25.9.2012 | 23:05
Úlfar í sauðagærum - um menntun leikskólakennara
Leikskólakennarar börðust í áratugi fyrir að menntun þeirra stæði jafnfætis menntun annarra kennarastétta. Árið 1996 náðist það en þá var stofnuð braut fyrir leikskólakennara við Háskólann á Akureyri. Strax varð mikil aðsókn að náminu þar. Árin upp úr aldamótum fór HA í átak með mörgum sveitarfélögum sem gerðu sitt til að hvetja fólk í nám, m.a. fékk það launað leyfi til að sækja lotur á Akureyri og tíma á fjarendum (námið var byggt upp sem fjarnám í hóp). þá sýndu sveitarfélögin metnað og framsýni fyrir hönd leikskóla og barna.
Lenging
Með nýjum lögum um kennaranám og löggildingu starfsheitis leikskólakennara var allt kennaranám lengt í fimm ára meistaranám. Með lengingu á menntun kennara stóð aldrei annað til en að öll kennaramenntun væri samferða. Sveitarfélögin gerðu athugasemd í þinginu við að lenging ætti við leikskólakennara (sorglegt að horfa upp á það metnaðarleysi), menntamálanefnd ákvað að hlusta ekki á þær mótbárur. Nefndin ákvað að vera framsýn og stórhuga. En hvað er það sem í raun truflar sveitarfélögin, hvað er það sem þau ekki segja?
Úlfahjörð í sauðagærum
Sveitarfélögin hafa af því áhyggjur að þegar fólk fer að útskrifast með leyfisbréf eftir fimm ára nám þá á það rétt á 6 launaflokkum ofan á grunnlaun (9% hærri laun en það hefur eftir 3ja ára námið), sveitarfélögin hafa af því áhyggjur að sú hækkun komi til með að ná til allra þeirra sem hafa leyfisbréf þ.e. til allra leikskólakennara. Það er þess vegna sem þeim er í mun að vinna gegn fimm ára náminu og það núna strax. Því miður. Hins vegar bera þeir ekki fyrir sig peningarökum heldur gerast úlfar í sauðagæru og benda á fækkun nema og áhyggjur af stéttinni. Ég held að sveitarfélögin geti alveg andað rólega. Það tekur kannski nokkur ár að rétta úr námskútnum en við réttum úr honum.
Námið réttir úr sér
Það er ljóst að nám sem hefur farið í gegn um jafn miklar breytingar og kennaranámið, að fólk er aðeins að gefa því svigrúm og sjá hvernig það þróast. Ég trúi því staðfastlega að ef okkur sem erum innan háskólanna og þeim sem eru úti í leikskólum tekst að sýna fram á hversu spennandi og margþætt þetta nám er þá fáum við nemana aftur og það í stórum stíl. Það er upp á okkur í samvinnu við stéttina að auglýsa og sýna fram á bæði hvað námið er vítt og gefandi en líka hvað starfið er í raun stórkostlegt. Það er líka menntamálaráðuneytisins að styðja við leikskólanámið í gegn um þennan umbrotatíma, gefa því svigrúm.
Að lokum um launin
Margir velta fyrir sér hver séu laun leikskólakennara fyrir og eftir meistaranám. Samkvæmt því sem mér sýnist þá eru deildarstjórar með meistaragráðu 34 ára og yngri samkvæmt síðustu launatöflu (sept. 2012) með 362.284 frá 35 - 40 ára er hann með 372.435 og 382.893 ef hann er orðinn fertugur. Ofan á þessa tölu á eftir að bæta launaflokkum vegna símenntunar við en þeir geta mest orðið 6 (9%).
Að lokum í morgun var ég í útvarpinu RÁS 1 að ræða meðal annars menntamál leikskólakennara og starfið í leikskólanum. Læt fylgja með hlekk á þáttinn, Okkar á milli.
http://www.ruv.is/sarpurinn/okkar-a-milli/25092012-0
Bloggið er auðvitað byggt á mínum eigin ályktunum um hvað vakir fyrir fulltrúum sveitarfélaga þegar þeir ráðast af hörku gegn menntun leikskólakennara.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 26.9.2012 kl. 01:31 | Facebook
Athugasemdir
Í alvöru talað, finnst þér ekkert skringilegt að það skuli þurfa 5 ára háskólanám til að gæta barna?
Finnist þér það ekki, er þá ekki áhyggjuefni að börn skuli vera stóran hluta sólarhringsins eftirlitslaus í umsjá foreldra sem oft á tíðum eru algerlega ómenntuð?
Hólmgeir Guðmundsson, 26.9.2012 kl. 19:59
Ummæli þín dæma sig sjálf Hólmgeir Guðmundsson.
Það er greinilegt á skrifum þínum að þú hefur litla innsýn í störf leikskólakennara en ég get fullyrt að þar fer meira fram en "bara" gæsla barna. Ég hvet þig til að kynna þér það góða og fjölbreytta starf sem fram fer á leikskólum landsins og minni þig á að leikskólinn telst vera fyrsta skólastigið og ber að meta það sem slíkt.
Ég er sjálf menntaður leikskólakennari en hef verið búsett í danmörku síðastliðin 6 ár, hef meðal annars meðfram námi unnið á leikskólum hér úti og fullyrði hér og nú að leikskólastarf á Íslandi er til algerrar fyrirmyndar hvað varðar fagmennsku og metnað.
Um lengd námsins og hæfni foreldra til að sinna sínum börnum ætla ég ekki að tjá mig en finnst viðhorf þitt enn meira áhyggjuefni en ofantalið.
Góðar stundir! :o)
Íris Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.