6.10.2007 | 16:57
Skólasystur
Ég er með viðskiptahugmynd, sagði ein skólasystir mín í morgun. Ég ætla að bjóða nýja orkuliðinu að reka fyrir þá leikskóla, en bara fyrir börn kínverskra starfsmanna. Þau geta nefnilega verið sextíu á deild og það þarf bara einn kennara. Pottþétt hugmynd og ég mun mala gull. Ég náði reyndar bara í endann á þessari umræðu, kom í seinni kantinum og þær sögðust vera búnar að afgreiða, vinavæðingu orkuveitunnar, einkaleikskóla og starfsmannamál. Nú ættum við bara ræða um það að vera ömmur. Örfáar eftir í hópnum sem enn eru ekki komnar í ömmumafíuna, þær bara hlusta andaktugar.
Mikilvægi þess að eiga svona vinahóp er óendanlegt. Ég hef aldrei verið svo fræg að vera í saumaklúbb og á það sennilega ekki fyrir höndum. En í hverjum mánuði yfir vetrarmánuðina hittumst við skólastystur úr framhaldsnámi í stjórnun einn laugardagsmorgun og ræðum saman. Mest um leikskólamál en líka allar þessar fjölskyldur sem við eigum og svo auðvitað pólitíkina. Við er svo heppnar að vera í nær öllum flokkum (nema kannski frjálslyndum). Fyrir kosningar eru umræður oft ansi hressilegar og venjulega nokkur átök. Fyrir mörgum árum tókum við upp á að bjóða eiginmönnum með okkur nokkrum sinnum á ári. Hluti af hópnum fer t.d. reglulega í smalamennsku á Skjaldfönn á Snæfjallaströnd en þar er ein skólasystirin húsfreyja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.