4.5.2007 | 23:56
Bakgarðar, gamlir hippar og læðan Snati
Þegar ég flutti í götuna mína fyrir rúmum tuttugu árum bjuggu hér enn eftirlegukindur hippaáranna. Gatan mín var einhver sú niðurníddasta í allri Reykjavík. Á hverju ári fengum við miða frá fegrunardeild borgarinnar sem lagði til að fólk færi að huga að bárujárni húsa sinna. Skvetta smá málningu hér og þar. Ég held ég hafi átti heima í ryðgaðasta húsinu í bænum.
Fólkið í kring um okkur fannst við léttrugluð að vilja búa í sjáfum miðbænum, með börn. Svona nærri öllum sollnum og látunum. Þetta var líka fyrir lengdan opnunartíma veitingastaða, þegar öllum var hleyp úr réttinni klukkan þrjú og drukkið fólk (úr úthverfunum auðvitað) ráfaði illa klætt um miðbæinn í leit að bíl. Á þessum árum, vorum við einmitt oft vakin af skemmtanaglöðum vinum og ættingjum sem þurftu skjól. Svo breyttist borgin og vinir og ættingjar urðu settlegt fjölskyldufólk sem fór ekki jafn oft í bæinn.
Í götunni bjó áður 68 kynslóðin, eftirlegur hippatímans, fólk sem hafði hugsjónir, líka um bakgarða. Einhvertíma á þessum árum höfðu öll grindverk milli garða verið rifin niður. Hér var stór bakgarður næstum eins og maður sér í London. Þar sem á bak við húsaraðir er stór og flottur sameiginlegur garður. Eins og enn má finna í gömlu verkamannabústöðunum á Hringbraut. Okkar var bara pínu, pínu trylltari.
En svo varð gatan okkar og göturnar í kring vinsælar, verðið á íbúðunum hækkaði, það fór að glitta í nýtt og nýmálað bárujárn. Á sama tíma voru sett niður limgerði, og reistar tveggja metra skjólgirðingar. Núna á hvert hús sinn blett, núna er ekkert flæði á milli húsanna. Núna heyrum við bara í garðsláttuvélum og finnum lykt af grilli. Núna eru allir út af fyrir sig, núna er allt einka. Í fyrra enduðum við eins og allir hinir, strákarnir í húsinu mínu, smíðuðu pall, með skjólgirðingu og ég gaf eftir blómabeð. Núna erum við eins og allir hinir. Nema hjá okkur er eina flaggstöngin í götunni og hingað kemur læðan Snati í heimsókn.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt 5.5.2007 kl. 14:09 | Facebook
Athugasemdir
Það var ekki laust við að kona fengi smá nostalgíu tilfinningu við lestu þessarar lýsingar, ekki vegna þess að ég hafi búið á þessu svæði, heldur vegna menntaskólaáranna því að þar náði ég í skottið á hippa-menningunni - en svo er hinn parturinn í frásögninni, þetta einka Það minnir mig á lýsinguna sem Þorbjörn Broddason gaf á breytingu á félagslega þættinum varðandi sjónvarpið. Áður safnaðist fólk saman til að horfa á sjónvarpið, nú fer hver inn til sín, lokar hurðinni á eftir sér og horfir á sitt einkasjónvarp í sínu einkaherbergi. En Kristín, ertu búin að kíkja á bloggfærslu dagsins (í gær) hjá undirritaðri? ég segi þar frá rannsókninni hennar Andreu Hjálmsdóttur, nema í HA
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 02:16
Sko ég var með sveittan í gær að klára yfirferð og opnaði varla bloggið nema til að LESA helstu vinkonur. Stóð svo á baktröppunum og sá bleikan, appelsínugulan himinn og allar girðingarnar, sko.
Kristín Dýrfjörð, 5.5.2007 kl. 12:46
og svona af því að þú ert með nostalgíu, þá berast mér nú þar sem ég sit hlátursköll úr portinu á miðbæjarskólanum, (gamla MT) en þar eru nú staddir síðasti MT árgangurinn, að fagna 30 ára afmæli sínu. ætla svo að labba glöð um hverfið og skoða hús og knæpur held ég líka, verst að Tröð er farin, en þau geta skellt sér í Eymundson kaffi varla tekur Mokka þau öll. Lilló er í hópnum og fór held ég brosandi hringinn af tilhlökkun.
Kristín Dýrfjörð, 5.5.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.