Í minningu Búddu

Í fjölskyldunni hans Lilló eiga allir gælnöfn, að því komst ég fljótlega, pabbinn Lúllú, bræðurnir Onni og Diddó, systirin hefðbundið Rúna og mamma þeirra Búdda. Einhvernvegin dettur manni helst í hug hnellin kerling, en svo var nú aldeilis ekki. Búdda var bæði frekar hávaxin og alla tíð svo grönn að módel samtímans væru næsta feit við hliðina á henni. Hún var líka smekkmanneskja bæði í klæðnaði og í hönnun á heimili sínu. Glæsikona sem hafði sterka tilfinningu fyrir samsetningu lita og hluta. Þegar ég kom fyrst í Brúnalandið var heimilið eins fryst í tíma. Fallegt sixtís heimili. Hornsófinn og gólfteppin blá, með appelsínugula rýjateppinu ofan á. Gylltar gardínur, frístandandi hillur og borðstofu húsgögn úr tekki. Heimilið bar með sér smekk húsfreyjunnar. Hún sagði mér eitt sinn að Guðmundur (ég gat aldrei kallað tengdapabba Lúllú) hafi fengið henni peninga til að kaupa ljós í allt Brúnalandið, hún hafi farið og keypt kristallsljósakrónu yfir borðstofuborðið fyrir alla upphæðina. Og Lúllú gapað þegar hún kom heim. Seinna þegar hún var flutt í litlu íbúðina sína í Ljósheimunum endurskapaði hún heimilið í Brúnalandinu en núna í nýmóðins stíl. Þar er tungusófinn blár og gardínur gylltar.

 

Búdda lifði stundum hratt en hún lifði því lífi sem hún kaus sér, ekki alltaf hefðbundið en sönn sjálfri sér og sínu. Húmoristi fram í fingurgómanna, stundum einkahúmor hennar og Jöru, eins og þegar við komum eitthvert sinnið í Skinnalónið og þær sátu út á palli og ræddu saman með sitthvorn háhæla skóinn undir eyra. Á árum áður hvessti stundum á milli okkar, ég var ung og kunni ekki alltaf að umgangast fólk sem ekki fór sömu leiðir og ég. Samt naut ég þess nú nokkuð að vera tengd Jöru vinkonu hennar og sambýliskonu fjölskylduböndum. Ég held reyndar að það hafi átt sinn þátt í að hún tók mig í sátt. Með árunum þroskuðumst við báðar og seinni ár áttum við í góðum samskiptum. Þá sagði hún mér stundum sögur af lífi sínu í Ameríku, af presthjónunum blindu sem gáfu hana og Guðmund saman. Sérstaklega var henni minnistætt þegar prestfrúin þreifaði á andliti hennar og sagði svo, „þú ert falleg“. Það var Búddu mikið áfall fyrir 10 árum þegar Jara dó, áfall sem ég held að hún hafi aldrei jafnað sig fullkomlega á. Börn og barnabörn Jöru héldu ávallt tryggð við hana og fyrir það var bæði hún og við þakklát. Búdda var með afbrigðum gjafmild og stór í gjöfum sínum. Ég er henni þakklátust fyrir þá gjöf sem hún gaf okkur Lilló fyrir sjö árum þegar Sturla dó, hún gaf okkur að nota leiði sem hún átti frátekið hjá Guðmundi og Jóni pabba sínum. Ég veit að hún hafði ekki ætlað sér að láta brenna sig, en eftir  andlát Sturlu ákvað hún að það myndi hún gera og hvíla við hlið þeirra. Síðasta fjölskylduboðið sem hún tók þátt í var nafnaveisla Sturlu Þórs, sonarsonar okkar, þegar hún heyrði nafnið hans klökknaði hún eins og við. Litríku, óhefðbundnu lífi er nú lokið, að leiðarlokum vil ég þakka fyrir samvistir og votta börnum hennar og systur samúð mína.  

(Minningargrein mín í mogganum í dag)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sorrí. öll þessi gælunöfn, minna mig bara á Sissó og Bimba.

http://fjas.is/Gums/media/jukk/Hommar.mp3

Brjánn Guðjónsson, 13.2.2008 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband