9.12.2007 | 03:17
Gamlir hilluvinir
Sumar bækur dvelja stundum upp í hillu í langan tíma, svo dreg ég þær fram og hugsa "já þetta er nú áhugavert". Í gær dró ég þrjá gamla hilluvini fram. Einn þeirra lít ég nú reglulega í, sá vinur minn fjallar um lýðræðislega menningu, lætur ekki mikið yfir sér er réttar 60 síður, en fær mig alltaf til að hugsa.
Ástæða þess að ég dró hann fram í þetta sinn er að systir mín er að skrifa ritgerð og ég mundi að í þessari bók er frábær tilvitnun í Sören Kirkegaard sem mér fannst hún endilega þurfa að lesa. Hún varð reyndar alveg sammála mér og gott ef hún ekki nýtti sér hana.
Bókin byrjar reynda á að lýsa því hvernig við sem vinnum með pedagógík verðum að hugsa um hana. Hvernig við getum aldrei látið aðra um að malla hana ofan í okkur. Jú kannski einhver megi malla, en við verðum að melta og gera að næringu fyrir okkur. Það getur enginn gert fyrir okkur. Það krefst hugsunar og gagnrýni. Það krefst skuldbindingar. Annars er þar fantagóður kafli sem fjallar um ritgerð Geroge Orwells um reynslu hans af heimavistarskóla og hvernig hægt er að ala upp í börnum hræðslu og skömm. Skömmin var svo djúp að þegar skólameistarinn lamdi hann svo fast með keyrinu að skaftið á því brotnaði, öskraði hann á drenginn, "sjáðu hvað þú hefur gert?" Og drengurinn tók skömmina og ábyrgðina til sín.
Næsta bók sem ég dró fram fjallaði um sögu uppeldisfræðinnar eitt af mínum uppáhaldsfögum. Þar er m.a. lýst hvernig sunnudagskólahreyfingin varð til. Fyrst í Bretlandi til að gefa börnum sem þræluðu í námum kost á lágmarks menntun (sem reyndar fljótlega breyttist í kristinfræðslu einvörðungu) og svo hvernig sunnudagskólahreyfingin færðist til Norðurlanda. Eitt af því gert er að umfjöllunarefni er hvernig stóð á því að Danir tóku aftur upp fermingar. En það gerðu þeir upp til að tryggja lágmarksþekkingu á kristindómnum. Þetta var árið 1736 en þá höfðu fermingar verið aflagðar í 200 ár eða frá því um siðaskipti 1536. Ástæða þess að þeir tóku upp fermingar var m.a. vegna þess að kristindómsfræðslan hafði þótt svo leiðinleg að fólk kom sér hjá henni. Prestum var því falið að kenna Litla kverið eða Katekismus og prófa í því fyrir fermingar.
Afi minn sagði mér reyndar að honum hafi verið gert að læra þá bók utanað og væri algjörlega bólusettur gangvart henni. Held að lærdómurinn hafi ekki gengið jafn hratt og til stóð og því aðferðirnar til að tryggja að drengurinn lærði stundum full harkalegar. En það er önnur saga. Reyndar er líka í bókinni áhugaverður kafli um hvernig áróðri var lætt í gegn um jafn sakleysisleg fög og stærðfræði í þriðja ríkinu.
Dæmi 95
Það kostar 6 milljónir ríkismörk að byggja geðveikraspítala, Hvað er hægt að byggja mörg einbýlishús sem kosta 15.000 þess í stað?
Og dæmin voru fleiri og ef eitthvað enn meira hrollvekjandi.
Þriðji vinurinn sem fékk að koma af hillunni, fjallar um Remote control childhood. Eða Æsku fjarstýringanna. Þar er verið að fást við sjónvarpsmenningu okkar. Meðal þess sem þar er ráðlagt er að horft með börnum á þætti, og ræða þá við þau. Þeir eru jafnvel svo góðir að gefa upp hvernig foreldrar geta gert þetta.
Dæmi: Talið um viðbrögð ykkar bæði jákvæð og neikvæð um það sem hvort ykkar sér.Hvað fannst þér um þáttinn/leikinn (tölvu)? Mér fannst alveg frábært þegar __________ gerðist, hvað fannst þér um það?
Mér líkaði ekki þegar að ____________ ég vildi óska að þeir þyrftu ekki alltaf að meiða hvert annað. Hvað fannst þér?Svona heldur þetta áfram og þarna eru punktar til að hjálpa foreldrum að ræða um mun á fantasíu og raunveruleika. Um það að bera saman reynslu barnanna af því sem þau sjá í sjónvarpinu við það sem er að gerast í þeirra eigin lífi. Ræða um ofbeldi og illkvittni, og til að ræða við börn um staðalmyndir. Og svo auðvitað margt fleira.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 03:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.