2.12.2007 | 15:10
Aðventuhugvekja
Ég var skírð rúmlega tveggja ára, þá gafst ferð austur og prestur með rétt stjórnmálaviðhorf til verksins. Hann sagði mig fyrsta barnið sem þakkaði honum fyrir skírn. Á sunnudagsmorgnum fórum við í sunnudagaskóla í kirkjunni. Ég man að mér fannst skemmtilegast að fá biblíumyndir, myndir úr dæmisögunum. Kannski að það hafi orðið til þess seinna að þegar ég varð læs, fannst mér gamla testamentið skemmtilegra en það nýja. Las það eins og hverja aðra sögubók. Mér fannst líka Grettissaga Ásmundssonar skemmtileg, sögur fullar af ofbeldi virðast hafa höfðað til mín. Reyndar tengi ég áhuga minn á Grettissögu frekar við að vera alin upp í Skagafirði. Á sunnudagseftirmiðdögum fórum við líka stundum í sunnudagaskóla hjá Daníel Glad. Man reyndar ekki mikið eftir því. Nema að við keyptum alltaf Barnablaðið. Eftir að við fluttum suður koma Daníel stundum og ég man að pabbi keypti af honum bækur.
En ég man líka hvenær ég hætti að vilja fara í sunnudagaskólann, þannig var að afmælisvikuna fékk maður stóra biblíumynd, flest börn biðu eftir henni allt árið. Þessari einu stóru. Ég á afmæli að sumri og þegar ég spurði um stóra biblíumynd fékk ég hana ekki, var sagt að ég ætti ekki afmæli, það var nefnilega ekki vandmál kirkjunnar að sum börn áttu afmæli þegar enginn sunnudagskóli var. Ég var um sjö - átta ára, eftir þetta vildi ég aldrei fara í sunnudagskólann. Man heldur ekki til þess að hafa sagt neitt við foreldrana. Hætti bara að mæta.
Ég var um tíma trúað barn. Var alltaf að keppa við guð, til þess að hann gæti sannað fyrir mér tilveru sína. Ef ég gæti hlaupið milli tveggja ljósastaura áður en næsti bíll kæmi væri til guð. Okkur voru ekki sérstaklega kenndar bænir heima en stundum fórum við samt með þær, þegar við fórum austur var lögð áhersla á kvöldbænir enda amma trúuð kona. Stundum fórum við með þessar bænir. Við lágum svo alveg grafkyrr og sögðum ekki orð. Ég held að þetta hafi verið partur af bænakennslunni að þegar við vorum búin að fara með áttum við að vera hljóð, annars þurfum við að fara með alla þuluna upp á nýtt. Ég man ekki hvenær við hættum alveg kvöldbænum, held kannski það hafi verið þegar við fengum herbergi tvö og tvö saman. Áður vorum við fimm saman í herbergi systkinin.
Næstu viðskipti mín við kirkjuna tengdust fermingu. Ég var lengi að gera upp við mig hvort ég ætti að fermast. Ræddi þetta m.a. annars við foreldra mína sem sögðu mér að þetta væri svo gott tækifæri til að halda fjölskyldum saman, væri hluti af menningu okkar og því að búa til ritúöl innan fjölskyldna. Þetta hefði minnst með það að gera hvort ég væri trúuð eða ekki. Ég ákvað að fermast. Á þeim tíma var fermingarfræðsla á skólatíma. Reyndar fannst mér kristnifræðikennarinn minn Ingólfur Jónsson frá Prestbakka miklu betri til verksins fallinn en fermingarfræðslupresturinn séra Ólafur Skúlason. Ólafur vildi auðvitað að við sæktum messur, við vorum kannski ekki eins upptekin af því. Hann lofaði bekknum með bestu messusóknina pylsupartýi að vori. Ég man ekki til þess að neinn bekkur hafi fengið þau verðlaun.
Í fermingunni minni fékk ég óstöðvandi hláturkast, mér varð litið á vinkonu mína liggjandi fram á gráturnar og hún leit á mig. Við bældum hláturinn niðri. Held að enginn kirkjugestur hafi séð hvað var að gerast. Þarna lærði ég að stundum bregst fólk við stressi á undarlegan hátt.
Það sem er mér þó minnisstæðast úr fermingunni minni var ræða prestsins. Hann lagði nefnilega út frá endurgjaldi. Þannig var málum vaxið að í sókninni hafði maður verið dæmdur til fangelsisvistar. Kona mannsins leitaði til prestsins um aðstoð, sem hann veitti með gleði. En nú er maðurinn laus úr fangelsi, sagði séra Ólafur, og hann hefur enn ekki komið í kirkjuna og þakkað guði fyrir að það var til fólk sem aðstoðaði fjölskylduna hans. Þetta áttum við að láta okkur að kenningu verða, að þakka þeim sem þakka bæri í framtíðinni. Kannski ætti ég að þakka fermingarprestinum mínum fyrir að opna augu mín fyrir hræsni. Sennilega átti ræðan þátt í að móta viðhorf mín til kirkjunnar, en ekki kristninnar.
Ég hlustaði á Jón Magnússon ræða áðan um að við leituðum til presta (eða að þeir biðu fram þjónustu sína) þegar bjátaði á, þegar við værum sjúk eða þegar við sætum, í fangelsum. Ég hef líka af þessu reynslu. Prestar sjúkrahússins komu og sátu oft hjá mér þegar ég sat yfir syni mínum. En þeir reyndu aldrei að ræða trú við mig, reyndu aldrei að ræða um upprisu eða annað sem tengist kristni. Við ræddum um allt mögulegt, þeir hafa mikla reynslu af því að umgangast dauðann. Þeirra hlutverk er sálgæsla án tillits til trúarbragða. Þessir prestar reyndust okkur vel, fyrir það erum við þakklát. Þeir reyndust líka því unga fólki sem í kringum okkur var vel. Ég man til dæmis vel eftir stund sem þeir leiddu nokkrum dögum eftir hrapið, þeir gerðu það vel og báðu fólk að biðja/hugsa til þess sem það trúði á. Til þess sem skipti það máli. Ég man líka tæpu ári eftir andlátið, fórum við hjónin með litla gjöf á gjörgæsluna, á leiðinni upp, hittum við einn þessara presta. Við ræddum töluvert við hann. Hann sagði á þeirri stundu setningu sem ég hef síðan deilt með öðrum í sömu sporum. Hann sagði mér að fyrsta árið væri erfiðast, en strax og það væri liðin ár og dagur, væri ég ekki jafnupptekin af því að hugsa; fyrir ári vorum við að gera þetta, eða að þá leið mér svona. Svo skrýtið sem það hljómar það reyndist þetta rétt. Það er bull að tíminn lækni öll sár. Það nær sér enginn eftir að hafa misst barnið sitt en við getum lært að lifa með því. Á stundum eins og í dag þegar fréttir berast af andláti barns eftir hörmulegan atburð, rífur það í sárin mín. Ég hugsa til fjölskyldunnar en líka til allra þeirra sem standa vaktina á gjörgæsludeildinni. Hugur minn er hjá þeim.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 3.12.2007 kl. 20:32 | Facebook
Athugasemdir
Komdu sæl, Kristín.
Þakka þér fyrir góðu hugvekjuna þína. Sérstaklega vil ég þakka þér fyrir
að þú segir um starf /þjónustu sjúkrahúspresta. Það er líklegast hluti prestsþjónustu sem er
ekki velþekktur.
Hafðu góða aðventudaga.
Toshiki Toma, 3.12.2007 kl. 19:10
Takk fyrir það og sömuleiðs.
Kristín Dýrfjörð, 3.12.2007 kl. 20:54
Bara svo fólk haldi ekki annað þá vil ég að fram komi að ég er öldungis sammála Kristínu um þá sjúkrahúspresta sem við áttum samneyti með á þessum erfiða tíma. Þeir voru aldeilis ekki að troða trú á okkur. Þetta eru bæði í senn góðmenni og atvinnu-góðmenni. Og síðan langar mig að bæta við eftirfarandi, sem einhverjum kann að finnast skrítið að komi frá fyrrum oddvita Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju, einkum þeim sem hafa fyrir misskilning talið mig trúleysingja (ég er efahyggjumaður):
Þótt ég hviki ekki frá því prinsippi að ríkið eigi ekki að styðja og vernda eitt trúfélag umfram önnur, þá er ég samt afskaplega þakklátur fyrir að ríkiskirkjan á Íslandi skuli á undanförnum áratugum hafa verið meinlaust og öfgalaust og hófsamt trúfélag. Þjóðkirkjuprestar (flestallir) eru fyrst og fremst góðir menn og konur, sem vilja öllum vel og eru haldnir mátulegum trúarhita. Þeir hafa flestallir af mikilli skynsemi lagt gamla testamentið til hliðar og einblínt á kærleika nýja testamentsins. Það er merkilegt að slík hófsemd hafi þangað til undir það síðasta verið mottóið, undir ríkiskirkjufyrirkomulagi. Í Bandaríkjunum er merkilegt hve öfgatrú veður uppi, en þar er fullur aðskilnaður ríkis og kirkju.
Prinsippið stendur um aðskilnað, en ég þakka fyrir þá hófsemd sem hingað til hefur ríkt. En því miður eru blikur á lofti. Þjóðkirkjan hefur tekið ákvörðun um útrás sem mér er á móti skapi. Hún vill fara að troða sér í auknum mæli með trúarinnrætingu í leik- og grunnskóla landsins. Og málflutningur biskupsins veldur mér áhyggjum, því þar ber mjög á öfgum og jafnvel hreinum lygum. Ég hygg að prestar hófseminnar ættu að tala við séra Karl. Ég hef það á tilfinningunni að í hvert sinnið sem hann opnar munninn með sínu herskáu orðum þá bresti á ný flóttabylgja úr Þjóðkirkjunni.
Friðrik Þór Guðmundsson, 4.12.2007 kl. 21:25
Vil líka í þessu sambandi minna á fyrri færslu um trúarbúðir fyrir börn í Bandaríkjunum
http://roggur.blog.is/blog/kristindyr/entry/334448/
Kristín Dýrfjörð, 4.12.2007 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.