Systa afmælisbarn og fyrsta gisting Sturlubarnsins

Á föstudag fékk ég það ánægjulega hlutverk að elda súpu ofan í stóra veislu, átti að elda fyrir 90 og það gerði ég í stærsta risasúpupotti stórfjölskyldunnar. Súpan var fyrir fimmtugsafmæli góðrar vinkonu minnar hennar Systu. Systa hafði annars séð um aðföng sjálf, búin að vera eins og útspýtt hundskinn að sanka að sér matvælum og dýrindis veigum. Á sjálfan veisludaginn fékk hún salinn klukkan fjögur (sem var svo heppilega í næsta nágrenni við mig) og þar mættum við tvær með henni til að skera ávexti og grænmeti, setja allskyns pylsur, skinkur og osta á bakka. Fyrir utan brauðin sem hefðu getað fætt heila sókn. Á meðan fékk súpan að malla í rólegheitum heima, hafði skorið niður í hana og byrjað að malla kvöldinu áður. Enda alþekkt að þannig verða súpur bestar. Súpuna bárum við yfir rétt í þann mund sem fyrstu gestirnir mættu á staðinn um sjö.

Afmælisveislan 

Afmælið var einstaklega skemmtilegt og vel heppnað. Byrjaði á að afmælisbarnið sjálft, hún Systa, las upp ritgerð sem hún skrifaði 13 ára. Viðfangsefnið var að kveldi fimmtugsafmælisdags hennar 2008. Strax þarna var Systa bæði feikigóður og skemmtilegur penni fyrir utan hvað hún hefur verið hugmyndarík og ótrúlega fyndin. En 14 ára sá hún nú reyndar fimmtuga konuna fyrir sér sem hálfgert gamalmenni, einmanna með kött, áskrifanda að hreinu lofti. 

Aðrir veislugestir fóru með frumsamda texta og svo var sungið og spilað undurfallega á gítar fyrir hana. Besta skemmtiatriði kvöldsins var þegar vinkonur hennar úr menntó, lásu úr gömlum bréfum sem hún hafði sent aðallega um næturlífið í Reykjavík í kringum 1980, held að frásagnir af einu og einu rósarvínsglasi hafi fylgt með. Ég og aðrir veltumst um úr hlátri. Mér skilst að einhver hafi vaknað morguninn eftir með verki í kjálkunum, brosverki.

Yndislegasta og fallegasta atriðið var þegar sonur hennar hann Guðmundur Páll sem er á 11 ári flutti ræðu um mömmu.

Að lokum spilaði hljómsveitin Hringir fyrir dansi. Hana skipa þau Magga Stína, Kormákur, Kristinn og Hörður Braga. Þau voru hreint út sagt alveg frábær og héldu upp stanslausu stuði fram á nótt. Held að sumir hafi ekki dansað svona mikið frá því að þeir gerðu það á Borginni fyrrum.

Frábær afmælisveisla sem lengi verður í minnum höfð.

 

veisluborðsysta að lesa ritgerðGuðmundur Páll að flytja ræðu

Ég hélt reyndar að síðasta vika yrði svona vika til að anda. Aðeins að slaka niður, en þannig varð hún ekki, mikið af fundum og verkefnum fyrir utan að Sturlubarnið var hjá okkur á meðan mamma fór að vinna.

Aðfaranótt laugardags fékk svo Sturlubarnið að gista fjarri foreldrum í fyrsta sinn. Verður það að teljast einn af stóru áföngunum í lífi hvers barns þegar það dvelur nótt fjarri foreldrum. Reyndar segir ég að þegar barn t.d. byrjar að sofa í leikskóla sé það ein mesta traustyfirlýsing sem það veitir. Það krefst nefnilega mikils traust að treysta öðrum fyrir sér í svefni. En fyrsta næturgistingin Sturlubarnsins gekk eins og í sögu. Hann fór að sofa eins og hann hefði aldrei gert annað en að gista hjá ömmu og afa. Vaknaði reyndar heldur snemma fyrir okkur en alveg passlega fyrir sig, klukkan 7 að morgni. Fór svo út og fékk sér góðan dúr upp úr 9. Mamma og pabbi komu svo um hádegi og náðu í piltinn. Hann varð auðvitað ósköp glaður að sjá þau. Reyndar rumskaði hann um miðja nótt og við kipptum honum upp í. Það verður að viðurkennast að maður er fljótur að gleyma hvað hreyfiþörf barna í svefni getur verið mikill. En það eins og annað rifjaðist fljótt upp.  

ukuleukule 2

ukule 3ukule 4

Að spila og syngja með er sérstakt áhugamál Sturlubarnsins, nú er afi búinn að gefa honum gamalt úkulele sem hann reynir mikið að pikka og svo syngur hann. hehaue em eða eitthvað svoleiðis. Heldur samt lagi og það er sko meira en amma gerir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Gleðilegan þjóðhátíðardag - kveðjur úr Laugarnesinu

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 17.6.2008 kl. 09:42

2 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

sömuleiðis héðan úr miðbænum.

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.6.2008 kl. 10:21

3 identicon

sömuleiðis héðan frá Feneyjum

Guðrún Alda Harðardóttir (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband