Nú byrjar Sturlubarnið í leikskóla

Sturlubarnið er orðinn Hafnfirðingur eins og amma hans er fædd (ég fæddist sem sagt á Sólvangi fyrir margt löngu). Hann fer meira að segja langt með að flokkast innfæddur, bæði afi minn og langafi Hafnfirðingar. Afi (Lilló) hefur af þessu svolitlar áhyggjur, heldur að barnið verði harður FH-ingur. Kannski er ástæða að óttast, mamma Sturlubarnsins keppir nefnilega fyrir það lið í frjálsum. 

Sturlubarnið er að byrja í leikskóla og fór þangað heimsókn daginn sem hann opnaði. Ég fór líka, enda löngu búin að lofa að vera faglegur ráðgjafi með starfinu þar næsta vetur. Sturlubarnið er nokkuð öruggur með sig. Um leið og við komum í leikskólann (hann var auðvitað með  pabba sínum og mömmu), sá hann áhugaverða hluti á gólfinu sem hann þurfti að skoða nánar og skreið af stað. Þetta voru hringir í mismunandi litum sem eru límdir á gólfið. Svo sá hann hin börnin. Við það færðist hann allur í fang og vildi ólmur komast til þeirra. Gerði sitt besta til að hafa við þau samskipti. Brosti og elti þau, bablaði og rétti þeim. Sum vildu hafa samskipti við hann önnur vildu kúra í öruggu fangi mömmu eða pabba. Hér áður var því stundum haldið fram að ekki væri hægt að tala um félagslegan þroska hjá ungum börnum, í dag vita menn betur og að lítil börn fara mjög snemma að sýna félagslegan þroska. Sannarlega sá ég það á föstudaginn.   

Í sumar erum við afi búin að vera svo lánsöm að vera í hlutverki dagömmu og afa. Sturlubarnið er búið að flækjast víða með okkur, sjá margt og gera. Hann er búin að hitta fullt af fólki og amma mjög upptekin við að láta hann reyna á sig og takast á við umhverfið. Það að Sturlubarnið er vanur rannsóknum sást vel þennan fyrsta dag. Hann skreið um allt húsið, skoðaði og prófaði nýja hluti. Hér á eftir fylgja með myndir sem ég og afi tókum af rannsóknum hans á umhverfinu. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég þekkti mjög mikið af því fólki sem þarna var samankomið og var því ögn uppteknari af samskipta við það en að fylgja Sturlubarninu. Enda hann á ábyrgð foreldra sinna í leikskólanum.

Ég sagði við vinkonum mína að ég vildi nú gjarnan fá að vera með honum í aðlöguninni, bara til að sjá hvernig hann upplifir umhverfið. En þar sem ég kenndi löngum bæði um foreldrasamskipti og aðlögun, þá veit ég að aðlögunin er mikilvægur tími fyrir foreldra, börn og starfsfólk til að kynnast hvert öðru og byggja upp góð og jákvæð samskipti. Þetta er sá tími sem starfsfólkið er að kynnast börnum og foreldrum, foreldrar að treysta utanaðkomandi aðilum fyrir börnunum sínum og börnin ekki bara að læra að vera án foreldra og kynnast nýju fólki heldur eru þau líka að læra að vera í hóp með öðrum börnum og það er ekkert lítið. Ég verð því að treysta á uppeldisfræðilegar skráningar starfsfólksins. Það verður að vera minn gluggi inn í fyrstu daga Sturlubarnsins í leikskólanum. **)

Annað sem ég er að velta fyrir mér er hvort að þegar barnið er orðið virðulegt leikskólabarn hvort að þá eigi ekki að fara að ávarpa það með nafni.   

Meðfylgjandi er líka albúm um fyrstu heimsóknina í leikskólann. Læt líka fylgja með myndir af leikskólaþjálfun ömmunar í Miðstrætinu daginn áður en Sturlubarnið barnið fór í heimsóknina. 

 

Sturlubarnið rannsakar sullukerið

Það sést ekki á myndunum en Sturlubarnið var að færa sama hlutinn á milli hólfa, aftur og aftur. Það var ekki vatn í kerinu en það skipti engu. Hann tók upp lítinn hlut og færði höndina yfir í hitt hólfið þar sem hann sleppti. Hann endurtók ferlið sennilega 10 sinnum. Hann er einmitt á þeim aldri þar sem endurtekningar eru afar mikilvægar, að hafa tækifæri til að endurtaka skilar sér í auknum skilningi og þroska. Ég horfði á, tók myndir og sagði ekki orð. 

Sulluker1Sulluker3

sulluker 6sulluker 5

 

Mögulegur vinur

Stólinn 4Stólinn 2

Stólinn 5Stólinn 1

 

Segull er heillandi, Sturlubarnið er nýbúinn að uppgötva kraft segulsins 

Seglarnir eru í svart-hvíta herberginu. Allir hlutir sem eru þarna inni eru annað hvort svartir eða hvítir eða munstrað í þeim litum. Annars eru ekki nema nokkrir daga síðan Sturlubarnið gerði sér grein fyrir undri segulsins. Í leikfangaboxinu hans er gamall baukur sem gerður er úr niðursuðudós, þar er líka að finna hjarta sem synir okkar hafa einhvertíma fært okkur (með áletrun um að við séum heimsins bestu foreldrar). Þetta hjarta er ætlað á ísskápa eða þessum líkt en hefur af einhverjum ástæðum endað í kassanum hjá Sturlubarninu. Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir að hann stóð mjög einbeittur á svip og reyndi (að ég hélt) að troða hjartanu ofan í baukinn. Mikið að vesenast. Svo mikið að hann gleymdi að hann er enn ekki farinn að standa sjálfur, hélt jafnvæginu og var að reyna eitthvað. "Hvað er hann að gera?" spurði ég Lilló. "Hann er með segull svaraði hann." Ég fór þá að veita þessu baksi hans meiri athygli. Þá sá ég að hann var að reyna að snúa hjartanu rétt, það er að segullinn snéri að málminum. Svo tók hann þetta í sundur og endurtók aftur og aftur. Hann var mjög upptekinn við að láta segulinn festast ofan á dósinni (þar sem gatið fyrir peningana er).  Hann var að uppgötva orsök og afleiðingu og að gera sér grein fyrir kröftum segulsins. Eðlisfræðinám hefst nefnilega mjög snemma.  

Annað sem áhugavert er að skoða á myndunum af seglunum hér að neðan er að hann tekur aldrei svörtu seglana. Hvort það er vegna þess að hann gerir sér ekki grein fyrir þeim eða að það sem sker sig úr dragi athygli hans til sín veit ég ekki. Kannski að starfsfólkið pæli í því hvernig mismunandi börn nálgast seglana.  

Segull13Segull8

Segull9Segull10

 

Segull3Segull1

 

Snúningsdiskurinn heillaði, líka félagsskapurinn

Snúningsdiskur1Snúningsdiskur3

 

Sturlubarnið sér hristuna - sækir hana og lætur nýju vinkonuna hafa hana, ánægjan yfir afrekinu leynir sér ekki.

Snúningsdiskur4Snúningsdiskur5

Snúningsdiskur7

 

Umhverfið rannsakað

Takið eftir speglum og ýmsum tjöldum sem eru notuð til að brjóta upp rýmið en líka til þess að skpa möguleika til samskipta og leikja.

rannsókn10rannsókn5

rannsókn6

rannsókn4rannsókn2

 

Amma undirbýr Sturlubarnið fyrir leikskólagöngu heheh

Pappi og hólkar 1Pappi og hólkar 4

Pappi og hólkar 8Pappi og hólkar 2

 

pappi og hólkar3
Hólkarnir eru mjög vinsælir hjá Sturlubarninu, hann fékk líka með heim og dundar víst lengi með þá í rúminu sínu á morgnana, á myndinni má líka sjá bókina sem ég bjó til handa honum með myndum af dýrum, börnum og honum og afa. Ég plastaði blöðin og festi svo saman með lyklakippuhring.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottar myndir og flottur drengur Við finnum ekkert fyrir neinum þrýstingi um að standa okkur vel og skila af okkur mikilvægum og góðum skráningum Alls ekki hehehe

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 20:13

2 identicon

Sæl Kristín mín

 Gaman að lesa um þessa ferð ykkar á leikskólann og sjá myndirnar af Sturlu, ég held að það verði ekki mikið mál fyrir hann að aðlagast því hann er svo félagslyndur og verður alltaf svo glaður þegar hann hittir krakka og hann og Diljá frænka hans hoppa og skoppa og hlægja þegar þau hittast. Les bloggið þitt á hverjum degi til að fá fréttir af litla manninum okkar.  Kveðja úr Garðabæ. 

amma Palla (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 20:18

3 Smámynd: Jóhanna Sigrún Jónsdóttir

hehe engin þrýstingur, Svava nú er eins gott að standa sig, æðsti presturinn komin í hús. Það er nú ekki slæmt að eiga svona ömmu með myndavélina og skráningarblöðin á eftir sér. Gangi ykkur vel öll. Og Sturla áfram Haukar

Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 11.8.2008 kl. 22:02

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þvílík dúlla.  Gaman að lesa um þroskasögu Sturlubarns.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.8.2008 kl. 23:37

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk allar, Svava engin pressa, bara skilningur **), ég held reyndar að þið hafið einstakt tækifæri til að þróa aðferðina og það sem meira er mér sýnist á öllu að þið ætlið að nýta ykkur það. Ekki hægt að biðja um meira. en svona til að gefa lesendum innsýn í gildi hennar þá tók ég t.d. ekki eftir þessu með svörtu seglana fyrr en ég fór að pæla í myndunum. Var búin að renna oft í gegn um þær en var að  kroppa út handahreyfingar þegar ég veitti því athygli. En þannig eru víst skráningarnar, best að skoða oft og saman. Jóhanna, ég veit að ég þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur. Ég lofa að vera ekki of mikið með nefið ofan í koppunum hjá stelpunum.

Palla amma, náttúrulega eigum við eitt frábært barnabarn saman og hann óskaplega heppinn að eiga ykkur að. Var samt voða fegin (hehehe) að heyra að hann vaknaði á sama tíma hjá ykkur í pössun og okkur. Mér finnst líka alveg frábært að sjá hvað hann á í góðu sambandi við Diljá. Verður enn meira gaman að fylgjast með því þegar málið kemur.  Og ég vona sannarlega að skráningarnar mínar (texti + myndirnar) veiti allri stórfjölskyldunni okkar beggja innsýn í þessa fyrstu mánuði. Til þess er leikurinn gerður.

Takk Jenný **). 

Kristín Dýrfjörð, 12.8.2008 kl. 01:28

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Af því að ég hef minnst einhvertíma á hina kappsömu móður og ætlun hennar að Sturlubarnið sýni hvað hann er stór, þá hefur hann náð því. Íþróttakonan gafst auðvitað ekki upp, bjó bara til nýtt æfingarprógramm **).  

Kristín Dýrfjörð, 12.8.2008 kl. 01:35

7 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Skemmtilegar skráningar hjá þér og áhugaverðar...

Fínt að hafa smá pressu á staffinu...það ýtir bara undir metnað og svo er alltaf gott að finna að foreldrar og aðstandendur hafi áhuga á leikskólagöngu smáfólksins....gerir starfið miklu litríkara og skemmtilegra

Bergljót Hreinsdóttir, 12.8.2008 kl. 20:43

8 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Mikið vara þetta skemmtileg lesning! og frábærar myndir. Og mikið svakalega hlýtur að vera gaman að vera afi og amma!!!!

Þó ég sé á þessum líka fína ömmu aldri - 50 ára frá því í mars - þá er nú langt í (vonandi) að ég verði amma. Dæturnar 13 og 15 ára.

En mér finnst finnst við hjón vera á svo svakalega fínum ömmu og afa aldri - 50 og 51 árs.

Ég fæ nú stundum að vera í ömmu leik með hann Ara minn sem er rúmlega 3ja ára. Á mándaginn kynnti ég hann fyrir þeirri nauðsynlegu bók "Gott að bora í nefið"

Hann var afar sammála boðskap bókarinnar.....

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 13.8.2008 kl. 08:43

9 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

"Gott að bora í nefið" hljómar mjög sannfærandi titill á bók fyrir 3ja ára, man eftir bók í Ameríku fyrir mörgum árum um prumpið, bók sem mátti helst ekki lesa opinberlega.

En það verður að segjast eins og er að það að vera amma er bara alveg dásamleg reynsla. Vona samt þín vegna að þú fáir ekki að upplifa það nema á ská í nokkru ár í viðbót. Í "gamla daga" var ég unga mamman í hópnum, á meðan vinkonur þvældust um heiminn í ævintýraleit, þvoði ég bleyjur, nú eru þær margar með unga unglinga og ég orðin amma sem getur flækst um heiminn.  

Kristín Dýrfjörð, 13.8.2008 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband