Einkarekstur leikskóla

Í ljósi vaxandi einkareksturs í leikskólum hérlendis er ekki úr vegi að skoða hvernig þróunin hefur verið annarstaðar. Peter Moss er enskur fræðimaður sem mikið hefur um þessi mál skrifað og er oft kallaður til af alþjóðasamtökum til að fjalla um leikskóla meðal annars OECD. Í nýlegri grein eftir hann vöktu eftirfarandi upplýsingar athygli mína.

Í mörgum enskumælandi löndum hafa áherslur samfélagsins á leikskóla verið í að láta markaðinum hann eftir. Afleiðingin er leikskólauppbygging í sumum þessara landa er í auknum mæli markaðsvædd. Sem dæmi fjölguðu einkaleikskólum sem reknir eru í hagnaðarskini um 400 % í Ástralíu frá 1991 til 2001 á meðan fjölgun hinna var um 55%. Í dag eru um 70% barna þar í landi í leikskólum sem eru reknir í hagnaðarskini. Í áströlsku kauphöllinni eru nú 4 fyrirtæki sem sérhæfa sig í leikskólarekstri, það stærsta alþjóðlegt fyrirtæki sem á yfir 2300 leikskóla í ýmsum enskumælandi löndum.

Sama sagan er að endurtaka sig í Bretlandi þar sem leikskólarekstur er sá rekstur sem er í sem mest vexti af greinum í þjónustu. Sem dæmi þá voru leikskólar í einkarekstri árið 1997 1,5 milljarða punda virðr en voru 2006 orðnir 3,5 milljarða punda virði. Bæði Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn hafa stutt við og ýtt undir þessa þróun. Í Hollandi er þróunin svipuð, þar sem fjármunum er nú beint til foreldra en ekki til leikskólanna. „gæsla“ er einkamál foreldra og vinnustaða, en í Hollandi er gert ráð fyrir að atvinnurekendur greiði 1/3 af kostnaði við „gæslu“. Raunin er að 75% atvinnurekanda gera það að einhverju marki.   

Moss fjallar um markaðsvædda leikskóla sem hluta af því sem kallað hefur verið Quasi market eða markaðsígildi. Þar sem markaðinum eru sett ákveðin takmörk og stjórnað af hinu opinbera. Hann veltir líka fyrir sér gæðum menntunar í hagnaðarreknum leikskólum og hinum. Moss bendir á að rannsóknir segi að hagnaðarleikskólar séu líklegri til að vera verri, gæði menntunar, minni. Sé þetta vegna þess að þar er reynt að spara á öllum sviðum, bæði varðandi gögn/efnivið og mannskap. Starfsfólk með tilskilda menntun er líklegra til að vera færra í hagnaðarleikskólum en hinum.

Að lokum þá er vert að benda á að ég er ekki að halda því fram að rekstur einkaaðila eða samtaka sé af hinu illa og að slíkur rekstur sé endilega verri en sá sem samfélagið sér um. En það er þess vert að vara við þeirri þróun sem hefur verið í Bretlandi, Hollandi og í Ástralíu. Þar sem leikskólarekstur er í mörgum tilvikum fyrst og fremst markaðstækifæri og drifinn áfram af hagnaðarvon. Að fyrirtæki í leikskólarekstri sæki inn í kauphallir ætti að segja nokkuð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér á landi eru ekki margir "einkareknir" leikskólar eða skólar. Það form sem er algengast er samningsskólar en þeir eru eins og heitið gefur tilkynna skólar sem eru reknir með samning við viðkomandi sveitarfélag. Í flestum samningum er ákveðið dvalargildi xxxx kr (sem miðar út frá bæjarreknum skólum) þessi upphæð er miðuð við að 50% starfsfólks sé faglært ef faglærðir minnka eða hækka um 5% lækkar eða hækkar upphæðin í samræmi við það. Þannig að það má í raun segja að það sé frekar verið að hvetja til að bæta við sig fagaðilum fremur en hitt Vona bara að sveitarfélög sjái sér ekki hag í 2/3 reglunni og setji þak á 5% hækkunina!

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 11:41

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Flott að fá þessar upplýsingar. Og gott að sjá að sveitarfélögin hafa metnað til þess að tryggja fagfólk í þessum skólum. Varnaðarorðin gagnvart hagnaðardrifnum skólum standa hins vegar enn.

Ég skil vel fólk sem vill út úr kerfum - og styð það  en auðvitað með þeim formerkjum að gæðin gangi fyrir.

ps. Ætla kannski ef ég hef tíma að segja meira frá þessari skemmtilegu grein hans Moss 

Kristín Dýrfjörð, 8.5.2008 kl. 11:49

3 identicon

Takk f. góðan pistil sem bætist í safnið.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband