Vorverkin - ég er farin að hlakka til þeirra

Nú fer sá tími í hönd sem krefst nærveru í garðinum. Þegar vorlaukar fara að skjóta upp kollinum og blómstra. Hjá okkur hafa það löngum verið krókusar og vetrargosar sem fyrstir blómgast, núna eru það litlir hvítir dropar (laukar sem ég setti niður í haust og man ekki hvað heita). Ósköp fíngerðir og fallegir í óhrjálegum beðum. Ég setti niður vel á annað hundrað lauka í haust, aðalspennan nú er hvað kemur upp af þeim.

Við kláruðum aldrei að helluleggja gamla hesthúsið sem við grófum óvart niður á í garðinum í fyrra, það er eitt þeirra verka sem nú bíða og já að kaupa nýtt grill. Ákváðum að “dömpa” því gamla enda orðið 13 ára og búið að gera sitt gagn. Orðið illa farið af ryði og síðustu ár hefur aðeins einn brennari verið í lagi.      

 

Ég hef líka verið að hugsa um hvort ekki sé ágætis hugmynd að hengja kassa á garðveginn og setja í  jarðarberjaplöntur. Sé fyrir mér góða uppskeru um mitt sumar. Rjómi og jarðarber, þetta var uppáhaldið hans Sturlu á sumardögum. Mamma er með mikla jarðarberjabreiður í garðinum hjá sér og þar eru gefin út átleyfi þegar líða fer á sumar, fram að því stelast flest börnin undir hvíta jarðvegsdúkinn og næla sér í nokkur. Ég held að krökkunum finnist þau sætari þannig **). Flest börn í fjölskyldunni tengja held ég jarðarber góðum minningum um heita sumardaga í garðinum í Skeifu hjá ömmu og afa. Berin eru líka mun vinsælli en grænkálið sem þar vex líka (ásamt öllu hinu sem mamma ræktar).      

 

Svo fórum við í kirkjugarðinn um páskahelgina ætluðum að hreinsa af leiðinu hans Sturlu (og afanna hans), en þá höfðu duglegir starfsmenn kirkjugarða verið á undan okkur. Öll beðin í reitnum voru snyrtileg og fín. Við erum líka loks búin að kaupa stein, verðum samt að bíða fram á vor eftir honum. Verður grágrýtisdrangi lagður á hlið yfir öll leiðin.  

 

af pallinum  

Og já ég legg hér með fram formlega kvörtun yfir snjónum hér fyrir utan. Hann var indæll, en nú er komið nóg. (Svo sá ég eitthvað um það á 60 mínútum áðan hvað það er óhollt að sofa ekki svo ég er hugsa um að koma mér í bælið).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ummmmmm - maður kemst í vorskap - Góða ferð til Stokkhólms

Síta (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 23:05

2 identicon

Já jarðaberin í garðinnum hennar ömmu eru best ;)

Byð að heylsa í kotið.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 11:05

3 identicon

Þegar genunum var raðað saman í undirritaða gleymdust grænu fingurnir - gjörsamlega - þess vegna er sumt hér dálítil hebreska fyrir mér - EN - gangi þér vel við vorverkin í garðinum

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband