Pólitísk "skemmdarverk" Þorbjargar Helgu

Skemmdarverk, er það hugtak sem upp í hugann kom þegar ég las fundargerð leikskólaráðs Reykjavíkur. Ég vonaði sannarlega að nýr meirihluti stigi í fyrstu, allavega, varlega til jarðar. En hvað er það sem truflar mig svona? Jú það er samþykkt síðasta fundar um að byrja á að færa 5 ára börnin inn í grunnskólann næsta haust. Sem þróunarverkefni í hverju hverfi um sig til að byrja með en ...   

Fyrir tæpum 40 árum var eins farið að með það sem þá nefndist forskóli, eða 6 ára bekkir. Í upphafi voru leik- og grunnskólakennarar jafnhæfir til starfsins en smá saman viku leikskólakennarar og þegar 6 ára bekkurinn var gerður skólaskyldur duttu þeir út. Áherslan sem átti að vera á leikinn, vék fyrir stafakennslu. Fyrir þá sem það ekki vita langar mig líka að benda á að þó svo að formleg innlögn stafa fari e.t.v. ekki fram í leikskólum fer þar fram gríðarlega mikið lestrarnám. Þar er boðið upp á bæði markviss og meðvituð námstækifæri. Nú á eins að fara með 5 ára börnin og allt er þetta gert í nafni samkeppni sem og hræðslu. Vegna þess misskilnings að við séum að fara illa með tíma barna þegar áherslan er á skapandi starf og leik. Þess misskilnings að forritun, ítroðsla og blindur agi leiði til aukinnar samkeppnishæfni þjóðfélagsins og betri vinnudýra fyrir fyrirtækin. En til að agi verði til gagns verður hann að beinast að áhuga barnsins, sköpun þess. Ef við ætlum að tryggja samfélag velfarnaðar og réttlætis verðum við að byggja menntun barna okkar á sköpun, gagnrýninni hugsun og lýðræði. Ef ætlun okkar er betra samfélag þá verðum við að beina aganum að verkunum, að áhuganum.

Ég vil líka benda á að það eru örfá ár frá því að hin Norðurlöndin tóku það skref að gera 6 ára bekkinn skólaskyldan, þá eftir margra ára þróunarstarf sem hagsmunaaðilar tóku þátt í (raunar hafa Finnar sem gjarnan koma best út úr könnunum ekki enn gert það að fullu). Það módel sem virðist vera horft til hér er frá Bandaríkjunum og Bretlandi og jafnvel Frakklandi. Þessi lönd eru heldur ekki sérstaklega ofarlega á lista OCED þegar horft er til fyrirmyndstarfsemi í leikskólum. Um daginn hlustaði ég á Barak Obama þar sem hann lagði áherslu á að styrkja leikskólastigið, leggja áherslu á skapandi starf og að skólar hætti að kenna fyrir prófin. Þegar ég er erlendis (t.d. í Bretlandi) verð ég líka iðulega vör við að horft er til Norðurlanda þegar verið er að skoða yngsta skólastigið.    

Því miður hugnast mér ekki fyrstu skref Þorbjargar Helgu og félaga í nýju leikskólaráði og ég veit að ég er ekki ein um þá skoðun. Sennilega er leikskólakennarastéttin að miklum hluta mótfallin þessum hugmyndum. Ég hefði talið gott fyrir fólk sem er pólitískt með allt niður um sig að fara sér hægt. En kannski eru þau svo hrædd um að núverandi valdatími þeirra verði svo stuttur að allt sé á sig leggjandi til tryggja framgang hugmynda frjálshyggjunnar og grafa í leiðinni undan samfélagssinnuðu skólakerfi. Að á endanum sé það tilgangurinn sem helgar meðalið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er hjartanlega sammála þér.  5 ára börn hafa ekkert inn í grunnskóla að gera.  Það er mikið starf unnið innan leikskólana fyrir 5 ára börn, kennsla gegnum leik.  Ég á sjálf einn 6 ára og það reynist honum erfitt að sitja svona mikið kyrr er samt ósköp eðlilegur strákur.

Ég held að þessi breyting mundi koma enn verr niður á strákunum heldur en stelpunum.

Tinn Skúladóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 10:18

2 Smámynd: lipurtá

Þessi Þorbjörg Helga virðist vera með þráhyggju í þessu máli. Á manneskjan sjálf börn? Það hljómar allavega eins og hún viti ekki um hvað hún er að tala og sé ekki að hugsa um haga barnanna sem hlýtur að vera aðal atriðið.

lipurtá, 17.2.2008 kl. 11:21

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já hún á börn og ég tel að það hafi ekkert með hennar skoðanir í málinu að gera, komi málinu ekki við.

Ég held að þarna sé einhverskonar pólitískur rétttrúnaður og metnaður sem ráði för. Metnaður sem byggir á því að setja mark sitt á kerfi sem hún vildi umfram allt aðskilja formlega og stjórnsýslulega frá gunnskólanum (menntasviði) á sínum tíma.

Kristín Dýrfjörð, 17.2.2008 kl. 11:29

4 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Vanhugsuð aðgerð og „skemmdarverk“ einsog þú segir. Bendi hér á stórgóðan fyrirlestur, er tengist þessu efni. Sir Ken Robinson á ted.com

Ásgeir Kristinn Lárusson, 17.2.2008 kl. 11:37

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það, skapandi hugsun, virðist vera að læða sér upp á yfirborðið út í hinum stóra heimi, það væri óskandi að sama gerðist hér.

Kristín Dýrfjörð, 17.2.2008 kl. 11:39

6 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Sæl Kristín,

bara til að halda því til haga þá kaus allur minnihlutinn á móti þessari tillögu Sjálfstæðisflokksins í Leikskólaráði. En takk fyrir góða færslu.  

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 17.2.2008 kl. 13:30

7 identicon

Ég las umrædda fundargerð leikskólaráðs frá 13.febrúar síðastliðnum, mér varð einmitt hugsað til þess sama og þú Kristín, þegar skapa átti sveigjanleika milli skólastiga og leyfa sex ára börnun að hafa val um að byrja í grunnskóla, sem breyttist svo fljótlega í skyldu. Leikurinn vék fljótlega fyrir kennslu og fræðslu og að sitja við borð og læra, eins og nám geti ekki farið fram annarsstaðar en við borð innan fjögurra veggja grunnskóla.

Hér er bein tilvitnun í fundargerð þar sem minnihlutinn bendir á hvers vegna þetta er ekki að stíga skrefið fram heldur aftur:

„Á Íslandi og í Evrópu hefur átt sér stað mikil umræða meðal fræðimanna sem í yfirgnæfandi meirihluta vara við því að hefðbundið bóknám færist neðar. Með samþykkt þessarar tillögu væri þó verið að stíga skref í þá átt“.

Mín skoðun er að þessi gjörningur sé fljótræðislegur og virðist illa ígrundaður. Ég ætla nú að ganga svo langt og segja að þetta sé móðgun við það góða leikskólastarf sem víðast hvar er unnið.

Ég legg til að fulltrúar meiri hlutans kynni sér það uppeldis- og kennslustarf sem á sér stað í leikskólum og láti af slíkri óráðsíu sem nú stefnir í.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á leikskólastarfi benda allar til þess að þar sem unnið er út frá barnhverfri hugmyndafræði með leikinn sem aðalnámsleiðina er starfið árangursríkara hvað varðar eflingu á félags- og tilfinningaþroska barna, en þar sem unnið er út frá kennarastýrðum og faggreinamiðuðum aðferðum.

Fyrir þá sem vilja kynna sér fundargerðina er hér slóðin:

http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-725

sita (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 15:44

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk bæði Bryndís og Síta. Auðvitað er um að gera fyrir sem flesta að lesa fundargerðina sjálfa.

Kristín Dýrfjörð, 17.2.2008 kl. 18:54

9 identicon

mikið er ég sammála þér ég tel að 5 ára börn hafi ekker inn í grunnskóla að gera þessi ár sem börnin hafa á leikskóla eru mjög dýmæt fyrir börnin og tel ég að þennan tíma eigi ekki að stitta ég tala nú ekki um þau börn sem þurfa einhverja séraðstoð þá er þessi undirbúningstími í leikskólanum nauðsinlegur, ef það á að faa að demba 5 ára börnum inn í grunnskóla hefur það íu för með sér að það þarf í raun og veru að fara að hraða þroskaferli barna því mín skoðun er að þau hafa ekki þroska til að takast á við allt það álag sem fylgir grunnskólagöngu.

Eyrún Gísladóttir (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 20:02

10 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Fékk ábendingu um áhugaverða grein um leik sem birtist í New York Times og ég ákvað að koma á framfæri.  Hér má finna greinina.

Kristín Dýrfjörð, 17.2.2008 kl. 20:47

11 identicon

Lítið verið sagt frá þessu á Mbl.is Öll fræðin segja okkur að skipta skólastigunum eins og gert er í dag. Reyndar er ég hlynntur því að njóti kennslu í leikskólanum án endurgjalds. En nóta bene...í leikskólanum.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 21:38

12 Smámynd: Elías Theódórsson

Það er nógu slæmt að skólaskylda hefjist við 6 ára aldur. Er þetta ekki fyrsta skrefið að skólaskylda 5 ára börn? Réttast væri að afnema skólaskyldu en fyrst hún er til staðar ætti hún ekki að hefjast fyrr en í fyrsta lagi við 9 ára aldur.  Það er sérílagi erfitt fyrir drengi að byrja svona snemma í skóla.

Elías Theódórsson, 17.2.2008 kl. 21:43

13 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll Gísli kannski að mogginn sé sammála menntamálaráðherra sínum í þetta skiptið og vilji bara þagga hitt, en það verður að segjast eins og er að "skemmdarverkið" er ekki í anda frumvarpsins sem nú liggur fyrir alþingi og nokkur sátt var um.

Kristín Dýrfjörð, 17.2.2008 kl. 23:13

14 identicon

Frábært blogg hjá þér um þetta afturábakskref  hjá nýjum meirihluta menntaráðs og leikskólaráðs. Hvet þig til að birta þetta í prentmiðli til að sem flestir sjái þetta.

Anna Margrét Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 11:12

15 Smámynd: Rósa Harðardóttir

Takk fyrir góða grein Kristín og fyrir ábendinguna um greinina í NYT.  Börn í grunnskóla geta líka lært í gegnum leik og það þarf að nota meira af því.  Of mörgum krökkum þá sérstaklega strákum leiðist í skóla.

Rósa Harðardóttir, 18.2.2008 kl. 22:08

16 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ég er hjartanlega sammála þér um að börn á öllum aldri geta lært í gegnum leik, er eitt þeirra námstækja sem mætti njóta meiri hylli annars staðar en í leikskólanum **).

Kristín Dýrfjörð, 19.2.2008 kl. 00:03

17 identicon

Sæl Kristín

 Mig langar að bregðast aðeins við skrifum þínum um fyrirhugaða breytingu innan skólakerfisins og færslu 5 ára nemenda í grunnskólann. Sjálf er ég grunnskólakennari en bý í Danmörku og stunda framhaldsnám í mannauðsstjórnun. 

Ég fékk áfall að heyra þessa umræðu um að færa 5 ára börn inn í grunnskólana. Ég hef fylgst með málefnum skólanna og almennt málefnum barna síðan ég flutti hingað fyrir þremur árum og borið saman við þá reynslu sem ég hef öðlast af því að eiga börn í leikskóla og grunnskóla í Danmörku.

Mér er spurn; hvenær ætla íslensk sveitafélög og stjórnvöld að skoða rót vandans í grunnskólakerfinu og almennt í málefnum fjölskyldna á Íslandi áður en einhverjum nýjum og nýjum plástrum er mokað á sárin? Miklar breytingar hafa átt sér stað í grunnskólanum síðasta áratug; breyttir kennsluhættir og skóli fyrir alla eru stórar breytingar sem ég held að grunnskólinn eigi langt í land enn með að takast á við. Auk þess hefur kjarabarátta kennara verið þung og árangurslítil síðustu ár og því er skólinn uppfullur af óánægðum kennurum sem leita margir leiða út af starfsvettvangnum, það gerði ég allavega. Ég held að nær væri að eyða fjármunum og kröftum í að kanna hver rót vandans í íslensku skólakerfi er áður en gerðar verða frekari breytingar þar á. Börn fá ekki lengur að vera börn á Íslandi, eða það er mín upplifun þegar ég ber saman Danmörku og Ísland. Börn á Íslandi "vinna" langan vinnudag og foreldrar þeirra einnig. Fjölskyldan á lítinn tíma saman og í þjóðfélaginu er mikil streita. Mér finnst þeir foreldrar sem ég tala við á Íslandi flestir neikvæðir út í grunnskólann og í mínum huga leikur ekki vafi á því að samstarfi foreldra og skóla er ábótavant, sem kannski er ekki skrítið þar sem enginn gefur sér tíma til þess.

Eins og þú nefnir berum við okkur saman við lönd eins og Finnland sem kemur best út af Norðurlöndunum í PISA rannsókninni. Mig langar að minna á að fyrir nokkrum árum fór sendinefnd á vegum Menntamálaráðuneytisins með Ólaf Proppé rektor KHÍ í farabroddi. Ég hlustaði á Ólaf lýsa því sem vakti mesta athygli nefndarinnar í ferðinni á RÚV eftir ferðina. Hann lýsti því að í Finnskum grunnskólum þar sem þau komu virtist ríkja gagnkvæm virðing milli nemenda og kennara og ekki bæri á agavandamálum eins og þeim sem íslenskir grunnskólar kljást við. Ef rétt væri haldið á spöðunum ætti auðvitað að skoða þessar niðurstöður og í framhaldinu kanna vandann af faglegum mætti áður en gripið er til aðgerða eins og þeirra sem til umræðu eru nú í leikskólaráði. Það er ekki vafi í mínum huga að stór hluti vandans er þjóðfélagið, langur vinnutími foreldra, mikið álag á börn í sínu daglega lífi og hvernig við búum að fjölskyldum okkar.

Til samanburðar langar mig að segja frá minni reynslu í Danmörku. Hér vinna menn að meðaltali 37 stundir á viku (43 á Íslandi, að meðaltali). Mjög algent er að fjölskyldufólk kjósi að móðirin vinni ekki fulla vinnu svo hún geti sinnt heimili og börnun betur. Hér er mjög algent að börn séu um 30-35 stundir á viku á leikskóla og skóla+heilsdagsvistun. Þau eiga þ.e.a.s. stutta daga í hverri viku. Ég hlustaði á umræðu í útvarpi hér um daginn um niðurstöðu könnunnar sem gerð var af Meistarnemum í viðskiptafræði í Handelshöjskolen í Árósum. Þeir könnuðu viðhorf þegnanna til þjónustu hins opinbera. Það sem vakti athygli mína og einnig rannsakenda var að 93% foreldra grunnskólabarna í Danmörku eru  ánægðir með grunnskólann, kennarana og þá þjónustu sem börnin fá í skólanum. Öfugt við umræðu fjölmiðla um grunnskólana sem hefur verið á neikvæðum nótum eins og á Íslandi, þá eru foreldrar bara ekki sammála því að danskir grunnskólar sé slæmir. Maður getur vel gert sér í hugarlund hvaða áhrif það hefur á starf í skólum að vera með næstum eingöngu ánægða foreldra, það er næstum því eins og í draumi verð ég að segja

Guðrún Björk Marinósdóttir (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband