12.9.2008 | 00:13
Karlar prjóna lopapeysu á kaffihúsi
Í dag skrapp ég á fund á kaffihúsi. Þegar ég kom inn blöstu við mér tveir miðaldra karlar. Litu út fyrir að vera í landvistarleyfi af sjónum. Minntu á suma smábátaútgerðarmenn í vaxtarlagi. Þéttir á velli og vel skeggjaðir. Nema annar var með hringprjón og á honum lopapeysuskrokk , hinn var með ermi á fjórum prjónum. Fyrir framan þá lá prjónauppskriftablað og þeir virtust önnum kafnir við að telja út munstur enda að prjóna þetta hefðbunda lopapeysumunstur. Fundarfélagi minn laumaði út úr sér. Hvað, bara handprjónasambandið mætt á staðinn. Ég sá fyrir mér svona prjónakaffi eins og þau gerast best. Voru algeng þegar við bjuggum í Seattle fyrir nokkrum árum. Ég var með myndavél í veskinu og dauðlangaði til að smella af þeim mynd en ákvað svo að sleppa því. Fannst það fullfrekt af mér. Hvað um það, lifi handprjónið.
Annars minnti þetta mig á sögu sem afi sagði mér af kunningja sínum á sjónum sem prjónaði allt á fjölskylduna. Það var reyndar einhver tíma um miðja síðustu öld. Svo fór ég líka að hugsa hvers vegna vekur það svona mikla eftirtekt að tveir karlar sitji með prjónana sína á kaffihúsi, hvað hef ég ekki séð margar konur gera það. Á fundum og í tímum líka (reyndar pirrar það mig, það heyrist nefnilega iðulega klikk, klikk, klikk í prjónum og einbeiting mín út um gluggann). Þessi skemmtilega sýn fékk mig til að hugsa um konur sem eru að sinna dæmigerðum karlastörfum. Horfa karlar á og hugsa enn hvað þetta er krúttlegt? (Stóð mig nefnilega að því).
Athugasemdir
Þú hefðir átt að biðja um leyfi til að taka mynd af þeim. Hefði örugglega verið skemmtilegt það.
Annars var einn af mínum félögum, sem var stýrimaður og skipstjóri á síld og loðnu á seinni hluta síðust aldar ansi flinkur með prjónana. Á öllum land og útstímum sat hann með prjónana og prjónaði sokka og peysur, húfur og vetlinga sem þau hjón gáfu svo sem jólagjafir.
Öðrum karli kynntist ég þegar ég var í Norðursjónum. Sá hét Eiríkur og kom úr Þingeyjarsýslum. Hann heklaði.. Fór einu sinni í land með honum í Leirvík á Shetlandi og þá vildi hann bara skoða tuskubúðir og ég man he hann hreyfst af hekluðum b´ruðarkjól sem hann sá þarna.
Óska þér og þinni fjölskyldu góðrar helgar
Dunni, 12.9.2008 kl. 05:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.