1.10.2008 | 13:53
Að vera "menntaður" leikskólakennari eða kannski menntaður lögfræðingur
Nú er komin út matskýrsla um leikskólann Hjalla. Matsaðilar virðast vera afar ánægðir með það sem þeir sáu og upplifðu og telja skólann hinn ágætasta. Þar sé fólk að gera það sem það segist vera að gera. Starfsfólk og foreldrar séu almennt ánægðir og telji leikskólann vera mannbætandi. Þar séu allir jafnir og enginn yfir annan hafinn.
Úttektaraðilar eru matsfræðingar en ég hefði talið æskilegt að þeir hefðu líka fengið leikskólakennara með sér í úttektina, hefði aukið trúverðuleika hennar***. Almennt tel ég að matið sé fremur lýsandi en greinandi en það sama má segja um allflestar úttektir ráðuneytisins á leikskólum, það sem undirrituð gerði, meðtalið. Þetta tel ég reyndar vera galla hjá okkur en koma að nokkru leyti til af smæð samfélagsins.
***LEIÐRÉTTING Björk er leikskólakennari og starfaði samkvæmt leikskólakennaratalinu 1986 -1992 í leikskólanum Skógarborg í Reykjavík, biðst ég afsökunar á þessari rangfærslu.
Það stakk mig reyndar að í skýrslunni stendur á fleiri einum stað að á viðkomandi stofun starfi menntaðir leikskólakennarar
Af þeim eru tíu menntaðir leikskólakennarar, einn þroskaþjálfi og þrír grunnskólakennarar, þrír starfsmenn eru ennfremur menntaðir sjúkraliðar og einn er með meistaragráðu í listsköpun.
Það virðist ekki þurfa að tilgreina að þroskaþjálfinn og grunnskólakennararnir séu menntaðir. Bara leikskólakennararnir - velti fyrir mér viðhorfi skýrsluhöfunda til leikskólakennara sem í þessu birtast.
Í þessari skýrslu sem hinni fyrri um Ása hefur starfsfólk áhyggjur af því að hjallastefnan sé ekki sérstakleg kennd við kennaramenntunarstofnanir. En í skýrslunni segir:
Leikskólakennarar lýstu í rýnihópaviðtali yfir áhyggjum af því að þær stofnanir sem mennta leikskólakennara á Íslandi hefðu neikvætt viðhorf til Hjallastefnunnar. Þeir nefndu í því sambandi að þó svo að Hjallastefnan væri búin að festa sig í sessi á Íslandi þá væri engin kynning á henni í leikskólakennaranáminu og jafnframt væru almennt ekki sendir til þeirra nemar.
Ég hef reyndar aldrei kennt það námskeið við HA þar sem farið er í hugmyndafræði leikskóla, en veit að alla vega á Akureyri er ekki minna fjallað um Hjalla en ýmsa aðra s.s. eins og frumkvöðlana Montesorri, Steiner og Fröbel. Reyndar kom það fram á fundi sem haldinn var með framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar í fyrravetur við HA. En þar kom jafnframt fram að fjöldi nema veldu að kynna sér hana sérstaklega og skrifa um hana ritgerðir. Ekki síður en aðrar stefnur og strauma. Jafnframt kom fram að nemar hafa farið reglulega í hjallastefnuskóla m.a. á Hjalla í Hafnarfirði. Á það skal bent að nemum í leikskólakennaranámi hefur fækkað mikið undafarin ár og hefur það haft áhrif á möguleika ALLRA leikskóla til að fá nema. Í ár fór nemum aftur fjölgandi og er það gleðilegt. Sjálf man ég eftir fundi á Akureyri fyrir nokkrum árum þegar að leikskólar þar voru óánægðir með að fá ekki alla þá nema sem þeir vildu.
Mér finnst sérkennilegt að í skýrslunni ræða höfundar um viðhorf Háskóla til stofana þegar verið er að ræða meint viðhorf einstaka kennara. Ég held að fyrrverandi deildarforseti kennaradeildar HA hafi svarað því ágætlega í bréfi fyrir nokkrum misserum þegar hann sagði eitthvað á þá leið að deildin eða skólinn sem slíkur hefði engin sérstök viðhorf og að við háskólann ríkti akademískt frelsi sem fæli í sér skoðanafrelsi þeirra einstaklinga sem þar starfa.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:47 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir Kristín að fjalla um matskýrsluna okkar um Hjalla á blogginu þínu. Mig langar þó að benda á veigamikla rangfærslu í umfjölluninni. Hún er sú að undirrituð og annar höfundur skýrslunnar er einmitt menntaður leikskólakennari – og það sem meira er af sama útskriftarárgangi og þú J . Sigríður, hinn höfundur skýrslunnar, er menntaður grunnskólakennari og því alls ekki ókunnug skólaumhverfinu heldur. Það er því helst til mikil oftúlkun að lesa eitthvað viðhorf til leikskólakennara út úr orðinu ‘menntaður’. Nú fer vetrarstarf matsfræðifélagsins að komast í gang – fyrsti fundur stjórnar var í dag. Spennandi félagsfundur framundan, vonandi sjáumst við þar.
Björk Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 20:33
Ég bist afsökunar og fyrirgefningar, stundum slær út hjá mér eins og öðrum og ég tengi þig við matsfræðin öðru fremur. Svo er það nú bara svo, að venjulega tékka ég allt af en í þetta skipti gerði ég það ekki. Ég skal laga færsluna að þessu leyti. En Björk þú veist hvað það fer í taugarnar á "stéttinni" mér meðtalinni þegar fólk segir menntaðir þetta er gamalt þegar líka var sagt "menntaðar" fóstrur. Gerði mig svolítið fúla við upphaf lestursins. En hlakka til að hitta matsfræðingana í vetur, (það er nú slatti að ræða hjá okkur) en eins og þú veist hef ég sjálf valið að nota starfsheitið leikskólakennari fremur en matsfræðingur.
Ps. En ég er hinsvegar afar var ánægð að sjá að þið skiptuð starfsmannahópnum eftir menntun. Mér finnst óþægilegt þegar skiptingin er menntaðir og ómenntaðir. Segir ekki neitt, og hver er í raun ómenntaður?
Kristín Dýrfjörð, 1.10.2008 kl. 21:29
Vona að leiðréttingin í færslunni hafi dugað.
Kristín Dýrfjörð, 1.10.2008 kl. 21:48
Ég er alveg sátt. Það er alltaf gagnlegt að fá góðar ábendingar - bæði hvað varðar orðalag og innihald.
Björk Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 23:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.