Origami, grill og skírn í góðu veðri

Í dag fékk ég tölvupóst frá vinkonu sem spurði sí svona hvort ég væri veik? Ég hef ekki séð þig á blogginu óralengi. Reyndar skal játast að ég er búin að vera með hálsbólgu, hita og ljótan hósta en aðalástæða fjarveru minnar frá tölvunni og blogginu eru annarvegar að tölvan mín er í viðgerð, móðurborðið fékk hægt andlát á Ítalíu og staðgengilinn er svo gamall jálkur að það passar  t.d. að ræsa hana á morgnana, fara svo á klóið, tannbursta sig og setja vatnið yfir, þegar því er lokið er kominn tími til að fara inn í tölvuna, meðan ég helli svo upp á kaffið rennur fyrsta heimasíðan upp. Þolinmæði mín við þessar aðstæður er verð ég að viðurkenna afar takmörkuð. Hin ástæðan er auðvitað veðrið og garðurinn hér fyrir utan.

Fólkið í húsinu okkar kann vel að meta að vera úti og við kunnum ágætlega við hvort annað af öllum hæðum. Í dag sátum við úti og brutum saman trönur í tugavís og hengdum í trén okkar. Nú sveima þær yfir okkur og vekja með okkur fallegar hugsanir í hvert sinn sem við berjum þær augum.  Snorri á efstu var kennari okkar hinna, fyrst til að ná árangri var auðvitað fimm ára heimasætan á annarri hæð hún Áróra sem bauðst svo til að sýna mér eða bara brjóta fyrir mig. Okkur kom saman um að ég yrði að gera sjálf því annars lærði ég þetta aldrei. Að lokum tókst það og eftir það komu þær nokkrar sem fljúga nú frjálsar í reynitrénu. 

trönur1

Fyrstu trönurnar gerðum við allar úr tilskyldum origami pappír en smám saman fóru að fæðast trönur úr ýmsum ruslpóst sem hefur borist hér inn í hús og var ekki enn kominn í bláu tunnuna okkar. Ágætis aðferð við endurnýtingu og sjálfbæra þróun.

Já og svo erum við líka búin að kaupa okkur nýtt grill hér í húsið og mikið grillæði hefur gripið okkur. Ein og ein steik hefur dottið á grillið en líka og kannski aðallega mikið magn af grænmeti. Svo hef ég bakað eitt og eitt brauð þar.    

Í gær átti svo stóra systir mín hún Elsa Þorfinna afmæli, í tilefni dagsins var nýjasta frænkan mín skírð í garðinum hjá Elsu og Inga. Litla daman er dóttur-dóttir Elsu og Inga, hún fékk nafnið Hjálmdís Elsa í höfuðið á báðum ömmum og kannski pínu mömmu sinni henni Bergdísi. Hjálmdís Elsa var auðvitað besta barnið í veislunni og undurfalleg í hvíta skírnarkjólnum sem Elsa amma prjónaði og öll hennar barnabörn hafa verið skírð í.

Jæja og um næstu helgi eigum við hinar systurnar afmæli, Gerður ætlar að halda upp á sitt afmæli án mín. Sagðist fyrst hafa verið að hugsa um að fá minn afmælisdag lánaðan en svo hafi Björk og Sigurrós skemmt það fyrir henni með tónleikahaldi. Í staðinn ætlar hún að fá daginn hjá móðurbróður vorum. Þó svo að ég verði ekki með henni í þetta sinn ætlar hún að leyfa Tjörva bróður og Nínu að fljóta með. Þau halda upp á fertugsafmælin og Gerður það fertugasta og fimmta.  þau ætla að halda stóra garðveislu og nema hvar?, í æskugarðinum í Skeifu hjá mömmu og pabba.

Þar til næst kæru vinir, bið ég að heilsa.

Ps. Ég er búin að fá afmælisgjöf frá bóndanum að eigin ósk er það rauður HÅG Capisco skrifstofustóll, honum er sérstaklega ætlað að venja mig af því að sitja í semi jógastellingu við tölvuna, getur verið að það sé gott fyrir bakið en er helst til mikið álag á hnén og æðar í kálfum.  Er eins og krakkarnir segja ógeðslega ánægð með stólinn minn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Sonur minn 14 ára fékk dellu að gera svona Origami trönur í fyrra, svo lærði hann að gera allskonar öðruvísi Origami hluti.  Hann fór á einhverja netsíðu og fann út alveg sjálfur hvernig á að gera þetta   Hann gerði allskonar fígúrur úr öllum pappír sem fannst á heimilinu.

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.6.2008 kl. 01:07

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

og sagan segir að með því sértu að styrkja andann. Þegar sonur okkar slasaðist fyrir nokkrum árum settust nokkrar vinkonur mínar saman og gerðu fleiri tugi af trönum. Þær sögðu mér að hverri þeirra fylgdi góð hugsun um styrk og bata. Þær komu svo með allar þessar trönur til okkar og þær geymum við vel. ég held að við höfum öll gagn af góðum hugsunum og þeirri væntumþykju sem þær lýsa.

Ps. og svo vona ég að sonur þinn haldi áfram að brjóta origami. Krakkar eru líka svo ótrúlega klár að finna út úr hlutum.

Kristín Dýrfjörð, 23.6.2008 kl. 01:19

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

He he hann bjó til eina  Trönu til þess að sýna systur sinni sem er í heimsókn hjá okkur, hún býr í fljótunum fyrir norðan.  Hann var snöggur að því

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.6.2008 kl. 01:36

4 identicon

Mikið er nú gott að vera á ný "í  sambandi við þig Kristin mín
Bestu kveðjur frá Portofino 

Guðrún Alda Harðardóttir (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 17:21

5 identicon

Tek undir hjá Guðrúnu Öldu - var farin að hafa verulegar áhyggjur :o)

kv, Síta

Sita (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband