10.7.2007 | 00:38
Kjarkleysi - mig brestur kjark til að steypa mér út í ...
Stundum er ég spurð hvort ég sakni þess ekki að vera ekki lengur á vettvangi vinna í sjálfri grasrótinni, í leikskólanum. Ég skal fúslega viðurkenna að ég sakna þess oft, ég sakna þess mikið, sérstaklega sakna ég samveru með börnum. Stundum þegar ég er orðin leið á að vera sem mest með mér hugsa ég til þess að kannski ætti ég að fara aftur inn í leikskólann. Sennilega verð ég líka að meira gagni þar en í háskólanum. Það er svo ótalmargt sem mig langar að gera, sem mig langar að prufa, nýjar leiðir sem ég vil fá að skoða og slóðir að troða í leikskólastarfinu. En svo man ég eftir síðustu árunum mínum í starfi, man eftir morgnum sem ég vaknaði og fyrsta hugsun með ónotum var, hvað skyldi vanta marga í dag? Það er nefnilega ekki nóg að byggja og byggja leikskóla ef ekkert er fólkið til að starfa.Starfa þar af metnaði. Auðvitað eiga öll börn rétt á leikskóla, en eiga þau ekki líka rétt á frábæru starfi og starfsfólki? Það skal fúslega viðurkennt að ég sakna þessara morgna ekki.
Svo skal viðurkennt að ég þekki það að vera góðu vön, þekki muninn á að vinna í andrúmslofti metnaðar og þess að láta hlutina ganga upp. Ég hef notið þeirra forréttinda að starfa í hóp með frábæru fagfólki. Ég held ég þyrfti að vera nokkuð örugg um það sama aftur til að þora út í laugina.
Ég tek hattinn ofan fyrir öllu því frábæra fólki sem er þarna úti að þreyja þorra og góu sem trúir því að betri tíð sé handann við hornið.
Athugasemdir
... fram á miðjan einmánuð því þá ber hún Branda Var það ekki annars lagið sem þú ert að vitna í?
svarta, 10.7.2007 kl. 19:01
örugglega ef þú segir það, hehe,
Kristín Dýrfjörð, 10.7.2007 kl. 19:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.