Hver er ég, Kristín Dýrfjörð?

Ég hef í gegn um tíðina fengið ýmsar athugasemdir um skoðanir mínar, svo langt hefur það gengið að utanaðkomandi hafa talið sig þurfa að kvarta við samstarfsfólk mitt og yfirmenn. Ég lít ekki á það sem mitt hlutverk að vera skoðanalaus þó ég sé kennari. Þvert á móti. En mér finnst líka rétt að nemarnir viti hvar ég stend, það er ekkert leyndarmál. Þess vegna ákvað ég fyrir nokkrum árum að skrifa kynningu á sjálfri mér. Bréfið hér að neðan er einmitt sú kynning og er að finna inn á heimasvæði námskeiðs sem ég kenni. Í gegn um tíðina hef ég kennt hundruð verðandi leikskólakennurum, ég get sagt með stolti að sumir aðhyllast sömu hugmyndir og ég en líka með stolti að aðrir gera það alls ekki. Allt þetta fólk hefur að sjálfsögðu sjálft valið hvar það stendur og af því er ég afar stolt.  

Hjá mér var nýlega í heimsókn leikskólakennari og ég var að segja henni frá fyrirlestri í leikskólafræðum sem var tengdur kenningum skammtafræðinnar. Ég minntist í leiðinni á hvernig ég nota hugtakið PRISMA í kynningunni á sjálfri mér.  Hún vildi fá að lesa þessa kynningu, þegar hún var búin bað hún mig að skella henni inn á bloggið mitt. Fannst kynningin eiga erindi til fleiri. Held reyndar að hún sé bara svona skotin í hugmyndinni um uppeldisfræðilegt prisma.  Kannski er ég bara svara klukkinu hennar Ingibjargar Margrétar á nýjan hátt.

 

Bréf mitt til nemanna

Sem hluti af námi ykkar hafið þið sennileg rekist á Uppeldislega játningu John Dewey, þar sem hver málsgrein byrjar á: Ég trúi. Ég er ekki að setja fram mína uppeldislegu játningu í saman skilningi en mér finnst mikilvægt að þið vitið hvar ég stend. Hverjar mínar áherslur séu og á hvað ég trúi í uppeldisfræðum. Dewey segir að hann trúi að menntun sé lífið sjálft en ekki undirbúningur undir það sem koma skal (MPC, Article 2 What the school is 2. málsgrein). Undir þau orð tek ég heilshugar.

 

Mitt markmið er ekki að segja ykkur eða fræða um hvað sé rétt og hvað sé rangt – ekki að kenna ykkur um hin einu sannindi eða hina einu aðferð. Mitt hlutverk er að vekja forvitni – fá ykkur til að hugsa – stundum eftir sömu línum og ég ... stundum eftir einhverju öðrum – það er undir ykkur komið.

 

Öllum er frjálst að hafa sína skoðun – öllum er frjálst að koma þeim á framfæri (mér líka) en allir verða að geta fært rök fyrir því sem þeir setja fram. Önnur rök en, „mér bara finnst þetta“, eða „svona er þetta“. Svo það sé alveg á hreinu þá tek ég ekki allar skoðanir góðar og gildar. Ég get til dæmis ekki liðið það sem ég kalla mann- og/eða barnfyrirlitningu jafnvel þegar fyrir henni eru færð rök. Ég áskil mér rétt til að mótmæla og setja mínar skoðanir/rök fram. Ef ég er á annarri skoðun en þið, merkir það ekki endilega að það sé rétt skoðun eða að ég ætlist til að þið aðhyllist hana. En, ég mun reyna að færa fyrir skoðunum mínum rök. Hvort þið kaupið þau eða ekki eða hafið betri rök sem ég skal hlusta á – er ykkar mál. Einn grundvöllur lýðræðis er samræða – samræða ólíkra sjónarmið. Samræða þar sem rök vega þungt. Hvernig þessi rök eru er svo allt annað mál.

Mannskilningur og lífsýn 

Ég held að þið vitið mörg af afspurn að ég aðhyllist ákveðna hugmyndafræði, ég hef aldrei haldið því leyndu. Hugmyndafræðin sem ég aðhyllist og hef unnið að einhverjum marki eftir frá því að ég útskrifaðist sem „fóstra” fyrir um 20 árum byggist á ákveðinni lífsýn og mannskilningi. Hún byggist á uppeldi mínu, reynslu sem ég hef orðið fyrir og menntun minni. Hún er að hluta það nesti sem ég fékk úr barnæskunni og að hluta það sem ég hef tínt upp af götu lífsins. Allt hefur þetta mótað hver ég er. Mér finnst mikilvægt að þið gerið ykkur  snemma grein fyrir hver sé ykkar eigin mannskilningur og lífsýn.[1]Þættir sem móta uppeldislega sýn ykkar.

 

Fröde Söbstad skilgreinir uppeldislega sýn sem:

Skynjun á raunveruleika, gildismat og afstaða sem er undirstaða uppeldislegra starfa viðkomandi. Að baki vali viðkomandi á aðferðum og framkomu eru alltaf einhverjar hugmyndir, gildi og afstaða. Þessa uppeldislegu sýn er m.a. hægt að flokka í nokkra flokka að mati Söbstad. Þá mikilvægustu telur hann vera, heimspekilegt viðhorf, trúarlega afstöðu og  félagsfræði-, stjórnmála- og sálfræðilegar-kenningar sem við aðhyllumst.

 

Ég hef í gegn um tíðina verið frekar upptekin af ýmsum sögulegum þáttum og skal alveg viðurkenna að saga hefur ávallt verið eitt af mínum uppáhaldsfögum. Fræðimenn sem ég hef lesið og hafa haft mikil áhrif á mig frá upphafi eru bæði Fröbel og Dewey. Annar er talinn standa fyrir hin kvenlægu gildi í leikskólafræðum, hinn er talinn höfundur hinna karllægu gilda. Sjálf taldi ég þetta að hluta  – en því meira sem ég les finnst mér það ekki endilega vera rétt. Það sem hrífur mig hjá þeim er annarsvegar sýn á barnið og hinsvegar sýn á samfélagið og lýðræðið. Ég hef líka verið hrifin af hugmyndafræði sem er kennd við borgina Reggio Emilia á Ítalíu. Ekki vegna þess að það er listuppeldi eins og þið vitið að margir álíta það vera – ekki vegna þess að þar er umhverfið þriðji kennarinn, að hluta vegna áherslu á sköpun, en aðallega vegna hugmynda þeirra um lýðræði og mikilvægi samræðunnar. Vegna  lykilhugtaka eins og pedagogy of listening eða uppeldisfræði hlustunnar,  að í lýðræði felist það að hlusta. Carlina Rinaldi segir í Reggio byggist hugmyndafræði þeirra að stórum hluta á uppeldisfræði hlustunnar. Sem feli í sér að hlusta á raddir sem sjaldan fá að hljóma, hlusta á það sem við reynum svo mikið og oft af öllum mætti að þagga. Hlusta eftir þessum nítíu og níu málum sem við tökum frá barninu.

Hlustun

Mikilvægi þess að hlusta varð mér ljóst sem aldrei fyrr nú í haust þegar ég heimsótti leikskóla þar sem börn voru börn af mjög ólíkum uppruna. Ég var í leikherbergi með þremur, fjögurra og fimm ára stelpum og þær voru mikið að rabba við mig. Ein segir mér með stolti að þegar hún verði stór, verði hún kona. Önnur tekur undir og segir já ég verð líka kona. Nei, nei segir sú þriðja, ég verð ekki kona ég verð stór stelpa. Upp úr þessu spannst mikil umræða sem ég tók þátt í, m.a. um að maður gæti bæði verið stelpa og kona á sama tíma. Þessi unga stúlka keypti ekki þau rök. Vinkonur hennar reyndu mikið að sannfæra hana en hún var föst fyrir og örugg í þeirri vissu að hún yrði ekki kona, heldur stór stelpa. Þessar þrjár stelpur voru frá þremur mismunandi upprunalöndum. Ein er íslensk, ein frá Afríku og sú þriðja, þessi sem vildi alls ekki verða kona er tælensk. Ég velti heilmikið fyrir mér hvort hér væri um vandmál varðandi íslenskuna. En fannst það samt ekki vera, fannst allar hafa góð tök á íslenskunni. Það var ekki fyrr en ég kom heim og fór í alvöru að hugsa um það sem hún sagði að ég hálf lamaðist. Hvaða mynd höfum “við” af tælenskum konum? Hver er ykkar mynd af konum frá suðaustur Asíu? Þessi litla stúlka veit það.

 

En svona geta myndir verið mismunandi – þegar ég sagði vinkonu minni frá Quatar, velmenntaðri konu, múslima sem klæðist kufli sem hylur allan líkamann og slæðu yfir öllu hári. Þá var hún mest upptekin af því að litla stúlkunni sem sagði með stolti: Þegar ég verð stór, verð ég kona. Eitthvað sem ég hafði ekki pælt í og er enn að pæla í frá sjónarmiði þessarar vinkonu.

Trú á reglur - eða ekki! 

Annað sem ég held að gerist ekki í leikskóla þar sem hlustun er stunduð er regla eins og fullorðnir ráða. Mín skoðun er að slík regla byggi ekki á trú á getu barnsins, heldur á öryggisleysi og vandamálum hins fullorðna. Á þörf okkar fullorðna fólksins til að hafa stjórn aðstæðum. Og ef við höfum hana ekki, ræðum við bláköld um agaleysi barnanna. Eitt af því sem við gerum í þessu námskeiði er að afbyggja texta. Hluti af því felur í sér að setja upp eða finna andstæðuna. Fullorðnir ráða – hver er andstaðan, er það börn ráði (börn eru jú andstaða/heiti fullorðna) eða er það að fullorðnir eru valdalausir? Ef fullorðnir eru valdalausir hverjir hafa þá valdið? Hvað er þá átt við með völdum? Er það völd til að ráða yfir öðru fólki – völd til að segja fólki að sitja og standa samkvæmt geðþótta þess sem hefur valdið? Ráða hverju? Hvaða sýn eða mannskilningur ríkir þar sem þessi setning er höfð að leiðarljósi í starfinu? Með því að afneita fullorðnir ráða reglunni er ég þá að aðhyllast því að börn eigi að ráða því sem þau vilja?

Samræða 

Ég aðhyllist líka starf í anda Reggio Emila vegna samræðu sem þar hefur átt sér stað við margt andans fólk, fólk eins og Dewey, Montessori, Freire og jafnvel Makarenko, við Vytgosky og líka Piaget. En líka vegna tengsla þess við næsta umhverfi og þá sem hafa mótað það. Það samræmist að mínu viti vel að aðyllast starf í anda Reggio Emila og að aðhyllast kynjafræði og auðvitað það sem nefnt er gagnrýnin uppeldisfræði. En ég skal líka taka það fram af gefnu tilefni að ég held ekki að leikskólakennari getið unnið í anda Reggio klukkutíma á dag. Alveg eins og ég held ekki að ég geti unnið samkvæmt hugmyndum Rudolf Steiner (Waldorf)  klukkutíma á dag og orðið við það Waldorfsk. Ég get vel nýtt mér ýmislegt úr þeirri hugmyndafræði, en það er bábilja að halda að það að taka upp dag/vikuskipulag í anda Steiner eða að nota waldorfdúkkur í leikskólanum geri hann að Waldorfleikskóla. Það þarf meira til. Ég held heldur ekki að það að setja flöskur með lituðu vatni út í glugga og/eða vinna skapandi starf í klukkutíma 2x í viku geri skóla „reggióskan”.

 

Í mörg ár og allt of mörg ár hef ég ekki lagt á mig þau óþægindi að nenna að standa í hugmyndafræðilegri deilu um leikskólastarf við þá sem aðhyllast aðrar sýn og hugmyndir en ég geri. Svona allavega ekki ótilneydd. VEL að merkja það er nokkuð öruggt að ég deili um 80% -90% skoðunum með flestu fagfólki um það hvað felist í gæða leikskólastarfi, jafnvel því sem annars er á öndverðum meiði við mig. En það eru þessi 10%  - 20% sem eru í grunninn öðruvísi og byggja kannski að einhverju leyti á lífsýn minni og mannskilningi. Sem gera það að verkum að ég get ekki fellt mig við ýmis vinnubrögð. Ég hef ekki keypt þau rök sem fyrir þeim eru færð og ég get ekki fellt mig við þann mannskilning sem þar birtist.

Hugmyndafræði 

Nýlega var ég að hlusta á fyrirlestur um muninn á heimspeki annarsvegar og hugmyndafræði hinsvegar, þar var sett fram skilgreining á hugmyndafræði sem mér fannst tala til mín og kannski eitthvað sem líka gerir mér auðveldara með að skýra mína afstöðu. Skilgreining var eitthvað á þessa leið að með hugmyndafræði væri átt við[2]:

 

að hugmyndafræði einhvers hóps eða menningarsamfélags sé sá hugsunarháttur, kenningakerfi, goðsagnir eða tákn sem einkenna hópinn eða þá sem tilheyra honum. Hugsunarháttur sem þeir sem tilheyra hópnum færa rök fyrir og berjast jafnvel fyrir en samtímis sé annar hópur sem andmælir.

 

Ef til vill er komið að mér að vera í andmælendahópnum. Að taka á mig þá ábyrgð að andæla jafnt sem að fylgja eftir mínum skoðunum. Hingað til hef ég að mestu leyft mér að vera í meðmælendahóp minna skoðana. Það er nefnilega þægilegast. Eins og þið vitið er gagnrýnin uppeldisfræði að hluta eins og hún birtist í dag rakin til Paulo Freire. Frá honum eru komin ýmis lykilhugtök. Hugtök sem sum hver eru flókin, full af óreiðu og mótsögnum. Sem eiga það til að rugla mann algjörlega í rýminu.                                                                                                                                                                    

Prisma

Gagnrýnin uppeldisfræði er í hugum sumra eins og prismaog þegar viðkomandi hefur náð á því tökum er ekki aftur snúið. En prisma er þrístrent gler sem brýtur ljósgeisla og þá sjást litirnir sem mynda litrófið. Þannig gefur prismað okkur ekki bara nýtt sjónarhorn heldur hjálpar það okkur að kljúfa það sem við segjum og gerum í ákveðnar frumeindir. Hugsið ykkur ef við ættum til einhverskonar uppeldisprisma, sem gerði okkur kleift að skoða vinnubrögð okkar og hugmyndir, sjá hvað liggur að baki ákvörðunum okkar og gerðum. Sumir segja að gangrýnin uppeldisfræði sé þetta prisma. Orðræðugreining og afbygging er líka hluti prismans. Þar koma inn nöfn annars fræðafólks sem þið eigið eftir að kynnast og kannski að hafa á ykkur nokkur áhrif, má þá nefna frönsku heimspekinganna, Foucault, Derrida, Deleuze og Guattari sem hafa haft mikil áhrif á hin ýmsu fræðasvið m.a. innan leikskólans.

prisma

 

Prisma 

(Sjáið hvernig hvítt ljós fer fellur á prismað en greinist í litróf þegar það kemur út hinum megin)

Eitt af því sem er markmið þessa námskeiðs er að kynna ykkur aðferðir til að lesa úr og kynna ykkur á gagnrýnin hátt ýmsar stefnur og strauma leikskólafræðanna. Kynna ykkur verkfæri sem hægt er að nota til að komast að kjarna máls. Eitt verkefni gæti verið að skoða hvernig ég sjálf kem fyrir mig orði – orðræðugreina mig. Ég er viss um að ef einhver leggur það á sig á sá hinn sami eftir að komast að því að ég eins og flestir aðrir hættir við að vera í mótsögn við sjálfa mig – vera ekki alltaf rökrétt.  


[1] Sjá kennslubréf hér að neðan um ýmsar tegundir mannskilnings

[2]Reyndar fer þessi skilgreining ansi nálægt skilgreiningu Deweys á samfélagi. Bendi ykkur á að lesa fyrirlestur minn um John Dewey á webct.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sæl gaman að lesa þessa kynningu á þér, en mig langar að heyra frá þér hvaða álit þú hefur á Hjallastefnunni?  Ég á þrjú barnabörn sem hafa verið í þannig leikskóla, mér finnst það hafa gert mikið fyrir mín barnabörn.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.9.2008 kl. 02:35

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Jóna Kolbrún og takk fyrir innlitið. Eins og með þig þá hef ég heyrt að foreldrar barna sem eru með börnin sín í Hjallaleikskólum séu nokkuð ánægðir. Bera þeir foreldrar sem ég þekki flestir skólunum vel söguna.

Sjálf aðhyllist ég ekki hjallastefnuna og gæti ekki hugsað mér að starfa samkvæmt henni. Margt af því sem þar er lögð áhersla á er gagnstætt viðhorfum mínum. Það hefur ekkert með kynjastefnuna að gera svo það sé á hreinu. En foreldrar hafa festir val og sumir velja hjallastefnuna vegna þess að þeir hafa trú á henni, aðrir velja annað.

Ef ég tel fátt eitt upp af því sem ég aðhyllist ekki en hjallastefnan aðhyllist þá er ljóst að töluvert ber í milli. Það er alveg ljóst að áhersla hjallastefnunnar á ytri aga er töluverð (um það höfum við Margrét Pála rætt opinberlega), sjálf hef ég ekki eins mikla trú á þeim aðferðum.  Sama má segja um umhverfisáherslur hjallastefnunnar, þar er trú á einfalt, tilbreytingarlítið umhverfi og skýra ramma. Ég hef ekki heldur trú á slíku umhverfi. Það að þurrka út persónueinkenni með skólafatnaði er enn annað sem ég hef ekki trú á (ekki það að mér finnst heldur að foreldrar eigi að eltast við að hafa börn sín í tískufatnaði eða fatnaði sem ekkert má koma fyrir í leikskólum). Ég trúi á að börnin eigi að móta spor í skólastarfið, spor sem eru jafnvel sýnileg mörgum árum seinna. Skólar sem leggja áherslu á að líta út eins og nýir í hverri viku falla ekki að mínum hugmyndum. Svo þú sérð að ég færi seint að starfa innan Hjallastefnunnar ehf (og ég efast reyndar líka um að nokkur þar vildi fá mig til starfa). Hins vegar eru bæði leikskólakennarar, stjórnmálamenn, foreldrar og almenningur sem hafa trú á öllu ofnagreindu og telja þar af leiðandi skóla Hjallastefnunnar ehf eftirsóknarverða. Sjálfsagt er líka ýmislegt annað í hjallastefnunni sem þeir aðhyllast.

Margir nemar hjá mér hafa í gegn um tíðina skrifað lokaritgerðir um hjallastefnuna og eru henni afar hlynntir. Ég þekki líka foreldra sem eru t.d. afar ánægðir með hvernig samskipti eru á milli barnanna og hvernig börn tala um og við hvert annað.  Ég vona svo að  þér hafi fundist ég hafa svarað spurningu þinni af einlægni.

Kristín Dýrfjörð, 10.9.2008 kl. 03:17

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Glæsileg grein og upplýsandi. Takk fyrir.

Svavar Alfreð Jónsson, 10.9.2008 kl. 08:40

4 identicon

Takk héðan .  ..

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 10:17

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir greinagott svar, mér þótti í byrjun svolítið skrítið þegar bræðurnir voru að tala saman og notuðu orðið vinur en ekki nöfnin sín.  Svo vandist það náttúrulega.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.9.2008 kl. 14:58

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ja venst ekki næsta allt Jóna Kolbrún? Ég sá í fréttum áðan að Hjallastefnan ehf er að hefja formlegan grunnskólarekstur hér í borg. Kom svo sem ekkert á óvart, hefði frekar komið á óvart ef frjálshyggjuliðið í borginni hefði sagt nei. Held að þar hafi báðir aðilar uppfyllt sameiginlegan draum.  

Og takk fyrir innlitið norðlendingar, er nú að hugsa um að stinga nefinu norður bráðlega. Er annars byrjuð í ársleyfi frá kennslu við HA.

Kristín Dýrfjörð, 10.9.2008 kl. 15:35

7 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Margir háskólakennarar mættu taka þig til fyrirmyndar í þessum efnum. Kennarar sem halda öðru fram eru fastir í hinni gömlu úreltu skilgreiningu á kennarastarfinu, sem byggir á þeirri hugmynd að kennarar veiti en nemendur þiggi.

Mínir bestu kennarar litu svo á að starf þeirra væri fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir sameiginlegri þekkingarleit, þ.e. "mentoring". Mentor les ekki upp hinn heilaga sannleik fyrir nemendur sína, heldur skapar þeim grundvöll til að finna hann uppá eigin spýtur og mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Af þeim sem hafa verið hjá þér í námi heyrst mér þú vera býsna góð því. Eflaust vegna þess að þú leyfir þér að vera þú sjálf  -  mentor frekar en kennari.

Skil samt ekki hvað þú hefur á móti því að einkaaðili fái tækifæri til að reka grunnskóla í Reykjavík, er það ekki bara hið besta mál, svo framarlega sem að í því felst engin mismunun og öll börn hafa jöfn tækifæri til að sækja slíka skóla, óháð efnahag?

Gunnar Axel Axelsson, 10.9.2008 kl. 16:10

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Segist ég vera á móti? Kannski ertu bara snjall að lesa milli línanna **). En það er reyndar rétt hjá þér að ég set spurningarmerki við einkarekstur. Einkarekstur sem byggir á því að velmegandi foreldrar komi börnum sínum í skóla umfram aðra er mér ekki að skapi, en ég er hinsvegar fylgjandi mismunandi rekstrarformum svo framalega sem að er á jafnréttisgrunni fyrir viðkomandi fjölskyldur og börn. Ég hef stutt marga leikskólakennara sem eru í slíkum pælingum og mun halda því áfram.

Kristín Dýrfjörð, 10.9.2008 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband