6.8.2007 | 02:23
Stéttin – hið forna hesthús betri borgara – möguleg sjálfbærni
Nú hillir undir lok fornminja-uppgraftrar hér í Miðstræti, upphaflega planið var að búa til smá stétt í suðvesturhorni garðsins. Stétt þar sem hægt væri að hafa lítið borð og tvo stóla. Þetta er nefnilega bletturinn sem sólin skín fyrst á í garðinum okkar. Hingað til hefur aðallega verið þarna órækt, sem gekk undir því vafasama nafni matjurtargarður. Þrátt fyrir að vera á sólríkum stað þreifst fátt í matjurtargarðinum, grænmetið ósköp væskilslegt og enn engin sólber komin á runna sem ég setti þar niður fyrir tveimur sumrum. Með lymskulegum aðferðum fór ég að ræða við Lilló og Snorra einn sameigenda um hversu gott væri nú á sólríkum morgnum að sitja þarna með kaffibolla og blöðin, jafnvel gætu þeir sem eru fyrir óhreint loft dregið það að sér þarna, óáreittir. Drengirnir smituðust fljótt af þessum sólaráhuga mínum og við ákváðum að helluleggja litla 7-8 fermetra stétt þarna. Þeim var tíðrætt um að eina vandamálið væri að þjappa jarðveginum nógu vel undir hellurnar, annars yrði þetta aldrei til friðs. (Ekki það að aðrar stéttir í garðinum séu til mikillar prýði, hvað þetta varðar, en hvað um það). Ég vatt mér í að fá gróðurkassa fyrir matjurtirnar og svo var hafist handa. Nema þegar Lilló er rétt byrjaður að grafa (vopnaður flugnabana) kemur hann niður á hlaðinn steinveg svona eins og 20 sentímetrum undir jarðveginum. Hann heldur áfram og finnur að innan steinveggsins er steypt botnplata. Við sem sagt erum búin að finna gamla hesthúsið og hlöðuna sem þarna var reist á öndverðri 20. öld. Og sögum samkvæmt eitt fyrsta steinhlaðna hesthús Reykjavíkur. Guð sé lof, nú er loksins komin skýring á væskilslegu grænmeti.
Misvirtar tillögur vina
Eftir samráðsfund á pallinum ákváðum við að halda uppgreftri áfram og láta stéttina falla innan hinna hlöðnu veggja, og leysa hæðarmun á einhvern skynsaman hátt. Ýmsir gestir hafa líka komið og látið ljós sitt skína. Ein vinkona vildi að ég málaði botninn og steinana bláa, fyllti af vatni og fengi mér svo sefgresi og vatnaliljur. Annar lagði til heitan pott, með loki sem hægt væri að umbreyta í sólpall með borði fyrir tvo. Heyrði að það freistaði sumra. Við fengum tillögu um að endurreisa húsið og leigja út aðstöðu fyrir póníhesta í Miðbænum. Var bent á að með því værum við að styðja við sjálfbæra þróun og jafnvel kolefnisjöfnun. Gætum nefnilega nýtt hestinn til að sækja aðföng á heimilið og beitt honum á blettinn og nýtt úrgang til að styrkja trjáræktina. Einhver hafði þó áhyggjur af metangasframleiðslu svona stórra dýra. Við aftur á móti erum að hugsa um að láta okkur duga litla sæta stétt.
Fornminjar aldarinnar fundnar
En við uppgröftinn hefur Lilló rekist á ýmislegt forvitnilegt, hann fann lítinn matsboks jeppa sem Trausti segist hafa tínt fyrir rúmum 20 árum, ryðgaðan meitil og hallamál, hanka af súputarínu, en ég ætla að láta fylgja með myndir af hinum ýmsu fornleifum fyrir áhugasama.
Þessi framkvæmdagleði í húsinu er ekki alveg bundin við nýju stéttina því Snorri ákvað að taka til hendinni og múra upp tröppurnar frá götunni og niður í garð. Gengur það verk líka afar vel. Á morgun ætla ég út í garð og taka myndir af öllum herligheitunum og birta hér.
Athugasemdir
Léstu Kristínu frænku mína hjá Fornleifavernd ríkisins vita?
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 8.8.2007 kl. 10:47
heheh, nei sá nú ekki ástæðu til þess, enda "fornminjar" okkar ekki nema rétt hundrað ára gamlar. En kannski er þetta samt hluti af borgarsögunni og merkilegt sem slík. Bílskúr þess tíma. Hér bjó prestur og hann hefur væntanlega þurft að komast leiðar sinnar. Reyndar stendur betri hluti veggs í garði nágranna okkar, en þetta hefur verið nokkuð veglegt hús. Ekki mikið minna en sumir steinbæirnir hér í nágreninu.
Kristín Dýrfjörð, 8.8.2007 kl. 13:08
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 9.8.2007 kl. 18:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.