Jafnrétti í leikskólum, rigningin er kvenkyns, stormurinn karlkyns

Í morgun mættu fulltrúar 12 leikskóla úr fjórum sveitarfélögum á fundi um sameiginlegt verkefni. Fundurinn var haldinn í Skapandi efnisveitunni í Hafnarfirði. Stjórn SARE hafði lagt til að þetta fyrsta verkefni fjallaði um veðrið. Veður stendur okkur öllum nærri. Það hefur áhrif á líðan okkar, á bæjarbraginn, það er stór hluti af sögu okkar og menningu. Veðrið snertir innsta kjarna hverrar manneskju.  

Í morgun unnum við drög að rannsóknarspurningum um veðrið, rannsóknarspurningum sem koma til með að vera rauður þráður í verkefninu. Leikskólarnir sem voru á fundinum eru mjög ólíkir en deila samtímis ákveðinni uppeldislegri sýn. Við vitum þegar að leikskólarnir ætla sér að tengja verkefnið á mismunandi hátt inn í starfið hjá sér. Sumir tengja það sem þeir eru þegar að gera, aðrir ætla að hafa það þungamiðju. Hver og einn skóli vinnur eins og honum hentar, en allir skuldbinda sig til að gera skráningar á því sem þeir eru að gera. Í janúar á skólaþróunardegi SARE fjalla svo skólarnir um sinn þátt. Í morgun skiptum við líka skólunum í kjarnahópa. Þar sem við setttum "reynda" skóla með skólum sem eru að taka sín fyrstu skref. Ætlunin er að hver kjarni vinni saman og styðji aðra sem í honum eru. Við höldum að þetta eigi eftir að vera frábært samstarf.  

Frá upphafi hefur það verið ljóst að hver skóli vinnur á eigin forsendum. Í einhverjum leikskólum er áhersla á tengsl tónlistar og veðurs, á öðrum er fólk að byggja og byggja, og þá verður kannski tengsl byggingarlistar og veðurs skoðuð. Á enn öðrum stað hafa íslenskar bókmenntir og bókmenntaarfur verið viðfangsefnið. Hvað er skrifað um veður í bókum, er hægt að semja bækur um veður? Hvað með hvernig við tölum um veðrið er það kynbundið gæti verið enn ein nálgunin, af hverju er rigningin hún, en stormurinn hann? Af hverju er hún moldin, en hannsteinninn? Þannig er hægt að tengja veðrið jafnréttisumræðunni. Annarstaðar þar sem fólk hefur verið að sérhæfa sig í stöðvarvinnu, ætlar að að vinna með veðurstöðvar, t.d. úti. Á yngstu deildunum er mörg börn að upplifa leika úti í mismunandi veðrum í fyrsta sinn. Að gera skráningu á upplifun þeirra og túlka getur verið viðfangsefni einhverra. Svo er það auðvitað spurningin um hvað er gott veður og hvað er vont veður. Af hverju er gott veður, gott og af hverju er vont veður, vont? Finnst öllum sama veður vera gott veður? Hvað með börn sem eru nýflutt til landsins, hvernig upplifa þau veðrið og var það öðruvísi þar sem þau áttu áður heima. Er hægt að leika úti í öllum veðrum? Hvernig var verðrið þegar mamma og pabbi voru að alast upp, já eða afi og amma? Hvernig var veðrið þegar ég fæddist?

Þetta var hluti af því sem fólk var að pæla í morgun og á eftir að halda áfram að pæla og auðvitað miklu meira næstu daga og vikur. Ég hlakka mikið til að sjá og heyra um þær tilgátur sem börnin setja fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Af hverju í veröldinni að kven- og karlkenna hugtök eftir málfræðilegu kyni? Þetta er það sem er búið að leiða femínistana á algerar villigötur og nú á að fara að innræta þetta í börnin.

Það er sitthvað kyn manns og málfræðilegt kyn. Vörumst að bera okkur saman við kynlaus tungumál eins og t.a.m. ensku þar sem hann og hún getur aðeins átt við líkamlegt kyn.

Konur geta verið skólastjórar, sagnfræðingar, ræningjar og þjófar og karlar geta verið hetjur, kempur, lyddur og gufur. Strákar geta verið óhemjur og stelpur geta kallast hnokkar og bæði geta þau verið hrekkjusvín. Bergþóra var skörungur og drengur góður en margir kalla Hallgerði versta þrjót.

Afvegaleiðum nú ekki blessuð börnin með svona vitleysu.

Emil Örn Kristjánsson, 18.9.2008 kl. 15:00

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Þetta var nú ekki hugsað til þess að draga heiminn í dilka, hvorki kyns eða málfræði. En einmitt svona umræða er það sem við viljum. Að við ræðum hvernig við notum tungumálið. Sýna akkurat fram á allt það sem þú telur upp, að heimurinn er ekki svart- hvítur. AÐ það er ekki ein lína, eitt rétt svar. Ég laumaði þessu frekar inn vegna þess að ég veit að ég snerti ýmsa viðkvæma strengi og umræðan fer af stað. Hún er til góða og hún auðgar málið. Svo ekki hafa of miklar áhyggjur. Kveðja Kristín

Kristín Dýrfjörð, 18.9.2008 kl. 15:08

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Ég sakna þess samt stundum að vera ekki fóstra og mér finnst stundum skrýtið að fjalla um leikskólamál og skrifa alltaf þeir þegar ég skrifa um leikskólakennara, sérstaklega þar sem um 97% eru þær.

Kristín Dýrfjörð, 18.9.2008 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband