Kastalinn í Blesugróf

Það er komið nýtt eintak af tímaritinu Ský í innanlandsfluginu, nokkrar greinar vöktu áhuga minn. Meðal annars af því að ég þekkti til.

Greinin sem aðallega átti athygli mína var um vefarann í heiðinni hann Óskar og konu hans Blómey. Árið 1970 flutti ég suður, ég flutti í þetta skrýtna hverfi sem margir skammast sín fyrir að vera aldir upp í, Blesugróf. Blesugrófin var svona eins og óhreinu börnin hennar Evu, eitthvað sem enginn vildi vita af. Ég átti heima í þeim hluta sem var efstur og tilheyrði í reynd Kópavogi. En til marks um hversu mikið við vorum útundan þá man ég vel þegar heitavatnaleiðslan í Breiðholtið var lögð upp með gamla Breiðholtsveginum framhjá Blesugrófinni. Það datt engum í hug að setja tengingu inn í hverfið og við sem þar bjuggum þurftum áfram að kynda með olíu. Ég held að á mörgum heimilum hafi ekki alltaf verið til fyrir olíureikningnum.

Kastalinn í Blesugróf (Ljósmyndasafn Reykjavíkur)

Kastalinn í Blesugróf

Í Blesugrófinni bjuggu ýmsir kynlegir kvistir, einn af þeim var Óskar. Á meðal barnanna í hverfinu gengu um hann tröllasögur. Við vorum, held ég flest, skíthrædd við hann og bara huguðustu krakkar þorðu að stela rabbabara úr garðinum hjá honum og Blómey. Það er líka minnisstætt þegar að þau fóru í göngutúra um  hverfið með geit í bandi og karlinn gyrtur hníf. Sögur gengu um að karlinn hefði byggt húsið niður í jörðina, held að einhver hafi haldið að það væri margar hæðir niður, dýpra en dýpstu bílakjallarar samtímans. Svo kom nýja Breiðholtsbrautin og kastalinn í skóginum þurfti að víkja. Trén voru víst sett niður meðfram Miklubrautinni, vonandi standa einhver þeirra þar enn. Ég held að við sem ólumst þarna upp gleymum aldrei þessum hjónum.

Stundum held ég að það hafi verið ákveðið lán að fá að kynnast því fólki sem þarna bjó, á jaðri samfélagsins. Mörgu harðduglegu fólki sem lífið fór oft um óljúfum höndum. Ég held að aðstæðurnar í Blesugrófinni hafi mótað viðhorf margra til lífsins fyrir lífstíð. Í dag segi ég stolt frá því að hafa verið alin upp í Blesugróf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband