11.5.2008 | 15:34
Er Sigurður Kári að boða kristilegu siðgæðisgreinina aftur inn?
Ég er ein þeirra sem hef fagnað boðaðri breytingu á markmiðsgrein laga um leik- og grunnskóla. Ég hef fagnað sérstaklega þeirri breytingu að fella út; að hlutverk leikskólans sé að efla kristilegt siðgæði. Ég hef sjálf talið þetta ákvæði vera á skjön við stjórnarskránna og ýmsa alþjóðlega sáttmála sem við sem þjóð erum aðilar að. Því brá mér í brún þegar ég las blogg Sigurðar Kára Kristjánssonar þingmanns áðan, þar er hann að fjalla um störf sín fyrir menntamálanefnd. (Feitletrun mín).
Menntamálanefnd þingsins haft þessi efnismiklu frumvörp til vinnslu síðan í desember og fengið á fundi sína fjölda gesta. Nefndin leggur til fjölmargar breytingar á frumvörpunum, meðal annars á markmiðsákvæðum frumvarpanna sem ollu miklum deilum þegar frumvörpin voru lögð fram, þar sem í markmiðsákvæði frumvarpsins var ekki að finna ákvæði sem mælti fyrir um að skólastarf skyldi taka mið af kristilegu siðgæði.Breytingatillögur okkar verða lagðar fram á Alþingi í vikunni.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:36 | Facebook
Athugasemdir
Þetta stríðir gegn almennri skynsemi og jafnrétti. Búið er að ræða þetta mál í þaula og geta allir skynsamir menn séð að tillögur menntamálaráðherra eru þær einu réttu í málinu. Ótrúlegt er að meðan unnið er hörðum höndum að því að einkavæða heilbrigðiskerfið er ríkisvæðing trúarinnar hert og treyst í sessi. Pöplinum er víst ekki treystandi til að taka eigin ákvarðanir í öllum efnum, eða hvað?
Hið sorglega er þó að trúaðir telja að málstaður þeirra þurfi þessa meðgjöf sem trúboð í leik- og grunnskólum er. Að það þurfi að sjanghæja ungum börnum og unglingum í skólum og munstra þau á Ríkiskirkjuskútuna!
Það er afar sorglegt.
Óli Jón, 11.5.2008 kl. 18:13
Samtök kennara fögnuðu sérlega þessari orðalagsbreytingu svo ég á erfitt að trúa þessu. Sigurður Kári boðaði líka innleiðingu háskólagjalda. Það gekk ekki eftir. En frumvörpin um skólastigin eru að koma úr nefnd á mánudag.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 19:50
Já, en ég átti síst von á þessu, ég vona að þingmaðurinn hafi bara verið að stríða. Hversu ósmekklegt sem það nú annars er. Ég sendi honum líka fyrirspurn inn á blogginu hans. Kveðja,
Kristín Dýrfjörð, 11.5.2008 kl. 20:03
Hvernig er hægt að vera á móti því að börn fái fræðslu um kristilegt siðgæði.
Þórdís Bára Hannesdóttir, 11.5.2008 kl. 20:38
Er einhver á móti því? Bendi þér á að lesa erindi mitt hér að neðan um trú og leikskóla.
Kristín Dýrfjörð, 11.5.2008 kl. 21:08
Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast. Ég vil ekki trúa því.
Ef þetta gerist sé ég ekki annað í stöðunni en að menntamálaráðherra víki. Hún getur ekki lagt fram lagafrumvarp sem hún hefur áður ítrekað sagt að stangist á við alþjóðalög og mannréttindasáttmála.
Matthías Ásgeirsson, 11.5.2008 kl. 21:15
Ef þetta er satt fagna ég því mjög og vísa til bloggs míns um þetta
í dag!
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 11.5.2008 kl. 21:27
Hvað okkur hjónakornin varðar bið ég Guðmund og aðra að falla ekki fyrir þeirri freistni að ræða málið út frá einhverri andstöðu við kristna trú, því það er alls ekki málið. Menntamálaráðherra hefur útskýrt ágætlega út á hvað málið gengur - og það er ekki dómur um gæði eða gildi tiltekinnar trúar, heldur rökræn niðurstaða út frá almennum skilningi á mannréttindum, jafnrétti, bræðralagi, umburðarlyndi og mörgu öðru slíku - sem ekki hvað síst rímar við, já einmitt, t.d. kristilegt siðgæði. Það liggur krystaltært fyrir að lögin fela alls ekki í sér breytingu á kennslu um trúarbrögð og síst þannig að hlutur kristninnar í kennslunni minnki, eða áherslan á þá trú gagnvart öðrum trúarbrögðum á Íslandi. Og núorðið ber flestum saman um að trúarbragðafræði og kristnifræði eigi í skólunum að vera einmitt fræði en ekki trúboð. Menntamálaráðherrann, sú kaþólska, hefur gert ágæta grein fyrir málinu og ef frumvörpunum verður hvað þessa lagaklásúlu varðar á að breyta í fyrra horf, þá verða orð ráðherrans gerð ómerk. Hins vegar er enn óljóst hvaða breytingar Sigurður Kári er nákvæmlega að boða.
Friðrik Þór Guðmundsson, 11.5.2008 kl. 23:16
Einkennileg þessi árátta að eigna kristinni trú þessi gildi sem allir ættu að geta sameinast um að skólastarf eigi að byggjast á.
Er virkilega til fólk sem trúir því að ekki sé hægt að miðla umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju og virðingu fyrir manngildi án þess að kenna það við trúrarbrögð?
Mér finnst það viðhorf umhugsunarvert.
Kristjana Bjarnadóttir, 12.5.2008 kl. 09:37
Taki mið af kristilegu siðgæði ... hvernig er hægt að skilja þetta sem svo að markmiði sé að efla eða boða kristna trú? Mér líst illa á að fella þessa grein út úr lögunum ef það er gert vegna einhvers trúleysis-fasisma. Því þeir sem slíkt ástunda láta ekki hér við staðar numið, eins og dæmin sanna úr sögu og samtíð.
Guðni Ólafsson (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 10:00
NÝJASTA NÝTT. Þótt Sigurður Kári sé ekki búinn að svara lykilspurningum á bloggi sínu um þetta mál þá hef ég fengið lýsingar annars nefndarmanns úr menntamálanefnd.
það er ekki verið að setja inn í frumvörpin (markmiðsgreinar skólalaga) aftur ákvæðið um kristilegt siðgæði. Vegna gráturs og gnístran tanna sumra varð til "lending" sem felst í því að setja inn í markmiðsgreinarnar setningu um hina kristnu arfleifð, en annars er siðgæðið miðað við fyrrtalda upptalningu; umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi.
Hið óskilgreinda hugtak er því ekki á leið inn, en hins vegar áréttuð áherslan á Íslandi á hina kristnu arfleifð. Þarna er heilmikill munur á í mínum huga, því eins og ég hef fyrr sagt þá hlýtur trúarbragðakennsla á Íslandi að leggja hvað mestu áhersluna á einmitt hina kristnu menningararfleifð - annað er óhjákvæmilegt. Og auðvitað erum við að tala um fræðslu en ekki trúboð.
Hafi ég skilið lýsingarnar rétt er því engin grundvallarbreyting að eiga sér stað á þeim breytingum sem menntamálaráðherra boðaði, aðeins fyrst og fremst verið að rétta ákveðnum öflum dúsu. Sjáum það betur þegar breytingatillögur menntamálanefndar verða lagðar fram.
Þetta kann hins vegar að vera of mikil eftirgjöf fyrir fólk sem er róttækara gagnvart trúarbrögðum en ég, þ.e. þeirra sem vilja alls enga tilvísun til ákveðinna trúarbragða, þótt nú sé talað um arfleifð en ekki siðgæði. Ég geri þónokkurn greinarmun þarna á milli en það gera kannski ekki Matti og félagar í Vantrú eða t.d. talsmenn annarra skipulagðra trúarbragða en kristninnar. Munurinn liggur kannski í því hvort fólk er á móti trúarbrögðum eða ekki. Ég er ekki á móti trúarbrögðum heldur fyrst og fremst á móti forréttindum tiltekinna trúarbragða - er gegn mismunun milli trúarbragða.
Óljós bloggfærsla Sigurðar Kára verður að teljast klaufaleg í ljósi þessa, því það er erfitt að skilja hana nema á einn veg.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 11:48
Ótrúlegt ! Það er svo löngu orðið ljóst að hverskyns samtvinnun trúarbragða og stjórnmála, er ekki bara slæm, heldur stórhættuleg blanda tveggja þátta sem BJÓÐA UPP Á spillingu, stórmennskuóra og fasíska hugsun. Engin þjóð hefur, til lengri tíma, höndlað það. Er öll helv..... mannkynsagan ekki nógu yfirgripsmikil heimild um afleiðingarnar? Það er nauðsynlegt í ljósi fjölþjóðasamfélagsins að aðskilja þetta að fullu og öllu. Öll trúfélög eiga að hafa sama rétt; TIL AÐ SJ'A UM SIG SJÁLF.
Haraldur Davíðsson, 12.5.2008 kl. 15:06
Ég verð að segja að mér þykir miður hvað það hefur farið mikið púður í að ræða þessa einu setningu í nýju grunnskólalögunum eða öllu heldur brottfall hennar. Lögin eru mjög umfangsmikil og þar eru mörg atriði sem hefði verið miklu nær að ræða.
Þóra Guðmundsdóttir, 12.5.2008 kl. 15:36
Segir Þóra en bendir á engin dæmi. Ábendingin er fín, en líklega er í þessu máli eins og með flest önnur; mest er rætt um það sem umdeildast er. Ég er viss um að skólafrumvörpin séu að öðru leyti sneisafull af framfaramálum og áreiðanlega mikið rædd þar sem áhuginn er mestur, svo sem meðal kennara.
Friðrik Þór Guðmundsson, 12.5.2008 kl. 15:55
Eitt sem er áberandi í frumvörpunum er að hvergi er kveðið á um ábyrgð kennara, það finnst mér sérstakt og full ástæða til að rýna í
Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 16:45
Sæl Þóra hér fyrir neðan eru slóðir á skrif mín um ýmislegt sem tengist nýju frumvörpunum, sérstaklega um leikskóla. Ég frábið mér athugasemdir eins og þær sem þú ert með um meint skoðanaleysi mitt á öðrum þáttum laganna.
Þessi færsla mín í tilefni færslu Sigurðar Kára er að gefnu tilefni. (Vel að merkja það er Sigurður Kári sem setur málið á dagskrá en ekki ég).
Það er fullt tilefni til umræðu og vangaveltan að fjalla um hvað formaður menntamálanefndar Alþingis er að skrifa og hvað hann meinar.
http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/460579/
http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/445480/
http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/434058/
http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/431827/
Kristín Dýrfjörð, 12.5.2008 kl. 16:46
Kristín, ég er alveg sammála þér í þessu, sé að það kemur ekki fram í athugasemd minni en þannig er það. Mér finnst líka að sú upptalning á þeim gildum sem koma í staðinn fyrir "kristilegt siðgæði" vera miklu betri.
Þóra Guðmundsdóttir, 12.5.2008 kl. 20:43
Kristín, ég átti við að ég man ekki eftir miklum umræðum í sjónvarpi eða útvarpi um annað í þessum lögum en "kristilegt siðgæði". Það voru einmitt skrif þín um skólamál sem urðu til þess að ég fór að fylgjast með blogginu þínu og oftast er ég sammála þér.
Friðrik, ég er ekki með þetta allt í kollinum en ég man þegar ég renndi yfir frumvarpið þá rak ég augun í ýmislegt eins og til dæmis að fella niður skólaskyldu en setja fræðsluskyldu í staðinn. Ég hef miklar efasemdir um það.
Þóra Guðmundsdóttir, 12.5.2008 kl. 20:54
ok. tekið gilt og ég skal fúslega viðurkenna að mér stendur leikskólafrumvarpið nær og ég hef stúderað það en rétt rennt yfir hitt. Segir kannski eitthvað um mig líka.
Kristín Dýrfjörð, 12.5.2008 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.