Sparkvöllur, hallargarður og auðmenn Íslands

Þegar drengirnir okkar voru litlir var aðal hóp/fótboltasvæði litli sparkvöllurinn á bak við Fríkirkjuveg 11. Hér í neðri hluta Þingholtanna voru á þessum tíma nokkur svæði þar sem börn gátu leikið, það var garðurinn við Næpuna, þar er og var ágætis grasflöt, í garðinum við borgarbókasafnið í Þingholtsstræti (Esjuberg) og svo Hallargarðurinn, en aðallega sparkvöllurinn þar. Nú er búið að selja öll þessi hús til einkaaðila. Þegar til stóð að selja Fríkirkjuveg 11, var okkur borgarbúum lofað að garðurinn fylgdi ekki með. Nú virðist annað vera upp á tengingunum. Á Fríkirkjuvegi 11 hefur verið fjölmenn borgarstofnun sem virðist hafa þrifist ágætlega við hlið vallarins. Þegar sala á þessum húsum var kynnt á sínum tíma var okkur borgarbúum tjáð að einkaaðilar gerðu þessum húsum meiri sóma en opinberar stofnanir. Lesendur verða að afsaka að ég get því miður ekki séð að ofangreindum húsum hafi verið gerður neinn sérstakur sómi með sölunni. Það sé t.d. betur um þau hirt eða þau nýtt í þágu almennings eins og til stóð með t.d. Esjuberg, (mig minnir að borgaryfirvöld hafi verið svo ánægð með að selja, þar sem þar átti að reka frumkvöðlasetur fyrir ungt fólk eða eitthvað slíkt).

 

Fyrir nokkrum vikum voru ýmsir bloggarar yfirsig hneykslaðir á verktaka sem lætur húsið sitt við Bergstaðastræti drabbast niður, heyrðust raddir um að þetta væri kunn aðferð til að fá að rífa viðkomandi byggingu.Leyfa henni að verða svo mikil óprýði að nágrennið krefðist þess að hún væri látin fara. Mér hefur reyndar sýnst það sama um sparkvöllinn á bak við Fríkirkjuveg 11, hann er í algjörri niðurníðslu. Kannski það sé líka leið borgaryfirvalda til þess að fá okkur auma borgaranna til að samþykja glórulausa meðferð á eignum borgarinnar. Láta þá þær drabbast niður svo við fögnum peningar-mönnunum eins og frelsandi englum.

 

Niðurstaðan er að leiksvæði barnanna í miðbænum lokast hvert á fætur öðru. Ég vona að nýr meirihluti láti það ekki henda með Hallargarðinn og sparkvöllinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sammála, eins og vera ber. Ég myndi vilja segja margt um ráðagerðir og plön viðkomandi auðmanns vegna Fríkirkjuvegar 11, en hann er svo valdamikill að ég hika við það. Ég myndi vilja segja margt um undanlátsemi við tiltekna ofur-auðmenn, en þeir ráða svo miklu að ég hika við það. Ég myndi vilja segja margt um ofur-auðmenn sem eiga lögheimili erlendis og greiða þar með minna en ella til samfélagsins, en þeir eru svo valdamiklir að ég hika við það. Ég myndi vilja segja margt um ofur-auðmenn sem ritskoða fjölmiðla og bækur og endurtúlka söguna, en þeir eru svo valdamiklir að ég hika við það. Þess vegna held ég bara kjafti og vona að innistæðurnar mínar í Landsbankanum séu öruggar!

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.10.2007 kl. 13:58

2 Smámynd: Haffi

Tek undir orð Friðriks sem eru þó ekki sögð, jafnframt orð bloggeigandans.

Bendi jafnframt á að lóðin við Esjuberg hefur verið í órækt síðan Norskur auðmaður keypti húsið. En honum er samt fyrirgefið, þar sem hann hafði hugsanlega talað við Hrafn Gunnlaugsson, sem elskar órækt (sem er rækt í hans augum)

Haffi, 29.10.2007 kl. 16:50

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Maður hefur svo sem séð að garðurinn er í "niðurníðslu" en held að það sé líka kallað franska línan og við sem erum að myndast við að slá og reka niður laukum og blómum hér og þar, verður bara að sætta okkur við hitt. Þó mér finnist það svo sem ekki prýði, þá skil ég alveg að minn skilningur á því sem fagurt sé ekki sá sami og þeirra.

Kristín Dýrfjörð, 29.10.2007 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband