10.10.2007 | 00:58
Landsins stærsti leikskóli - eða alla vega næstum því
Skrapp þangað í heimsókn í dag þegar ég var búin að kenna í Hafnarfirði. Hann er líka í Hafnarfirði og heitir Stekkjarás,í Áslandshverfinu. Verð að viðurkenna að ég verð eilítið áttavillt þegar ég er að reyna að komast inn í hverfið. En það tókst.
Leikskólinn er 8 deilda og vinnur í anda Reggio Emilia. Skoðaði aðallega yngstu deildina sem var að opna og svo skapandi efnisveituna (Remidu) sem þau eru að koma sér upp. Michelle stýrir starfinu þar. Hún hefur verið óþreytandi við að eltast við ýmis fyrirtæki og stofnanir í bænum til að afla efniviðar. Mér sýnist henni bara ganga vel með það. Á meðan á heimsókn minni stóð komu nokkrir barnahópar með hópstjórunum sínum inn til að velja sér efnivið til að vinna með. Ótrúlegustu hlutir urðu þar að dýrmæti, annar hópur var með Michelle að taka í sundur gamla tölvu, allir hlutar hennar voru svo flokkaðir í þar tilgerð box og gengið frá þeim fyrir næsta hóp til að nota. Ein deild hafði orðið sér út um fullt af kössum inn í efnisveitunni, leikskólakennarinn var að hugsa um að leggja til við börnin að bygga úr þeim hús. En þau fundu fljótt miklu áhugaverðari not fyrir þá. Nefnilega kassabílagerð.
Á yngstu deildinni er verið að vinna í að gera umhverfið hlýlegt, ein í hópnum átti fallega bleikar og upplitaðar gangsæjar gardínur sem hún ætlaði að setja inn í efnisveituna, þær á litlu deildinni voru fljótar að grípa þær og ætluðu að nýta til að skipta herbergi. Inn í einu herberginu á deildinni eru þær búnar að setja hvítar gagnsæjar gardínur utan um hillu og þær sögðu mér að börnin elskuðu að leika þar. Í morgun var lítil drengur sem átti svolítið erfitt, var að byrja og stutt í táradalinn, þegar hann uppgötvaði "tjaldið" hurfu öll tár og frábær leikur varð til.
Við pældum líka aðeins í eðli óróa, þeir eru mér nefnilega pínu hugstæðir þessa daga, fór og keypti einn handa litlum ömmustrák. Var heillengi að velja. Fann nefnilega fljótt út að flestir eru hannaðir fyrir fullorðna til að horfa á, ekki fyrir börn. Með því á ég við að við horfum á þá á hlið og finnst þeir voða sætir, en hugsum kannski ekki eins um sjónarhorn barnsins. Sem er yfirleitt beint upp og undir þá.
Frá Stekkjarási voru fjórir leikskólakennara á námskeiði í Reggio Emilia Institutinu í Stokkhólmi, komu endurnærðar og fullar af hugmyndum til baka. Þær eru búnar að lofa mér skýrslu til að birta á heimasíðu SARE um leið og við komum henni upp.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 00:57 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.