2.10.2008 | 20:59
Verjum börnin og útskýrum fyrir þeim aðstæður - við skuldum þeim það
Í öllu krepputalinu undafarið hefur mér verið hugsað til líðan barna. Ég man þegar ég var sjö átta ára og við krakkarnir í hverfinu komum saman og ræddum um rússagrýluna og verðbólgudrauginn. Í okkar huga voru þetta raunverulegar verur. Verur sem við hræddumst og höfðum áhyggjur af. við töldum þær ógna okkur og fjölskyldu okkar. Eins og ástandið er í dag eru mörg lítil börn og unglingar sem fara hrædd að sofa, hrædd við að vakna. Hrædd við það ástand sem er að skapast. Ef okkur fullorðna fólkinu er órótt getur fólk rétt ímyndað sér áhrif þess á börn. Foreldrar verða að ræða við börnin sín, skýra hvað það er sem við fullorðan fólkið erum svo upptekin af. Reynt að skýra eins og hægt er en í leiðinni róa börnin okkar. Það er ekki hægt að leyna börn ástandinu, það er allstaðar. Sennilega er það þegar farið að birtast i leik barna í leikskólum og grunnskólum landsins. Að halda að börn skynji ekki það sem er í gangi er að stinga hausnum í sandinn.
Á mörgum heimilum eru foreldrar líka að horfa á eftir afkomu sinni, sparnaði sínum, húsnæðis- og bílalán er bundin í erlendan gjaldeyri. Þessir foreldrar eru áhyggjurfullir, illa sofnir, taugatrekktir og auðvitað hefur það áhrif á samskipti þeirra við börnin, skóla og starfsfólk.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Breytt 3.10.2008 kl. 03:00 | Facebook
Athugasemdir
Þörf og góð áminning hér. Börnin eru svo fljót að skynja þennan undirliggjandi kvíða og hræðslu og það versta er þegar ekkert er sagt. Bestu kveðjur í bæinn
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 22:40
Takk ég hef verið aðeins á ferðinni og umræðan snýst allstaðar um það sama. Vona að þetta fari ekki of illa með börnin. Takk og kveðju norður.
Kristín Dýrfjörð, 2.10.2008 kl. 22:49
Dóttir mín sem er 26 ára, þriggja barna móðir og bráðum fyrrverandi íbúðareigandi, var að fllytja í leiguíbúð í gær, íbúðin hennar verður seld á uppboði þann 08.10 og gjaldþrot hennar og sambýlismannsins verður tekið fyrir bráðlega. Það er mjög brýn þörf að útskýra þetta vel fyrir börnunum sem eru farin að fylgjast með fréttum og foreldrum sínum þegar þeir tala um ástandið í þjóðfélaginu.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.10.2008 kl. 01:44
Ég finn til með dóttur þinni og fjölskyldu hennar, ég man hvað margir liðu eftir misgengisárin sem íbúðareigendur fóru margir illa út úr. Þar á meðal fólk mér náið. Það voru þung spor og erfið. Og fólk heldur oft að börnin skynji ekki en þannig er það bara ekki. Auðvitað skynja börn að það er eitthvað að, eitthvað sem ógnar tilveru þeirra. Og þá er brýnt að skýra út eins og hægt er.
Kristín Dýrfjörð, 3.10.2008 kl. 02:49
Kennarar ræða sín á milli þessa dagana hvernig eigi að nálgast þessa umræðu. Það er vandasamt en börn niður í 7 ára eru áhyggjufull.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 09:03
Mikil og góð ábending frá þér, þetta ástand er alveg hreint skelfilegt og manni er farið að kvíða jólanna ég get bara svarið það. Á mínu heimili er húsið, bíllin og hjólhýsið allt á erlendu láni og maður var svona búinn að gera ráð fyrir og hafa svigrúm til allt að 20 til 30% sveiflu á gengi en ekki 100%
Guðborg Eyjólfsdóttir, 3.10.2008 kl. 09:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.