Frá þeirri orðræðu sem þar birtist.
Ég hef áður heyrt sömu athugasemdir um Gardner, og er nokk viss um að hann teldi tilganginn helga meðalið. Að áherslur hans og orðræða hafi orðið til þess að opna augum skólafólks fyrir mismun og að hann þyrfti ekki að vera af því illa. Að það sé æskilegt að leita styrkleika hverrar manneskju. Kannski er það þess vegna sem hann og fólkið í Reggio Emilia nær saman, það talar um 100 mál barna, eða 100 leiðir til að tjá sig. Í Reggio Emilia heldur fólk þessu reyndar ekki fram sem sannleika, heldur sem lifandi tilgátu sem þau eru sífellt að takast á við og oft að sanna. Skilgreiningar þeirra eru reyndar oftast heimspekilegar. Reyndar hef ég gagnrýnt Reggio Emilia í ræðu og riti (meira segja ritrýnt) t.d. fyrir að hafa ekki sterkara kynjasjónarmið. Ég hef líka spurt fólkið sem þar fer fyrir uppeldisstarfinu um ýmislegt sem ekki allt þægilegt.
Að lokum velti ég heilmikið fyrir mér hvað átt er við með mínum pólitísku skoðunum. Flokkslega hef ég skilgreint mig sem miðjusinnaðan krata en aðrir hafa e.t.v. á því aðra skoðun.
Kristín Dýrfjörð, 27.6.2009 kl. 23:38
PS. Mér þykir leitt að Wladimir að þú hafir ekki hugrekki til að segja til nafns. Þú virðist vera sæmilega upplýst manneskja og í því ljós er það enn aumingjalegra að fara fram í skjóli nafnleysis. Þú gagnrýnir mig fyrir skoðanir og telur þær vera of sterkar á sama tíma og þú heggur fast úr launi. Ég hef það móttó að ef ég get ekki sagt eitthvað við viðkomandi þá segi ég það ekki um viðkomandi. Það sama á við um höfund þeirrar stefnu sem hefur verið til umræðu, ég hef sagt henni persónulega andlit til andlits það sem ég hugsa og fékk að heyra hennar hlið. Mér finnst það stærra. En nú er runninn upp afmælisdagurinn minn og ég ætla ekki að hafa þetta lengra, en sem fyrr hefði mér þótt betra að vita við hvern ég er að ræða. Ef þú ekki treystir þér að setja það hér geturðu sent mér póst á HA netfangið mitt.
Kristín Dýrfjörð, 28.6.2009 kl. 01:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.