Leikskólakennarar þurfa að muna að setja súrefnisgrímuna á sig

Fækkun leikskólakennara hjá borginni um 2% er gríðarlega alvarlegt mál fyrir leikskólana þar. Því miður get ég ekki sagt að mér komi þessar tölur á óvart og er ein þeirra sem hef bent að þessi þróun væri í farvatninu. Ef borgin ætlar að snúa þróuninni við verður hún að vinna í vinnuaðstæðum starfsfólks. Fólk sem vinnur við vondar aðstæður ár eftir ár og þegar á ofan bætist lítil sem engin nýliðun leikskólakennara á sér stað, það verður vonlítið í starfi, álagið sligar það og starfsfólk verður auðveldari bráð allra umgangspesta. Álagskennd veikindi fara líka að hrjá það. Bæði börn og starfsfólk eiga betra skilið.

Tölurnar ganga ekki upp - aðgerða er þörf

Mér hefur ítrekað verið hugsað til þeirra talna sem fjármálastjóri menntasviðs borgarinnar tók saman og ég fjallaði um nýlega. Þar kemur t.d. í ljós að leikskólastjórar þurfa að að hafa til starfsfólk fyrir rétt tæpa 2000 tíma fyrir hvert barn á móti tæplega 1000 tímum í grunnskólanum. Tími barnanna hefur aukist á síðustu 8 -10 árum. Þyngslin hafa orðið meiri. Húsæðið betur nýtt (ofnýtt), fermetrarnir orðið færri og á síðustu tveimur árum hefur verið hert á starfsmannamálum og t.d. dregið úr afleysingum. Það er líka ágætt að hafa í huga að í leikskólum kemur ekki inn afleysing fyrir kaffitíma starfsfólks, þannig er meðalbarnið 8,2 tíma á deildinni sinni en starfsfólk er 7,25 tíma.

Undirbúningstímar þurfa að verða heilagir 

Í grunnskólum er undirbúningstími kennara heilagur, þó það vanti fólk í skólavistina þá hlaupa kennarar ekki til (mér vitanlega) og leysa upp á von og óvon um að fá undirbúningstímann sinn þegar betur stendur á. Ég hef hinsvegar heyrt foreldra í leikskólum kvarta undan fundartíma starfsfólks - yfir því að fólk fari í undirbúning. Hvort það sé ekki tímasóun og tímaum betur varið með börnunum. Ég held að það sé nokkuð algengt að það sem víkur fyrst af öllu í flestum leikskólum þegar stefnir í mannahallæri eru réttindi starfsfólks.

Súrefnisgríman er fyrst sett á fjölskyldur og börn - svo starfsfólkið 

Ég er þeirrar skoðunar að þegar þarfir starfsfólks eru ávallt látnar víkja fyrir þörfum annarra sé það eins og að setja grímuna fyrst á barnið og svo á sjálfan sig í fluginu. Ef flugið fer niður er sá sem fyrst hugsar um barnið og svo um sig líklegri til að verða barninu að meira ógangi en gangi í reynd. Ef starfsfólk leikskóla fer ekki að hugsa um eigin hagsmuni er hætt við að það fari eins um það og þá í reynd leikskólann og börnin sem þar eru. Leikskólakennarar verða að fara að setja súrefnisgrímuna á sig, það gerir það enginn fyrir þá.

Baráttan stendur vissulega um laun en hún stendur ekki síður um vinnuaðstæður. Sveitarfélögin verða að fara að átt sig á því.  

PS. Það er best að viðurkenna að ég missti mig aðeins á lyklaborðið eftir að hafa lesið um fækkun leikskólakennara hjá borginni. Mér hefur verið bent á að uppsagnir hjá borginni hafi ekkert verið óeðlilegar, bara fólk að skipta um vinnustaði, ég get keypt það, en það er óeðlilegt að mikill fjöldi virðast hafa fært sig frá borginni. Það eru hljóð en samtímis æpandi skilaboð.


mbl.is Lægra hlutfall leikskólakennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband