28.1.2009 | 04:01
Dagur gleði og anna og auðvitað Sturlu
Þetta er búinn að vera merkilegur dagur í dag. Bæði fyrir mig persónulega og svo auðvitað þjóðina. Undafarna daga hef ég ekki getað stillt mig um að blogga um stjórnmál. Verður að segjast að ég hef oftast og yfirleitt á þeim miklar skoðanir. En nú ætla ég að blogga um daginn minn. Hann var kapphlaup við tímann, ég þurfti að ganga frá og senda frá mér minn hluta af stórri umsókn í Evrópusamstarfsverkefni. Skrúfaði niður í fréttum og svaraði varla síma.
Rétt um fjögur kom svo tengdadóttir mín með snáðann Sturlu í heimsókn, amma föst við tölvuna enn á náttfötum meira að segja. Íris hafði sótt Sturlu aðeins of snemma á leikskólann, hann var enn í útiveru þegar hún kom og var ekki par ánægður að vera tekinn úr henni. Hún ákvað því að gera það sem honum finnst svo gaman, að skreppa með hann niður á tjörn og skoða fuglana þar. Afi var kallaður úr sinni tölvu til að fara með þeim, en ég hélt áfram að vera límd við mína. Það stóðst að þegar þau komu til baka, ýtti ég á send takkann. Út til hins evrópska verkefnastjóra fór umsóknin. Við það var sem þungu fargi af mér létt og ég ákvað að leika við minn litla mann.
Hér í Miðstrætinu eigum við ljósaborð sem hann fær að leika sér við. Þar eru þessa daga m.a stórir og miklir pappahólkar sem hann leikur sér við að stafla upp og setja upp á armana. Hann lék sér að þessu góða stund og hló og hló og hló. Afinn vildi náttúrlega endilega ná upptöku af hlátri piltsins til að leika sér með við lagasmíði. Sturla fékk því að fara niður með afa. Hann er reyndar mjög áhugasamur um neðri hæðin, fær sjaldnast að vera þar en er búinn að átta sig á að þar er afi oftast þegar hann kemur í heimsókn. Þegar Sturla kemur fer hann því að hliðinu og galar AFA, AFA. Lögin sem afi er búinn að vera að leika sér að gera með Sturlu sínum má finna í tónspilaranum hér á síðunni, litlum börnum finnst þau sérlega skemmtileg. Alveg satt.
Í miðjum klíðum hringdi í mig vinkona og vildi hitta mig á kaffihúsi sem ég vild náttúrlega alveg gera. Þegar ég var komin í kápuna, hljóp litli maðurinn til mín og upp í fang. Þegar afi kom og spurði hvort hann vildi ekki koma til sín. Leit hann bara undan og hélt sér fast. Á endanum varð að rífa hann hágrátandi úr fanginu á mér. Þetta er nú merkisatburður því að þetta er í fyrsta sinn sem hann velur mig fram yfir afa. En skýringin er nú sennilega frekar einföld. Við förum nefnilega oft í gönguferðir upp í búð ég og Sturla þegar hann er hér. Erum lengi á leiðinni og hann fær að kíkja fyrir hvert horn og gægjast inn í alla garða. Litlu fæturnir eru oft lengi að fara stutta vegalengd. Svo eins og önnur vinkona mín sagði í kvöld, "nú bara beitt á hann leikskólatrixum, kannt þitt fag enn Kristín".
Ég náði á kaffihúsið og sat þar og spjallaði um allt og ekkert, en mest fagið við vinkonu mína. Reyndar var ég líka að segja henni frá skemmtilega heimspekikvöldinu sem ég var þátttakandi í, í gærkvöldi. Þar sem ræddar voru hugmyndir þeirra Hardt og Negri sem og Deleuze. Skemmtilegar pælingar sem ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í. En Hardt og Negri eru á leiðinni hingað í vor og ég hlakka mikið til að heyra í þeim.
Á leiðinni heim kom ég við í MM og keypti mér bók, bara vegna þess að einn kaflinn heiti Ekki vera upptekinn við að finna lausnir á vandamálum, heldur við það að finna ný tækifæri. Hentar mér þessa daga þar sem ég þurfti að taka erfiða prívat faglega ákvörðun, en það er annað mál. Svo keypti ég mér leikfang, bolta sem stækkar og minnkar, er bara fyrir mig og Sturlu kannski.
Þegar heim kom leit ég inn á feisbókina og sá að vinur Sturlu sonar míns átti 25 ára afmæli í dag. Er búin að vera minna mig alla vikuna á að gleyma því ekki. Hann býr í útlöndum en þar sem mér finnst nú mikið vænt um piltinn vildi ég gera eitthvað til að gleðja hann. Ákvað því að fara og gramsa í gömlum myndum og vita hvort ég sæi ekki myndir frá því að þeir voru stráklingar og unglingar. Þetta varð hin skemmtilegasta leit og ég rifjaði upp margar góðar stundir. Ákvað svo að skanna ekki bara þessa einu eða tvær af þeim vinunum heldur að skanna inn heilan helling og setja í albúm á fésbókinni, þar sem ég er vinkona margra vina Sturlu. Svona til að vinahópurinn gæti skemmt sér. Ræddi líka við fleiri vinkonur mínar í síma (svona á meðan ég skannaði). Þetta varð á endanum ákaflega vel heppnaður dagur og ekki var verra að Tottenham vann og karlpeningar fjölskyldunnar eru með vel klístrað bros sem fer ekki af næstu daga komnir í 13 sæti og ekki alveg við fallið.
Á morgun bíða mín ný tækifæri, ný verk, meðal annars að hitta stelpurnar á Stekkjarási og fara yfir það sem gera þarf fyrir starfsþróunardag SARE á föstudaginn. En þá ætla 200 leikskólakennarar og annað starfsfólk leikskóla sem starfa í anda Reggio Emilia að hittast og taka saman þátt í ævintýrinu eina sanna. Þar sem við ætlum að skiptast á reynslu og hugmyndum. Ætlum að vera upptekin af þeim tækifærum sem bíða okkar, sem við kannski þurfum að uppgötva í sameiningu.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 04:26 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir að auglýsa lögin: "Lögin sem afi er búinn að vera að leika sér að gera með Sturlu sínum má finna í tónspilaranum hér á síðunni, litlum börnum finnst þau sérlega skemmtileg. Alveg satt".
Ég er svolítið hugsi yfir þessari viðbót þarna: Alveg satt. Er þetta sama merkingin og "ótrúlegt en satt"?
Friðrik Þór Guðmundsson, 28.1.2009 kl. 17:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.