Áhrif húsnæðis og mönnunar á leikskólastarf

Veturinn 1993-94 lagði ég fyrir íslenska leikskólakennara spurningarlista um ýmislegt sem snéri að starfi þeirra. Hér til hliðar undir tenglar er skýrsla um rannsóknina fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér efni hennar. Af einhverjum ástæðum tók ég þessa skýrslu fram og fór að fletta í henni. Það er margt forvitnilegt þar að finna, kannski sérstaklega vegna þess hversu langur tími er liðinn og þess sem hefur gerst í millitíðinni í leikskólanum. Ég held að það væri afar forvitnilegt að spyrja sumra spurninga aftur og bera saman við tölurnar frá 93-94.     

Ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir, er hvort unnið sé samkvæmt einhverri ákveðinni hugmyndafræði í leikskólum. Þegar svörin um hvað leikskólakennarar töldu hafa mest áhrif á gæði var greind niður eftir hvernig hugmyndafræði er í leikskólunum, kemur í ljós að svo til enginn munur er á milli hópa. Þ.e.a.s. viðhorf leikskólakennara til þess sem þeim finnst hafa mest áhrif á gæði, markast ekki af því hvernig hugmyndafræði er í leikskólanum þar sem þeir starfa.  Undantekningu er þó að finna, leikskólakennarar sem starfa í leikskólum þar sem til er skrifleg lýsing á hugmyndafræði, telja barnafjölda á starfsmann ekki hafa eins mikil áhrif á gæði starfsins og leikskólakennarar þar sem persónuleg hugmyndafræði er. Í spurningalistanum skilgreindi ég hugmyndafræði eins og áður hefur komið fram

[1]
 

Svörin greindust niður á eftirfarandi hátt.

 

Tafla 7. Áhrif barnafjölda á starfsemi leikskóla[2]

 meðalgildi
1 Persónuleg hugmyndafræði 2,291
2. Munnleg lýsing á hugmyndafræði2,176
3. Uppeldisáætlun2,063
4. Skrifleg lýsing á hugmyndafræði1,260

Hér er áberandi að þar sem skrifleg lýsing ræður ríkjum telja leikskólakennarar fjölda barna á hvern starfsmann hafa minnst áhrif á gæði. (Tafla 7). Eru til einhverjar haldbærar skýringar um hvernig getur staðið á þessu? Eru leikskólakennarar í leikskólum þar sem til er skrifleg hugmyndafræði öruggari í því sem þeir eru að gera? Er starfið þar betur skipulagt þannig að þeir finna minna fyrir fjölda barna? Þetta er forvitnilegt að skoða betur. Þó svo að marktækur munur sé á milli þessara hópa hvað varðar áhrif barnafjölda á gæði starfseminnar raðast sá þáttur lágt þegar á heildina er litið. Ég velti því fyrir mér hvernig geti staðið á því. Félag íslenskra leikskólakennara hefur verið í fararbroddi í umræðu um fjölda barna á deildum og fjölda barna per starfsmann. Á þeim tíma sem spurningarnar voru sendar út átti sér stað mikil umræða um Leikskólaverkefni Dagvistar barna, þróunarverkefni í Kópavogi, ábataskiptasamning við Reykjavíkurborg og hagræðingu. Er hægt að draga þá ályktun að sú umræða hafi haft þessi áhrif?

Þegar ég spurði um þætti sem hömluðu gæðum í starfi nefndi einungis 14, 6% að of mörg börn á starfsmann gerðu það og 17% nefna húsnæðismál. Árið 1995 er  sett reglugerð sem jók barnafjölda og minkaði húsnæði. Þessi mæling er því gerð rétt fyrir þær breytingar og því kannski enn merkilegra að sjá svör dagsins í dag. Mín tilgáta er að bæði mundu skora mikið hærra í dag. Þegar ég spurði síðan beint um áhrif húsnæðis á starfið segja 12% það hafa mikil áhrif, 53% töluverð áhrif, og  rúm 34% lítil eða engin áhrif. Mér finnast þetta merkilegar tölur.

 

Ég spurði um hvernig áhrif húsnæðið hefði og fékk eftirfarandi svör. Spurningin var opin og ég ákvað flokkana eftir á. 

Tafla 19. Hvaða áhrif telur þú húsnæði hafa á starf leikskóla?

Gott húsnæði auðveldar - lélegt dregur úr23,1%
Áhrif á hópaskiptingu20,8%
Letur/pirrar18,5%
Almenn áhrif17,3%
Setur starfseminni skorður/ramma13,3%
Áhrif á líðan barna/þurfa pláss og næði 7,5%
Áhrif á þemavinnu 4,0%
Gild svör 173
 


[1] *           Persónulega hugmyndafræði sem hver leikskólakennari mótar fyrir sig.

  *            Munnlega lýsing á hugmyndafræði sem er sameiginleg í leikskólanum og byggir á hugmyndum leikskólakennara um hvernig einstaklinga þær vilja sjá í framtíðinni

  *            Skriflega lýsing á hugmyndafræði

 

[2] Í úrvinnslunni var síðan hverju svari gefið ákveðið gildi 0 ef enginn valdi það og 4 ef það var talið hafa mest áhrif. Frá þessu var síðan reiknað. Lægsta mögulega gildi er 0 og það hæsta 4.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband