6.5.2008 | 01:07
Sprungin blaðra
Ég er eins og sprungin blaðra. Held að margir kennarar séu í sömu sporum á þessum árstíma, kapphlaup við tímann um að klára að fara yfir, semja próf, skrifa fyrirlestra, greinar og svo er ég að fara að kenna á sumarönn. Kennsluáætlun og hvað eina framundan.
Annars átti sér stað skemmtilegt atvik hér í gærmorgun. Lilló opnaði útidyrahurðina og finnur eitt par af kvenmannsskóm fyrir utan. Hann kallar hvort ég hafi gleymt skónum mínum utandyra. Neibb kannaðist ekki við það. Þetta eru svartir tátiljuskór.
Við ákváðum að leyfa skónum að vera á pallinum allavega í bili. Nú búum við til sögur um skóna fyrir gesti og gangandi. Aðallega um að þetta sé friðþægingargjöf frá innbrotsþjófnum okkar. Lilló hitti hann annars í bænum og skammaði hann svolítið. Hann lofaði bót og betrun, sagðist ekki hafa áttað sig á að þetta var hurðin okkar. Ég held að Lilló trúi honum mátulega. Vinurinn hafði annars komist í álnir og veitti öðrum félögum sínum á bekknum í Austurstræti vel úr forláta viskíflösku. Þar ríkir samkennd.
Sturlubarnið fékk að vera hjá mér á meðan mamman skrapp í dag, hann er á mikilli ferð og festir sig þessa daga undir öllum stólum. Við fórum út að leita að kisu, en ég held að Snati láti bara sjá sig þegar afi er með Sturlubarnið úti. Enda Snati eins og Sturlubarnið hrifið af afa.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:12 | Facebook
Athugasemdir
Ekki vantar neitt upp á sambandið við Sturlubarnið hjá afatetrinu. Hvað Snatabarnið varðar er held ég réttara að tala um hægfara virðingu og umburðarlyndi af hálfu læðunnar sérlunduðu. Feikilega merkileg kisa þar á ferð. Vona að Sturlubarnið eigi eftir að kynnast Snatabarninu þannig að festist í minni.
Friðrik Þór Guðmundsson, 6.5.2008 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.