20.9.2007 | 00:10
Hvað einkennir “Reggio” skólana?
Fyrst og fremst trú á getu barna, og trú á að þau hafi vit og vilja til að taka þátt í og móta það starf sem fram fer. Til að þetta sé hægt verða þeir sem vinna með börnum að afsala sér og afneita ákveðinni forræðishyggju gagnvart börnum en líka forræðishyggju gagnvart efniviðnum og notkun hans. Verða að leyfa sér að viðurkenna og ögra áhrifavöldum í lífi barna. Það sé ekki til réttur eða rangur efniviður, aðeins mismunandi leiðir til að nota hann og/eða fjalla um hann. Þess vegna getur verið jafn mikilvægt að vinna verkefni þar sem barbie eða batman eru í aðalhlutverkum og að byggja úr stærðfræðilega réttum einingarkubbum úr tré. Í skólum sem vinna í anda Reggio eiga börnin og starfsfólkið að vera samstarfsfólk. Þar er engin skömm að því að kennarinn segist ekki alltaf vita svarið. Það er hinsvegar skömm að því að reyna að komast undan að leita svara.
Kannski má segja að áherslan birtist í að ákveða ekki fyrirfram hvort eitthvað er mögulegt eða ómögulegt, áherslu á skapandi starf, á að barnið er og eigi að vera þátttakandi í að móta námskránna, það sem gert er í skólanum. Að öll tjáning og tugumál barna séu virt og viðurkennd. Leikskólarnir eiga að líkjast lifandi verkstæðum, þess vegna er mikilvægt að tryggja börnum frjálst aðgengi að öllum efnivið. Enginn efniviður er í sjálfu sér bannaður eða óæskilegur. Að lokum ætti það að vera sérkenni skóla sem kenna sig við starf í anda Reggio Emilia að leikskólinn, starfsfólkið, foreldrar og samfélag taki höndum saman og komi að starfi leikskólanna.
En er ekkert sem er gagnrýnisvert við skólastarf í anda Reggio Emilia? Auðvitað er það ekki fullkomið, auðvitað hefur það sína galla, enda það hættulegasta sem fyrir nokkrar aðferð/stefnu getur komið að telja sig hafa höndlað hinn stóra sannleik. Það er í slíkum draumum sem fallið er falið. Sjálf hef ég tekið undir gagnrýni um ákveðna þætti í starfinu í Reggio Emilia, um þá þætti skal ég fjalla síðar.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 5.12.2007 kl. 01:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.