21.4.2008 | 18:10
Sturlubarnið rannsakar dýraríkið
Á laugardag kom Sturlubarnið í þessu líka fallega vorveðri í foreldralausa heimsókn. Afinn og amman ákváðu að nota tækifærið og mennta Sturlubarnið aðeins í dýrafræði. Fyrst var farið út í garð og kisan Snati heimsótt. Snati er nú reyndar þeirrar náttúru að vilja ekkert mikið kjass, vill frekar fá að klifra upp í svo sem eins og eina grein á stóra reyninum. En Snata er vel við afa svo hann fékk hana augnablik til sín og hann og Sturlubarnið gátu saman dáðst að Snata (sem er þrílit læða). Það er líka viðeigandi að Sturlubarnið kynnist Snata, Sturla stóri frændi hans sem hann heitir í höfuðið á átti nefnilega Snata fyrst og gaf honum nafn. þegar Snati var búinn að fá nóg af athyglinni þá rúlluðu afi og Sturlubarn stórum fótbolta ögn á milli sín á pallinum.
Í garðinum görguðu mávar himins yfir afa og Sturlubarni. Til að skoða þessi merkilegu dýr og vængjaða ættingja þeirra í návígi ákváðu amman og afinn að skjótast niður á tjörn með Sturlubarn til frekari rannsókna á dýraríkinu. Tjörnin var eins og vænsti drullupollur, brauðið flaut eins og kúkur í rotþró á vatninu, (alveg satt, ég er ekki að ýkja). Fuglarnir sýndi okkur mannfólkinu engan sérstakan áhuga, syntu fjarri öllum bökkum. Sturlubarnið fékk því ekki að sjá önd eða álft í nærvígi, það verður að bíða betri tíma. Hann horfði reyndar hissa á þessi dýr í fjarlægð en ég held að hann hafi meira langað til að steypa sér út í drullupyttinn, enda sennilega líkari sundlaug í augum Sturlubarnsins en rotþró. Hann á nefnilega eftir að læra um þær en sundlaugar þekkir hann.
Amman og afinn eiga vini í miðbænum og vinir þeirra eiga hund. Þar sem menntun barnsins um fánu landsins hafði ekki tekist nógu vel við tjörnina, ákváðu amma og afi að skreppa í heimsókn til vina sinna. Hundurinn fyrrnefndi er tík sem heitir Birta. Birta er fyrir löngu búin að átta sig á að láta ömmu í friði, henni er ekkert of vel við fleður. En afi og Birta eru sérstakir vinir, afi settist því á gólfið með Sturlubarnið og kallaði Birtu til sín. Hún var nú svolítið forvitin um þennan litla mann, hnusaði af honum og Sturlubarnið hló og hló og skellihló. Svo hljóp Birta og Sturlubarnið leit hissa í kringum sig. Hvar er hún? Svo koma hún og skransaði fyrir framan Sturlubarn og hann hló. Amman tók allt vel og vandlega upp á myndband. Þannig að þegar Sturlubarnið seinna þarf að gera grein fyrir fyrstu rannsóknum sínum í dýrafræði á hann um það skráða heimild.
Núna er litla Sturlubarnið lasið, búinn að vera með sama kvef og amma síðan á sunnudag. Amma leit áðan á hann og hann brosti sínu blíðasta og hjalaði. Amma vonar að hann verði fljótur að ná þessu úr sér.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 22.4.2008 kl. 12:56 | Facebook
Athugasemdir
Gaman að þessari lýsingu.... og væntumþykjunni sem hún sýnir:)
Linda Samsonar Gísladóttir, 21.4.2008 kl. 22:23
Ég, afi, vildi leyfa Sturlubarninu að grafa í moldina og skoða orma, en amma bannaði það. O jæja. Í sumar ætla ég að sýna drengnum fiska. Sem eru með orma í maganum. Ég verð að láta mér það lynda...
Friðrik Þór Guðmundsson, 22.4.2008 kl. 00:17
Takk bæði Linda og Þórdís, efa ekki að það hefur verið gaman hjá rannUngum í dag.
Lilló, verða það ormar af þínum öngli - hehehhe?
Kristín Dýrfjörð, 22.4.2008 kl. 00:26
Mikið er gaman að lesa bloggið þitt Kristín.
Yndislegur drengur sá stutti...
Bið að heilsa hér frá Danmörku Dóra mamma Rúnars
Halldóra Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 11:29
Mikið lifandis skelfing gleðst ég með ykkur ,
ást og kærleik er hægt að lesa úr hverju orði sem þú skrifar
!Þið eigið þetta svo sannarlega skilið,
svo er Sturla( Sturlubarn) svo bráð laglegur.
Kveðja Svanfríður
PS: Kristín, það sem ég skrifa:Að vera utanbæjarmaður er um Siglufj. Og að verða 100 ára er saga úr Fljótunum.Kv SG
Svanfríður G. Gísladóttir (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.