14.12.2007 | 15:03
Er verið að plokka peninga af foreldrum?
Í fréttablaðinu eru í dag þrjár greinar sem snúa eða snerta á einn eða annan hátt leikskólann. Tvær fjalla um stóra umræðuefnið, kristilega siðgæðið sú þriðja um gjaldtöku foreldrafélaga. Þar er velt upp gildum rökum fyrir því afhverju foreldrafélagið eigi ekki að rukka inn gjald.
Ég get tekið undir þau rök sem þar koma fram og hugleiddi m.a. sjálf á sínum tíma hvort rétt væri að hafa slíkt. Ég hef t.d. sett spurningarmerki við að dansskólar komi inn í leikskólann á starfstíma og foreldrar sérstaklega rukkaðir fyrir. Man eftir að hafa komið inn í skóla þar sem miði var í hólfi barna þar sem stóð að nú færi dansnámskeiðið að byrja og ef ekki væri búið að borga fyrir tiltekinn dag yrðu viðkomandi börn ekki með. Við þetta gerði ég athugasemd. Sama má segja um námskeið í myndlist, fimleikum, tónlist og fleiru sem sérstaklega er keypt inn í skólana og foreldrar borga. Allt er þetta á gráu svæði. Reyndar vil ég ekki sjá þessa starfsemi inn í leikskólum á leikskólatíma frekar en kirkjuna.
Hluti af því sem féð er notað til er, sveitarferðir og jólasveinn á jólaball, leiksýningar og tónleikar inn í leikskólanum. Þættir sem ég sjálf flokka aðeins öðruvísi vegna þess að ekki er verið að fá fólk til að vinna með börnunum. En samt á gráu svæði. Auðvitað væri eðlilegast að hver leikskóli hefði svo rúm fjárráð að ein til tvær rútuferðir á ári og það að fá listamenn til að sýna í leikskólanum settu hann ekki öfugu megin við strikið rekstrarlega. því miður er það hins vegar staðreynd.
Margir hafa litið á framlag foreldra sem leið til að brjóta upp starfið, leið til að víkka sjóndeildarhring barnanna. Gefa þeim kost á einhverju sem er umfram grunnstarfsemi. Fyrir þessu er nokkuð löng hefð. Áður en foreldrafélögin tóku þetta hlutverk að sér var oft rukkað fyrir hvern atburð sérstaklega.
Mér finnst full ástæða til að ræða málið, frá öllum hliðum og ég tel leikskólakennara bera mikla ábyrgð í að leiða þá umræðu.
Nýlega heyrði ég af foreldrum sem ofan á foreldrafélagsgjöldin þurfa að borga sérstaklega fyrir aðgang að myndasafni leikskólans á netinu. Efni sem ég hefði talið vera sjálfsagðan þátt í samvinnu leikskólans við heimili og foreldra, hluti af grunnstarfsemi leikskólans.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Athugasemdir
Ég er algerlega sammála þér, það er alveg jafn fáránlegt að aðskilja börn vegna trúarmála eða dans whatever.
Ef eitthvað svona fer fram, einhver dans bla þá á það að vera fyrir öll börnin og án greiðslu, ef eitthvað foreldri hefur ekki efni á þessu og lendir í að barnið er látið sitja hjá þá er það ekkert nema hneyksli.
Hvað er þetta lið að hugsa eiginlega, hvernig líður barni sem þarf kannski að horfa upp á alla leikfélagana fara í eitthvað svona og situr eitt eftir... vá hræðilegt bara
DoctorE (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 15:34
Já eða að borga 500 kall aukalega á mánuði til að sjá myndir af barninu þínu í leikskólanum.
Hér kemur kafli úr matsskýrslu sem ég skrifaði fyrir menntamálaráðuneytið fyrir 7 árum
DansLeikskólinn hefur boðið upp á dansnámskeið á haustin og aftur eftir áramót. Foreldrar borga sérstaklega fyrir dansinn (1500 kr hvort námskeið), og kemur danskennari utan úr bæ til að kenna.
Börnin eru flest ákaflega spennt fyrir dansinum og var mikil tilhlökkun í loftinu þá daga sem ég var í heimsókn og dansinn var í gangi. Kom fram bæði í máli foreldra og starfsfólks almenn ánægja með dansinn og telja báðir hópar hann vera ómissandi þátt í starfinu, vera eitt af aðalsmerkjum leikskólans. Í tengslum við dansinn er síðan haldin danssýning fyrir foreldra í mars eða apríl ár hvert. Í máli foreldra kom fram að þeirtöldu það ekki eftir sér að borga sérstaklega fyrir dansinn.
Á einni deildinni hékk uppi auglýsing þar sem foreldrar voru minntir á að borga dansinn, annars væri litið svo á að foreldrar óskuðu ekki eftir að þeirra barn tæki þátt.
Verður að velta því fyrir sér hvort að á starfstíma leikskólans sé æskilegt sé að bjóða upp á dans eða önnur atriði sem ekki eru fyrir alla, þ.e.a.s aðgangur byggist á aukalegum greiðslum og fjárhagsstöðu foreldra.
Kristín Dýrfjörð, 14.12.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.