11.6.2008 | 03:01
Sturlubarnið hefur skap
Sturlubarn hefur tekið stórstígum framförum frá því að við fórum til útlanda. Hann er farinn að standa upp með öllu og ganga með, hann kann nú orðið að detta á rassinn, að krjúpa og skríða á fjórum fótum. Svo kann hann að koma sér af fjórum í sitjandi stellingu. En aðalsportið er að standa upp, aftur og aftur og aftur, svo bara hlær hann og hlær.
Sturlubarnið lét annars vita í morgun að honum sárnaði útlandaferð okkar. Það kom nefnilega á hann skeifa þegar hann hitti afa, bara eitt augnablik en nógu mikil. Túlkun ömmu á skeifunni hljómar svona "hvar hefurðu eiginlega verið, haldiðið þið að þig getið bara farið og ég svo mætt glaður til ykkar þegar ykkur þóknast". Neibb, Sturlubarnið hefur nú skap. Mamma hans hefur reyndar af því áhyggjur að með tíð og tíma komi hann til með að stjórna heiminum. Amma hefur minni áhyggjur af því. Umræðan kom upp eftir að ég lýsti fyrir þeim atviki sem ég varð vitni að í búð í útlandinu (ekki að ég hefði alveg eins getað upplifað það í Hagkaup), en þar var lítil stúlka sennilega milli tveggja og þriggja ára sem stjórnaði allri fjölskyldu sinni með skapinu. Og eins og við slíkar aðstæður gerist gjarnan þá lét fjölskyldan vel að stjórn.
Já svo er hann kominn með tvær tönnslur í neðrigóm.
Við keyptum á hann nokkrar flíkur í útlandinu, meðal annars rauða peysu, derhúfu og sólgleraugu svo nú er Sturlubarnið alveg extra elegant (sá svoleiðis orðalag í auglýsingu á Ítalíu, föt fyrir elegant menn).
Við uppgötuðum að við verðum líka að fara að framkvæma það óumflýjanlega, fjarlægja úr sumum neðrihillum hluti sem er afar áhugaverðir. Ekki alla hluti en suma.
Jæja, ég eld að mér hafi tekist að flytja fyrirlestur minn nokkuð skammlaust í dag á málþinginu. Þar hitti ég líka sænskan leiksólakennara sem er að skrifa doktorsritgerð um náttúrufræðiþekkingu ungra barna (ca 2- 3 ára), hvernig þau nálgast og undrast náttúrufræðina. Ætla að hitta hana aftur í vikunni og fá meira að heyra.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Þar sem þú last út úr skeifu Sturlubarnsins: "hvar hefurðu eiginlega verið, haldiðið þið að þig getið bara farið og ég svo mætt glaður til ykkar þegar ykkur þóknast" - þá las ég kannski að auki: Þið gleymduð að taka mig og mömmu og pabba með! En þetta var allt um það skammvinn ádrepa af drengsins hálfu og afatíminn við Austurvöll og Tjörnina (og víðar) meðan þú glímdir við fyrirlesturinn var stórfenglegur.
Að hann ætli sér að stjórna heiminum er auðvitað ýkjutal. Þannig fórum við framhjá kaffistað við Austurvöll og þar sat Hanna Birna verðandi borgarstjóri með fjölskyldu og vinum í góðviðrinu, en kolgeggjuð og (ég segi það satt) fúlskeggjuð kona að áreita hana með einhverju óskiljanlegu bulli. Þjónar reyndu að banda mótmælandanum frá og það tókst svo sem, en ég nefni þetta eingöngu til að benda á að Sturlubarnið reyndi ekki hið minnsta að hafa áhrif á pólitík Hönnu Birnu og tók alls ekki undir málflutning hinnar skeggjuðu. Við Sturlubarnið íhuguðum meira að segja augnablik að koma Hönnu Birnu til bjargar, en ekki reyndist þörf á því, þannig að við fórum bara að gefa bra-bra. Okkar pólitík þar fólst í því að reyna að dreifa brauðinu sem réttlátast. Við vorum mjög sammála um að það væri gleðiefni að hvergi sæist til vargsins að stela brauðinu (og éta ungana) og játtum fúslega á okkur pólitíska fordóma gagnvart þessum "innflytjendum" á Tjörninni sem sjávarfuglarnir gráðugu eru.
Svo út í fallega garðinn okkar, þar sem Sturlubarnið drakk 200 ml af mjólk og sofnaði hlýðinn og góður, með nýja bleyju og fuglasöng í eyrum.
Friðrik Þór Guðmundsson, 11.6.2008 kl. 10:29
Adda bloggar, 11.6.2008 kl. 11:31
Til að forðast misskilning: Þegar ég segi "sofnaði hlýðinn og góður, með nýja bleyju og fuglasöng í eyrum", þá á ég ekki við að ný bleyja hafi verið í eyrunum...
Friðrik Þór Guðmundsson, 17.6.2008 kl. 11:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.