7.5.2007 | 10:33
Reynsla úr Þingholtunum
Fyrir nokkrum dögum bloggaði ég um reynslu af því að búa á næstu slóðum við gistiskýlið í Þingholtsstræti. Ég ákvað að birta hluta úr því bloggi aftur. Ég er að hluta alin upp á Sauðárkróki, þar sem sögunni um Guðmund góða og Heiðnaberg í Drangey var haldið mjög að okkur. Að í öllum samfélögum yrði að vera pláss fyrir þá sem sama samfélag vill að öllu jafnan ekki sjá eða vita af.
Ég gladdist því við að lesa grein í Mogganum 2. maí sl. eftir pjakk úr götunni minni, hann Bolla Thoroddsen. Þar ræddi hann reynslu sína af að alast upp nánast í næsta húsi við gistiskýlið í Þingholtsstræti. Húsið sem hann og krakkarnir í hverfinu kölluðu fyllibyttuhúsið. En ekki í illsku.
Húsið í Þingholtsstræti og fólkið sem þar átti sinn næturstað var hluti af æsku þeirra og umhverfi. Sem er enn hluti af því umhverfi sem ég bý í og hef gert í tvo áratugi.
Sonur minn upptvötaði hversu mikið öðruvísi Reykjavík hann var alin upp við þegar hann vann hjá ÍTR og þau fóru með krakkana úr úthverfunum niður í bæ - og hann sá þau börn upplifa í fyrsta sinn það sem var hluti af uppvexti hans. Hluti af því hlutskipti sem sumir búa við og við ræddum hér heima.
Ég vil taka undir með Bolla, hér höfum við aldrei orðið fyrir ónæði. Því miður er staðreynd að það er fólk á götunni. Af ýmsum ástæðum sem samfélagið getur ekki alltaf ráðið við. En við getum eftir aðstæðum búið þessu fólki mannsæmandi athvarf. Takk Bolli
Ps. Ræddi aðeins við son minn áðan og hann sagði, mamma það var einn galli á Farsótt (gistiheimilið gekk líka undir því nafni), þeir máttu ekki koma þar undir áhrifum en ef það var kalt þá brutu þeir smá af sér. Ég man sérstaklega eftir einum, sagði hann, algjör ljúflingur en hann gerði þetta oft. braut rúðu eða eitthvað og settist svo bara og beið eftir löggunni. Syni mínum finnst að Farsótt eigi að taka við fólki undir áhrifum.
Mótmæla staðsetningu á heimili fyrir heimilislausa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.