Frumkvöðlar eða fylgjendur?

Fyrirlestur á stofnfundi SARE   (Samtök áhugfólks um starf í anda Reggio Emilia)

 

Velkomin öll, það er gaman að sjá og finna hversu vel hefur verið tekið í stofnun samtaka áhugafólks um starf í anda Reggio Emilia. Í tvo áratugi höfum við verið að grúska, mest hvert í sínu horni og stundum svolítið saman. Sumir leikskólar hafa frá upphafi skilgreint starf sitt í anda Reggio Emilia á meðan að aðrir hafa tileinkað sér ákveðna þætti eða sýn til barna. Sjálf telst ég til þessa síðastnefnda hóps. Hef oftast verið að á hliðarlínunni, en stundum með nefið á kafi. Eins og þið vitið sjálfsagt mörg hérna inni þá vildi Loris Malaguzzi minnst sjálfur skrifa um starfið í Reggio Emilia, hann óttaðist að með því móti yrði það að ákveðnum trúarbrögðum, heilagri kýr sem ekki mætti snerta. Hann hafnaði því að starfið sem slíkt væri hugmyndarfræði eða námskrá – en hann taldi það byggja á ákveðnum grunngildum, aðallega á gildum lýðræðis sem birtust í trú á getu barna, trú á mikilvægi skapandi og gagnrýnnar hugsunar, trú á því að með því að hafa öll skynfæri opin og hlusta með þeim öllum, vera vökul, gætum við kynnst því hvernig börn hugsa og læra. Við gætum þannig öll lært. Með því móti værum við samrannsakendur barna og þátttakendur í ævintýri daglegs lífs. Á þann hátt stuðluðum við að því að börnin okkar yrðu frumkvöðlar en ekki fylgjendur. Þannig væri líka tryggt að nýjasta þekking mæld á kvarða lýðræðis væri ávallt höfð að leiðarljósi í uppeldisstarfinu. Malaguzzi trúði líka á mikilvægi þess að láta reyna á mörk og ýmis landamæri, hann trúði á nauðsyn þess að fólk úr ýmsum stéttum af mörgum þjóðernum skiptust á skoðunum og störfuðu saman. Það var vegna þessarar sýnar sem borgin Reggio Emila opnaði leikskóla sína fyrir umheiminum. Hluti af þeirri opnun var farandsýning sem  vakti athygli víða um heim. Á vegum menntamálaráðuneytisins og Kjarvalsstaða kom sýning hingað árið 1988. Við höfum grafið upp frétt úr ríkissjónvarpinu frá þeim tíma. Það er skemmtilegt að geta þess að síðust 3 ár hafa Norrænu Reggiosamtökin verið að vinna í því að fá nýja sýningu frá Reggio Emilia og standa samningaviðræður yfir. Okkar von er að hægt verið að fá hana hingað 2008 eða 2009.

 

Brot úr fréttatíma frá því í maí 1988 sýnt.

 

Eins og sjá mátti í þessu myndbroti var leikskólinn Marbakki sá fyrsti sem skilgreindi sig sem skóla sem starfar í anda Reggio Emilia, það gerði hann fyrir nákvæmlega 20 árum. Litlu fyrr höfðum við sem vorum þá í Fósturskólanum fengið nasaþef af þessu ævintýr. Man sjálf eftir tíma í myndmennt þar sem við fengum að sjá slides myndir frá Reggio Emilia og undrun okkar yfir því sem við sáum þar. Fyrsti hópurinn sem heimsótti Reggio Emilia héðan gerði það reyndar vorið 1985 og voru það útskriftarnemar frá Fósturskóla Íslands.

 

Á þeim árum sem liðin eru hafa eins og áður er komið fram fjöldi skóla og fólks valið að deila lífsýn og viðhorfi til barna með fólkinu í Reggio Emilia. En mest hefur það þó verið á óformlegan hátt. Þó má ekki gleyma að árið  2001 stóðum við í Háskólanum á Akureyri fyrir alþjóðlegri ráðstefnu með norrænu Reggio Emilia samtökunum. Ráðstefnu þar sem núverandi uppeldis og heimspekilegur leiðtogi starfsins í Reggio Emilia, Carlina Rinaldi flutti inngangserindi. Af veikum mætti höfum við líka undanfarin ár haldið úti fréttabréfinu, Rögg, sem sum ykkar þekkið til. En vegna tímaskorts hefur það þó stundum farist fyrir.

 

Síðastliðin 3 ár hefur hópur starfsfólk leikskóla, aðallega á höfuðborgarsvæðinu og við frá HA hist til skiptis í nokkrum leikskólum. Þar hafa skólarnir kynnt starfsemi sína, sagt frá verkefnum sem þeir hafa verið að vinna að og sýnt og rætt um uppeldisfræðilegar skráningar sem hver leikskóli hefur unnið. En nú er komið að því að stíga nýtt skref.

 

Mig langar á þessu punkti að fá að deila með ykkur bréfi sem fundinum barst frá leikskólanum Iðavelli á Akureyri, en hann er einn þeirra skóla sem hefur nýtt sér og tileinkað sér margt frá Reggio Emilia. 

 

Sæl vinkona. Gaman að heyra af þessu framtaki ykkar í dag. Við á Iðavelli verðum með ykkur í anda og ég  vona að þið náið að kveikja góða strauma á fundinum. Fyrst hugsaði ég sem svo, hvaða þörf væri eiginlega á svona samtökum, væri ekki nóg að hafa þetta svolítið óljóst og loðið, nánast í anda stefnunnar sem ekki vill verða hugmyndafræði og svoleiðis. En þegar ég fór að hugsa (geri það stundum) þá er líklega ekki vanþörf á vettvangi til að bera saman bækur sínar og hitta aðra sem eru að pæla í svipuðum hlutum.

 

Aldrei aftur fasismi, stöðvum peningafasismann. Líklega eru vinnubrögð í skólum í anda Reggio Emilia besta leiðin til að beina þjóðfélaginu úr brjáluðu efnishyggjukapphlaupi, í að rækta anda, sál og líkama. Það þýðir lítið að breyta fullorðnu fólki en betra að leggja rækt í að sinna börnunum. Ég enda á því, að vitna í Önnu M. Guðmundsdóttur bónda á Hesteyri í Mjóafirði:

Börn njóta þess að vera treyst sem vitibornar manneskjur og búa lengi að þannig fræðslu. 

Jæja nóg um lofið nú er ég farin að roðna sjálfur, bless í bili, fyrir hönd leikskólakennara á Iðavelli, Arnar.

  

   Framtíðarsýn 

 

Ef til vill má segja að við deilum mörg þeim skoðunum sem þarna koma fram. Að við viljum vera opin og ekki of bundin á hugmyndafræðilegan klafa. Viljum geta haft svigrúm til þess að bregðast við nýrri þekkingu, með tillit til lífsýnar okkar. En samtímis hefur þörfin fyrir sameiginlegum umræðugrundvelli og samræðu okkar í milli vaxið. Við höfum þörf fyrir að bera saman bækur okkar, þörf fyrir að læra af og með hvert öðru. Til þess stefnum við á sameiginleg markmið, stefnumá að læra saman. Skipuleggja starfsdaga, námskeið og  ráðstefnur. Halda úti heimasíðu, vera virk í samfélagsumræðunni.

 

Þetta fyrst starfsár höfum við ákveðið að tileinka starfi í anda ReMídu, og ljúka því með ráðstefnu, smiðjum og námskeiði á 20. ára afmæli sýningarinnar á Kjarvalstöðum.

 

Takk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband