löglegt en siðlaust

Ég er ein þeirra fjölmörgu Reykvíkinga sem horfði á beina útsendingu frá ráðhúsinu. Ég varð vitni að því þegar mótmælin fóru úr böndunum. Frá upphafi átti e.t.v. ekki að kalla uppákomuna mótmæli heldur opinbera vandlætingu. Því þó flestum okkar hafi þótt illa farið með lýðræðislegan rétt borgarfulltrúa þegar Villi lagðist á Ólaf og af því er virðist með lygar í farateskinu, þá var þetta ekki ólöglegur gjörningur. Eins og annar fyrrum samherji minn úr pólitík sagði, „löglegt en siðlaust“.  Vilhjálmur situr upp með þann kaleik að verða dæmdur af sögunni sem siðlaus pólitíkus.


Ég skil vel unga fólkið sem var misboðið en það réttlætir ekki dónaskap sem því miður örfáir sýndu. Ég var ekkert ofurkát að heyra rök þeirra sem voru í forsvari. En ég get skilið þau. Hinsvegar leiðist mér að heyra hvernig víða er fjallað er um mótmælin. Aðferðafræðin er vel þekkt og um leið og ég sá hvað var að gerast á pöllunum, vissi ég að því miður höfðu þessir örfáu fært upp í hendurnar á sjálfstæðimönnum vopn hneykslunar og sjálfsréttlætingar. Þetta er nefnilega sama aðferðarfræðin og við notum þegar við ræðum um unglingana okkar, það eru örfáir sem haga sér e.t.v. illa en samfélagið talar um agalausan skríl sem verði að koma böndum á. Ég vona að unga fólkið sem tók þátt í mótmælunum hristi af sér þessa umræðu og læri af henni. Afleiðingin verið sú að fjöldi fólks eigi eftir að sitja oft á pöllum næstu tvö árin og sýna vandlætingu sína. Setja upp þöglan fyrirlitningarsvip gagnvart siðlausum pólitíkusum.


Mér leið illa að horfa á Ólaf í pontu, ég fann verulega til með manninum. Og ég ætla engum svo illt eða slíkt siðleysi að hafa haft það sem markmið að brjóta manninn niður. Væntanlega og vonandi þarf meira til, upp á það hefur hann líka skilað inn vottorði.


En fari svo að Ólafur haldi ekki heilsu, þá á ég þá von að nýi minnihlutinn leyfi Sjálfstæðisflokknum að stjórna til loka kjörtímabilsins. Ég skal viðurkenna að ég er með hroll vegna hinna nýju valdhafa en mér finnst hvorki, borgarbúum eða stofnunum þess bjóðandi upp á þriðju stjórnina á kjörtímabilinu. Minnihlutinn á að greiða atkvæði með málefnum og annars sitja hjá. Á að sýna hvað hann er stór. Það á að láta sjálfstæðimenn standa frammi fyrir kjósendum og svara fyrir verk sín í næstu kosningum. Ég hef enga trú á að hið fræga gullfiskaminni nái tökum á kjósendum. Ég held að núverandi meirihluti hafi undirritað pólitíska aftöku sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Mér finnst þessi og viðlíka vandlæting í garð mótmælenda hreint út sagt aumingjaleg og lítilmannleg. - Það er ekkert að því þegar lýð-ræðið er svo fótum troðið sem hér var að fólk láti heyra í sér með púum og klöppum þó það tefji fund í nokkur korter.

- Fyrr má nú vera aumingjaskapurinn að fólki finnist það fremur rof  á lýð-ræði að fundur fulltrúa lýðsins tefjist um nokkur korter vegna klapps og púa í vitnum að hörmungunum en yfir höfuð að við skulum líða að asnaprik borgarstjórnar gerist gegn vilja 75% lýðsins .

- Að þvert gegn vilja lýðsins skuli sú hörmungarborgarstjórn sem nú hefur verið mynduð taka við.

Pú og klöpp eru afar saklaust mótmæli jafnvel þó einstaka hróp fylgi - Engum finnst stafa nein ógn af því þó það sé gert við önnur tilefni, í spurningakeppnum í Sjónvarpssal eða á kappleikjum - þá les enginn það sem ógn. - Þetta er tjáningarform fólks almennt án þess að neinn lesi ógnanir úr því - fyrr en Hanna Birna fór á taugum og hótaði víkingasveitunum á áhorfendur - þá fyrst var mættur raunverulega ógnvaldur á vettvang (þ.e. Hanna Birna) sem raunverulega gat valdið miklum hörmungum hefði lögreglan ekki haft vitið fyrir henni og tekið hlutum af þeirri eðlilegu stillingu og yfirvegun og ekki lesið meir ógn úr áhorfendum en pú og klöpp merkja yfir höfuð og almennt.

Helgi Jóhann Hauksson, 26.1.2008 kl. 02:28

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll, og takk fyrir innlitið, ég er sammála því að fólk mæti á palla og sýni hvað því finnst, ég var að tala um þá örfáu sem ég heyrði kalla fram í afar dónalegar og óþarfar setningar, ég heyrði líka að aðrir í kring voru að reyna að sussa á viðkomandi. En það dugði ekki. Um leið og ég varð vitni að þessu vissi ég líka hvernig íhaldið myndi nýta sér þetta og það hefur orðið raunin. Þeir nýttu sér framkomu þessa örfáu mótmælenda og eins og þú veist sjálfur hafa þeir verið hamlausir að ræða um þá. Sýnir reyndar smæð þeirra - hvernig þeir reyna að klína þessu á allan hópinn. Við eigum að vera stærri.

Ég er alveg viss um að fyrir nokkrum árum hefði ég verið ein af hópnum og verið stolt af. Enn á ég það til að mæta á þingpalla þegar verið er að ræða mál sem mér eru kærari en önnur, ég trúi að það skipti máli.

Mér fannst hallabyltingin í ráðhúsinu á mánudaginn siðlaus, og á engan hátt sambærileg við það þegar síðasti meirihluti tók við. Mér finnst fólk hafa gleymt að sexmenningarnir fóru til Geirs að kvarta undan eigin liði. Að þau gátu ekki unnið með sínum manni, og ekki með framsókn.

Ég þoli alveg pú og klapp en það voru persónulegar athugasemdir sem örfáir létu falla sem eyðilögðu fyrir hópnum, (já og ég heyrði líka klapp sjallana inn í púinu - svo þeir nýttu sömu tækni), en þrátt fyrir að mér finnist þessi atburður siðlaus og að viðkomandi hafi í raun gefið skít í lýðræðið, þá er gjörningurinn löglegur. Þess vegna tala ég um að sýna þessu fólkinu sem lét allt siðferði lönd og leið til að ná í valdastólana vandlætingu.

Ps. Þó að ég sé náttúrulega ótrúlega ánægð með skoðunarkönnunina þá er skoðunarkönnun ekki kosning.  

Kristín Dýrfjörð, 26.1.2008 kl. 02:51

3 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Mér finnst þetta afar athyglisvert viðhorf hjá þér að minnihlutinn eigi að sitja hjá, ef þeir eru mótfallnir einhverjum málum. Á minnihlutinn að verja meirihluta sem hefur ekki meirihluta falli?

Þá verð'ur sagt um hann í næstu kosningabaráttu: Þið hafið ekki dug til að greiða atkvæði á móti málum sem þið eruð á móti.

Auðvitað á minnihluti að greiða atkvæði með málum sem hann er fylgjandi í borgarstjórn.  En að sitja hjá í málum sem maður er á móti, er eitthvað sem minnir mann á meðvirkan maka alkohólista. : )

Jón Halldór Guðmundsson, 5.2.2008 kl. 10:07

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæll og takk fyrir innlitið, í Danmörku er löng hefð fyrir minnihlutastjórnum.  Auðvitað getur minnihlutstjórn við slík tækifæri ekki komið öllu sem hún vill í gegn, sum mál eru auðvitað prinsippmál sem viðkomandi stjórn veit að hún fær ekki varið gagnvart þeim sem veita henni skjól.  Ég er að tala um slíkt fyrirbrigði. Vegna þess að mér finnst borgarbúum ekki bjóðandi upp á eina stjórn í viðbót (eða tvær eða þrjár) á kjörtímabilinu, við skulum líka gæta þess að áhrif svona stjórnarskipta ná langt út fyrir kjörna fulltrúa, inn í allt kerfið sem verður svifaseinna og svifaseinna en það þarf. Þannig að ég tel að sjálfstæðisflokkurinn yrðir að gera samning við hina flokkana að verja sig. Í slíkum samningi er ekki  setið hjá við allt, en sumt.  Og sem fyrr segir sumt dytti þeim væntanlega ekki hug að koma fram með. E.t.v. yrði þetta bara ágætis lýðræðisæfing fyrir okkur.

Kristín Dýrfjörð, 5.2.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband