3.5.2008 | 22:23
Smákrimminn á loftinu
Í miðbænum býr alla vega fólk, sennilega mesta þversnið samfélagsins sem hægt er að finna á einum bletti. Hér búa námsmenn, ung hjón, barnafólk, börn, roskið fólk og aldrað, hér býr miðaldrafólk, hér býr ríkt fólk og hér býr fátækt fólk, samkynhneigt og gagnkynhneigt fólk, hér búa hvítflippaþjófar og hinir sem reyna stundum að koma óbeðnir í heimsókn. Í húsinu mínu má meira að segja finna fulltrúa margra þessara hópa bæði fyrr og nú
Einu sinnu fyrir löngu, löngu átt hér heima þekkur smákrimmi. Til hans komu í heimsókn aðrir þekktir smákrimmar. Ég man eftir einum smákrimmanum sem skúraði stigann í sameigninni nokkrum sinnum á dag. Fólkið sem notaði stigann segir að hann hafi aldrei verið jafn hreinn, þessi vinur var auðfúsa-gestur.
Einn veturinn hékk forláta gólfteppi vikum saman úti á snúru. Ég hélt að konan á hæðinni fyrir ofan okkur ætti það, hún hélt að við ættum það. Svo bara hvarf teppið einn daginn og reyndar líka flaggstöng sem legið hafði upp við húsvegg í einhvern tíma. ég sé að þú hefur tekið inn teppið segi ég, Ha segir hún, áttir þú það ekki? Í því sveif að hinn hreinláti þjófur og tísti í honum. Nei ég átti það segir hann og svo notaði ég tækifærið og geirfinnaði stöngina. Hvað er það, spurðum við undrandi, jú þegar hlutir hverfa og sjást aldrei aftur. Við sáum teppið og stöngina aldrei aftur.
Stundum fór smákrimminn á loftinu á Hraunið, alltaf sagði hann okkur af því. En sambýliskona hans átti erfiðara með það, hann er á sjónum sagði hún.
Smákrimminn var barngóður og átti það til að gefa drengjunum mínum allskyns hluti. Held að toppurinn hafi verið slatti af hárkollum. Ég var að taka til í geymslunni sagði hann.
Smákrimminn okkar var í smá sölustarfi. Seldi betri borgurum bæjarins hass. Það stoppuðu fínir og dýrir bílar hér fyrir utan húsið og eigendurnir skutust laumulega upp, litu flóttalega til hliðar. Niður aftur eftir 3 mínútur. Brunað að stað. Á þessum árum var aldrei brotist inn til okkar. Við gátum skilið eftir ólæst alla daga. Einhver sagði tófan bítur víst ekki nálægt greninu.
Góðkunningi löggunnar sem hefur verið gera sér heimatítt hér var líka fastagestur á loftinu. Þess vegna held ég að lappirnar beri hann að húsinu okkar. Hér átti hann einu sinni skjól.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Yndislegur pistill í morgunsárið á sunnudegi - takk fyrir!
Edda Agnarsdóttir, 4.5.2008 kl. 07:25
Já hugljúf frásögn.
Mér finnst að boðskapurinn sé sá að þrátt fyrir allt er hið góða innra með öllum.
Eigið þið góðan dag.
Jón Halldór Guðmundsson, 4.5.2008 kl. 12:43
Snilldar lesning.Sammála Jóni nema hvað ég trúi því að flestir séu með gott hjartalag en þekki og veit að til er fólk með ljótt ob vont hjarta.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 13:01
Ég held, Kristín mín, að þessi samsetning samfélags sem þú lýsir geti a.m.k. ennþá átt við flest hverfi bæjarins, sem betur fer, þó misskiptingin og stéttaskiptingin sé því miður meira áberandi nú um stundir en undanfarin ár. Alla þessa samfélagshópa má finna hérna í Árbænum ,,mínum", þó langar mig að bæta við einum hóp sem hér er nokkuð fjölmennur, útlendum verkamönnum af báðum kynjum.
Kristbjörg Clausen (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 16:06
Það verður að bæta við söguna að sá sem skúraði sem óðast og kenndi okkur sögnina að "geirfinna" reiddist einu sinni við nágranna af heldra taginu og sagði við hann orðrétt: " það ætti sko að drepa þig, skera svo af þér hausinn og senda þig svo á togara svo þú lærir að vinna". Það var endalaust hægt að læra eitthvað skemmtlegt af góðum nágranna á loftinu og gestum hans.
Konan sem bjó þá á miðhæðinni.
Hjördís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 23:24
Sæl Kibba, (fannst svo ókunnuglegt að segja Kristbjörg, ég vona að mér fyrirgefist) þetta er auðvitað alveg rétt hjá þér, en í sumum hverfum búa fleiri úr einum hóp en öðrum, svo var alla vega í því hverfi sem ég ólst upp í.
Hjördís, takk fyrir innlitið, ég held reyndar við höfum talið okkur geta lært meira af grannanum en sumum öðrum nágrönnum. En svo finnst mér sagan af leitinni að "horfnu kápunni", alltaf skrambi góð.
og Birna, einu sinni fengum við líka krimma í húsið sem okkur var minna sama um. Kannski ég skrifi sögu af þeim þokkapilti einhver tíma. Sumarið sem hann bjó hér fór ég ekki í garðinn minn.
Kristín Dýrfjörð, 5.5.2008 kl. 01:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.