Skemmtilegur en annasamur dagur - upprennandi skapandi vísindamenn

100_6211

 Vísindasmiðjan í Ráðhúsin tókst afbragðsvel í dag. Nýi borgarstjórinn hann Ólafur kom og stoppaði töluverðan tíma ásamt aðstoðarkonu sinni Ólöfu Guðnýju. Þau spurðu mikið um hugmyndina og hugmyndafræðina á bak við smiðjuna. Samstarfskona mín sagðist meta pólitíkusa eftir því hvernig þeir bregðast við m.a. svona atburðum, ástæða þess að hún minntist á þetta er að ungliðadeild bæði úr Sjálfstæðiflokknum og Samfylkingunni voru í húsinu en stungu ekki inn nefjum. 

Átta leikskólar lögðu á sig ferð út í veðrið með börnin og mættu. Sögðu mér að strætó stoppaði fyrir utan Ráðhúsið og þetta væri ekkert mál. Hjá sumum var þetta sárabætur fyrir dagskrá sem hafði verið blásin af um morguninn. Aðrir splæstu í rútu.  Ég spurði börnin hvort þau vissu hvað húsið héti sem við værum í, jú þau vissu það alveg, "Ráðhúsið í Reykjavík".

Við höfðum töluverðar áhyggjur af að vera með nóg af efni í 400 fermetra sal. Aðallega vegna hjálpar garðyrkjunnar í Reykjavík vorum við með mikið meira en nóg. Þau höfðu útbúið fyrir okkur trékubba af mikilli alúð. Við fengum töluverðar fyrirspurnir um kubbana og ætlum reyndar að lána leikskólum okkar kubba. Við þurfum hinsvegar að fá þá aftur til að nota í vor í smiðju.

Við vorum líka með einar sex stöðvar með ljósaborðum sem vöktu mikla lukku. Ein stöðin átti að vera hvítt á hvítt. Þ.e.a.s. alla vega hvítur og glær efniviður. Þegar ein lítil stúlka kom að stöðinni sagði hún, "prinsessuborð".

Tveir drengir svona 8 og 9 ára dunduðu sér í næstum þrjá tíma við að smíða kúlurennu braut. Ég lánaði þeim nokkur vasaljós, skömmu seinna sagði annar þeirra við mig. "Þessi leikskólabörn eru alltaf að stela af okkur". Guðrún Alda var með auka vasaljós og ætlaði að láta þann yngri hafa það vegna þess að sá eldri var með hin. Eldri drengurinn segir, "réttu mér það". Guðrún svarar "já en þú ert með". Sá yngri leit á hana í forundran og sagði "við erum saman". Flottir strákar.

Börnin voru mjög upptekin við að skoða hvernig ýmsir hlutir hleyptu í gegn um sig ljósi. Þau settu mismunandi litað plexígler fyrir ljósið, stundum voru börnin mjög kerfisbundin í þessu. Voru búin að sækja sér stafla, prufuðu fyrst hvern lit fyrir sig, svo fleiri liti saman, settu spegla fyrir ljósið og masonítplötur. Upprennandi verklegir vísindamenn. 

Aðrir þróuðu trommusett, og byggingar risu. Hér við hliðina má sjá albúm með myndum frá vísindasmiðjunni í dag. Við hlökkum til morgundagsins og vonum að þá komi krakkar á öllum aldri til að byggja og rannsaka.

100_6177  100_6181

 100_6192 100_6240

 100_6251 100_6225

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju stöllur - mikið hlakka ég til að koma og taka þátt á morgun. Tvö barnabörnin komu í kvöld til að gista því við ætlum á vísindasmiðjuna á morgun, það er mikil tilhlökkun. Nú eru þau sofnuð bjuggum til tjald úr borðstofuborðinu með teppum og settum dýnu, sængur og kodda undir það.

sita (IP-tala skráð) 8.2.2008 kl. 22:25

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sælar báðar tvær, við erum sennilega flest sammála um að börn eru oft og iðulega vanmetin í samfélaginu. Það virðist oft frekar ríkja trú á vanmátt barna en getu. Síta hlakka til að sjá ykkur öll.

Kristín Dýrfjörð, 8.2.2008 kl. 22:33

3 identicon

Frábær smiðja, ég væri alveg til í að hafa svona afstöðu þar sem maður gæti farið reglulega til að skapa og leika sér með börnunum og öðrum fullorðnum  þegar ReMida aðstæðan kemur, verður þá ekki svona afdrep fyrir okkur?

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 9.2.2008 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband